Grein

Karl V. Matthíasson.
Karl V. Matthíasson.

Karl V. Matthíasson | 08.08.2006 | 09:02Beltin, axlaböndin og bætur bankanna

Nú fagna bankaeigendur stórgróða miklum. Þessi stórgróði verður til að miklu leyti vegna verðbótanna.Verðbæturnar eru reiknaðar út frá vísitölum svo sem verði á húsnæði, matvælum, eldsneyti og öðru. Ef kaffið og klósettpappírinn hækka, þá hækka lánin. Verðbæturnar eru svo lagðar reglulega ofan á höfuðstól lánanna og þau hækka og hækka. (Hér vaknar sú spurning hvort verðbæturnar sjálfar valdi ekki aukinni verðbólgu).

Fólk sem fékk að láni fimmtán milljónir króna fyrir rúmu ári síðan og hefur greitt að meðaltali áttatíu þúsund á mánuði eða tæpa eina milljón horfir á þetta lán í tæpum sextán milljónum króna þó búið sé að greiða svona mikið af því. Og ef þetta heldur svona áfram endar það með því að skuldarinn ræður ekki við að borga lánið og missir íbúðina sína og verður svo að leigja hana af bankanum og þá eftir hræðilega niðurlægingu, áhyggjur og kvíða.

Bankarnir eru verðbótaþegarnir sem missa ekki bæturnar sínar eins og öryrkjarnir og gamalmennin. Hvað er eiginlega í gangi? Ætlum við endalaust að sætta okkur við þetta? Stundum er sagt: „Verðbólgan fer beint út í verðlagið“ en við getum líka sagt: „Verðbólgan fer beint inn í framtíð skuldaranna“. Sérstaklega unga fólksins sem er nýlega búið að taka lán og sér þau hækka og hækka vegna þess að við höfum ekki tök á verðbólgunni. Það verður að endurskoða útreikninga verðbótaþáttarins í samráði við þá sem þurfa að greiða þær. Kannski væri best að fella þær algerlega niður. Sanngirni verður að minnst kosti að vera fyrir hendi en hún er það ekki í dag.

Það var framsóknarráðherra sem sagði fyrir 15-20 árum að fella mætti verðbæturnar niður þegar verðbólgan væri komin niður fyrir 10%. Annar framsóknarráðherra sagði fyrir fjórum árum að það gengi ekki upp að bankarnir hafi bæði belti og axlabönd, en ekkert er hægt að gera, engu er hægt að breyta að minnst kosti ekki hingað til og ekkert bendir til að þetta lagist þó skipt séu um nokkra ráðherra á hverju ári.

Á hverjum degi hækka skuldir landsmanna um milljónir króna án þess að við tökum ný lán, allt vegna verðbótaþáttarins. Sumir spyrja hvort þegjandi samkomulag sé hjá forkólfum ríkisstjórnarinnar, seðlabankans og lífeyrissjóðanna um að verðbæturnar séu hin einu sönnu hagstjórnartæki. Og einnig má spyrja hvort tilvist verðbótanna sé ástæða þess að matarverð sé ekki lækkað. Það væri stórkostlegt ef matarverð lækkaði mikið - þá myndu skuldirnar líka lækka.

Það hjálpar okkur lítið þó fasteignir hækki ef launin standa í stað og mannskapurinn getur ekki greitt niður lánin af því að verðbæturnar keyra þau upp. Sú var tíð að fjöldi fjölskyldna missti húsnæði sitt vegna slíkra saka. Stefnum við inn í þá tíma aftur? Flugvöllur hinnar mjúku lendingar er heimili hins vinnandi manns og því er bráðnauðsynlegt að stóraukinnar ábyrgðar sé gætt í hagstjórn landsins svo heimilin gjaldi ekki þess ábyrgðarleysis sem nú einkennir hana.

Karl V. Matthíasson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi