Grein

Einar Kristinn Guðfinnsson.
Einar Kristinn Guðfinnsson.

Einar Kristinn Guðfinnsson | 20.07.2006 | 16:27Margþætt samkomulag bætir kjör eldra fólks

Niðurstaðan sem fékkst af samráði eldri borgara og fulltrúa ríkisvaldsins og kynnt var í gær er ákaflega þýðingarmikil. Forystumenn eldri borgara hafa talið umbjóðendur sína hafa fengið minni skerf af lífskjarabatanum en tilefni var til. Enginn hefur þó efast um að kjör eldra fólks hafi batnað. Spurningin hefur staðið um hvort þau hafi batnað til jafns við tiltekna þjóðfélagshópa sem hafa verið til viðmiðunar. Með samkomulaginu í gær er innsiglaður árangur sem í senn bætir hag eldri borgara og skapar meiri vissu um kjör þeirra.

Samkomulagið er í rauninni margþætt. Fyrst má nefna fjárhagsatriðin. Með margvíslegum breytingum og einföldun á bótakerfi eru kjör eldra fólks bætt. Sannarlega eru lífskjör þeirra breytileg eins og annarra í okkar þjóðfélagi. En með samkomulaginu frá í gær er verið að koma almennt til móts við óskir eldri borgara sem settar hafa verið fram í þjóðfélagsumræðunni.

Þá er sérstaklega tekið á búsetumálum eldra fólks. Það er á margbrotið mál. Búsetuúrræðin sem þar eru möguleg og geta verið möguleg eru margvísleg. Eðlilegt er að eldra fólk vilji sem lengst búa í sínum húsakynnum, en það kallar á heimaþjónustu sem sveitarfélögum ber að sinna. Slíkt dregur líka úr þörf fyrir stofnanaþjónustu, sem þó er nauðsynlegt úrræði fyrir hluta eldra fólksins. Fullyrða má að víða er mjög vel að slíkum úrræðum staðið og dvalarheimilin mjög vel úr garði gerð. Annars staðar þarf að bæta þá þjónustu og sníða að nútímaþörfum.

Loks er að nefna, eins og Geir H. Haarde forsætisráðherra hefur gert, samspil þessara aðgerða nú við annað það sem gert hefur verið á vettvangi ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna. Nefna má samkomulagið við aðila vinnumarkaðarins og skattalagabreytingarnar sem sigla munu í kjölfarið. Ákvörðun okkar um að fella niður eignaskatt og fleira af þeim toga. Allt bætir þetta kjör eldra fólks.

Þegar samspil allra þessara þátta er skoðað, er alveg ljóst að við erum að leggja grunn að bættum hag eldra fólks. Það á líka að vera okkur keppikefli og aðgerðirnar nú og fyrr sýna að svo hefur það verið í þessu ríkisstjórnarsamstarfi.

Einar Kristinn Guðfinnssonekg.is


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi