Grein

Halla Signý Kristjánsdóttir.
Halla Signý Kristjánsdóttir.

Halla Signý Kristjánsdóttir | 19.07.2006 | 15:31Verðbólgudraugurinn og framkvæmdir

Á undanförnum vikum hefur ríkisstjórnin farið mikinn og boðað átak gegn verðbólgudraugnum sem virðist vera að vakna upp eftir nokkurn dvala. Því ber að fagna, en það flýgur óneitanlega að manni að landsfeðurnir hafi sofið með honum og ekki rumskað fyrr en hornin á verðbólgunni var farið að standa illilega í síðunni á þeim. Því varla hefur þessi þensla í þjóðfélaginu hagað sér í samræmi við Kötlugosið, sem er óútreiknanlegt og ófyrirséð hvenær af gosi verður. Þenslan hefur auðvitað verið í takt við framkvæmdir ríkisstjórnarinnar síðast liðin ár. En nú skal stöðva óæskilegar blæðingar í hagkerfinu og fer Sturla Böðvarsson með nokkurn hræðsluáróður í grein sinni á bb.is í gær. Nú skulu allir taka höndum saman og draga úr framkvæmdum þá sérstaklega sveitarfélögin, annars verður ekki úr þeim samgöngubótum sem boðaðar hafa verið.

Blóðmissir hagkerfisins

Hagkerfinu má líkja við líkamsstarfsemina þar sem allir útlimir og æðakerfi er samtvinnað og þegar að þrengir að á einum stað hefur það áhrif á annan. Til að stoppa verðbólgudrauginn, sem stafar af virkjunarframkvæmdum og framkvæmdum sveitarfélagana þá skal hætta við vegaframkvæmdir hér á Vestfjörðum og á Norðausturlandi. Ef ekki þá blæðir hagkerfinu út eða verður vanhæft af blóðmissi. En fyrir okkur Vestfirðinga hljómar verðbólguaðgerðir ríkisstjórnarinnar líkt og það sé verið að binda fyrir vitlausan útlim til að stöðva blóðrásina. Vissulega hefur það áhrif að draga úr framkvæmdum um allt land, en er hægt að draga úr framkvæmdum sem engar eru?

Það er mikill munur á tekjumöguleikum sveitarfélagana í landinu. Þau sveitarfélög sem eru nær eða í þenslunni hafa sannarlega meiri tekjumöguleika en hin og hafa haft meiri bolmagn til framkvæmda. Það mætti jafna þann möguleika og ætti ekki að hafa áhrif á verðbólguna ef að stjórnvöld kæmu á móts við þá landshluta sem hafa „misst“ af þenslunni. Þetta mætti gera með því að flytja starfsemi eða ný störf á vegum hins opinbera þangað. Við það myndi afkoma sveitarfélagana batna.

Er þensla eitthvað sem er haft ofan á brauð?

Vestfirðingar hafa lítið haft að segja af því góðæri sem fylgt hefur þenslunni sem hefur verið í þjóðfélaginu undanfarinn misseri. Ekki hafa framkvæmdir á vegum ríkisins verið að trufla okkur né það að sveitarfélögin hafi haft bolmagn til að standa í stórræðum. Einstaklingar hafa þó notfært sér aukið lánaframboð fjármagnsfyrirtækna og ráðist í framkvæmir og íbúðarverð hér á norðanverðum Vestfjörðum aðeins þokast upp á við, og byggingarframkvæmdir verið nokkrar.

Framkvæmdagleði sveitarfélagana hefur þó ekki verið í takt við þetta og hafa sveitarfélögin ekki framkvæmt nema það sem þau hafa verið neydd til, til að standa undir lagalegri skyldu sinni gagnvart borgurunum og vantar samt upp á að þau standi fyllilega sína plikt, enda flestar framkvæmdir gerðar upp á krít því lítið er í kassanum.

Samgöngubætur nauðsynlegar

Samgöngubætur á milli staða hér á Vestfjörðum eru nauðsynlegar, til að standa undir þeim nútímakröfum sem gerðar eru. Hafnar eru rannsóknir á mögulegum jarðgöngum til og frá Bolungarvík. Niðurstöðum má vænta í haust og vonandi að framkvæmdir við þessa þráðu samgöngubót verði hafnar á næsta ári. Þessari framkvæmd né þeim vegaframkvæmdum sem á að ljúka í Ísafjarðardjúpi má ekki fórna fyrir virkjunarframkvæmir á Austfjörðum eða álveri á Norðurlandi. Eina þenslan sem Bolvíkingar hafa orðið varir við á síðustu misserum er sú þensla sem virðist hafa aukist í fjallshlíðinni á Óshlíð og grjóthruni sem af henni stafar.

Verðbólgan kveðin í kútinn

Það er vonandi að baráttan við verðbólguna takist, svo hitinn í hagkerfinu minnki. Vestfirðingar geta borðið höfuðið hátt með hreina samvisku enda hafa þeir haldið niður í sér andanum lengi og beðið þolinmóðir eftir að röðin kæmi nú að þeim. Það hlýtur að vera komið að okkur, eða stöndum við í vitlausri biðröð?

Halla Signý Kristjánsdóttir, starfandi bæjarstjóri í Bolungarvík.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi