Grein

Ingibjörg Einarsdóttir.
Ingibjörg Einarsdóttir.

Ingibjörg Einarsdóttir | 18.07.2006 | 13:45Ég hef ekkert vit á siglingum!

En mig langar til að vekja athygli á því frábæra starfi sem siglingaklúbburinn Sæfari er að vinna hér í bænum. Synir mínir tveir 8 ára hafa verið á siglinganámskeiði á vegum Sæfara undanfarinn hálfan mánuð. Þessi námskeið eru uppbygging fyrir börnin til anda, sálar og líkama. Þau hafa fengið að spreyta sig úti í náttúrunni og takast á við ýmis veður og ýmsar þrautir undir góðu eftirliti, hvatningu og fræðslu sem mun nýtast þeim til framtíðar. Það er börnum hollt að læra að virða takmörk sín en jafnframt að læra að taka áskorun sem reynir mátulega mikið á huga, þor og líkamshreysti. Þessi námskeið innihalda fjölbreytt viðfangsefni og alltaf var mikil tilhlökkun í loftinu þegar verið var að tygja sig af stað á morgnana, og alltaf voru það dasaðir en mjög ánægðir ungir menn sem ég hitti að loknum ævintýradegi þar sem þeir upplifðu að þeir hefðu sigrast á þeim þrautum sem dagurinn bar í skauti sér.

Andrúmsloftið í siglingaklúbbnum er sérstakt þegar maður hittir fólkið sem er hjarta og sál samfélagsins þar. Áhuginn á íþróttinni er brennandi og unnið er fórnfúst starf varðandi það að búa sem best að börnunum og fullorðnum sem koma þangað. Eins og ég kom að áður er það ekki bara hreyfingin sem málið snýst um þetta er eitthvað sem snertir anda sál og líkama, nálægðin við sjóinn er ólýsanleg og ómetanlegt að læra að umgangast þetta náttúruafl með virðingu án þess að óttast það.

Ég þakka fyrir mín börn sem hafa fengið að njóta þessa og bið ykkur blessunar áframhaldandi í þessu starfi.

Ingibjörg Einarsdóttir, leikskólakennaranemi.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi