Grein

Magnús Ólafs Hansson.
Magnús Ólafs Hansson.

Magnús Ólafs Hansson | 14.07.2006 | 09:39Áhyggjulaust ævikvöld í Bolungarvík?

Árið 1982 var uppstigningardagur útnefndur Kirkjudagur aldraðra hér á landi, í samráði við Ellimálanefnd þjóðkirkjunnar. Hugmyndina átti Pétur Sigurgeirsson biskup. Frá þeim tíma hefur eldri borgurum og fjölskyldum þeirra verið boðið sérstaklega til guðsþjónustu í kirkjum landsins þann dag. Og þannig verður það framvegis. Ekki er verra ef þetta hjálpar til að minna reglulega á arfinn, sem þessir einstaklingar hafa skilað þjóðarbúinu á langri ævi en er þó víða lítils eða einskis metinn.

Æskudýrkun samtímans hefur leitt af sér nánast algjört virðingar- og skilningsleysi gagnvart þeim, sem við eigum þó tilveru okkar og hagsæld að þakka. Dagsverk þessa nú aldraða fólks er hornsteinninn, sem nútímasamfélagið byggir á. Að skilja það ekki, að viðurkenna það ekki, að tregast við að þakka, með tilheyrandi niðurlægingu fyrir þolendurna, er óafsakanlegt með öllu, æpandi og meiðandi svívirða sem ekki má líða. Aldraðir íbúar þessa lands eiga ekki að vera olnbogabörn þjóðarinnar. Okkur ber að líta til þeirra með stolti og búa þeim áhyggjulaust ævikvöld.

Nú skal spurt: Getur verið að bæjaryfirvöld í Bolungarvík hafi unnið öldruðum gagn hér í bænum? Getur verið að bjartara sé framundan í þessum efnum? Eða er bara um að ræða kosningaáróður stjórnmálamanna á landsvísu? Mér er kunnugt um að á síðasta kjörtímabili voru hugmyndir lagðar fyrir bæjaryfirvöld, bæði á opnum fundi og bréfleiðis, varðandi viðbyggingu við Árborg, íbúðir aldraðra, í Hvíta húsinu svokallaða hér í Bolungarvík.

En hvað hefur gerst í þeim efnum? Farið hefur verið með þessar hugmyndir eins og þær hafi aldrei verið fram bornar. Bréfi vegna þessara hugmynda hefur heldur ekki verið svarað. Þegar kjörtímabili var í þann veginn að ljúka vöknuðu menn af vondum draumi og létu gera úttekt vegna málefna eldri borgara hér á staðnum. Niðurstöður hennar komu ekki á óvart. Það reyndist vera skoðun eldri borgara í Bolungarvík, að byggja þurfi fleiri íbúðir við Árborg.

Fyrir mér eiga aldraðir meiri rétt á öryggi og áhyggjuleysi en við hin, sem höfum ekki náð þeim aldri að vera ýtt út af vinnumarkaði. Mín skoðun er sú, að okkur beri skylda til að sjá svo um, að aldraðir hér í Bolungarvík, og reyndar á landsvísu, eigi þann sjálfsagða rétt að eiga öruggt og áhyggjulaust ævikvöld. Og vonandi eigum við hin þess kost að verða gömul.

Í X. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, sem fjallar um þjónustu við aldraða, eru m.a. eftirfarandi ákvæði: „Sveitarstjórn skal stuðla að því að aldraðir geti búið við eðlilegt heimilislíf í umgengni við aðra svo lengi sem verða má... Sveitarstjórn skal sjá um að félagsþjónusta aldraðra sé fyrir hendi í sveitarfélaginu eftir þörfum... Jafnframt skal tryggja öldruðum aðgang að félags- og tómstundastarfi við þeirra hæfi. Í því sambandi skal lögð sérstök áhersla á fræðslu og námskeiðahald um réttindi aldraðra og aðlögun að breyttum aðstæðum sem fylgja því að hætta þátttöku á vinnumarkaði... Aldraðir eiga rétt á almennri þjónustu og aðstoð samkvæmt lögum þessum...“

Mín skoðun er sú, að hér í Bolungarvík hafi ekki verið unnið að öllu leyti í anda þessara lagafyrirmæla. Það er alveg ljóst, að fjölmargir eldri íbúar hafa ekki þrek eða heilsu til að annast snjómokstur. Þess vegna eiga þeir í erfiðleikum með að komast að og frá heimilum sínum, hvort heldur er til að versla, eiga samvistir við samborgara sína, njóta almennrar þjónustu sveitarfélagsins og heilsugæslunnar eða komast í apótek, svo dæmi séu tekin.

Ekki hefur sveitarfélagið boðið eldri borgurum upp á það að mokað væri snjó frá húsum þeirra í mestu snjóum. Í síðustu viku var hins vegar tilkynnt að bæjaryfirvöld hefðu ákveðið að bjóða ellilífeyrisþegum og öryrkjum upp á aðstoð við garðslátt gegn tvö þúsund króna gjaldi, enda leggi þeir sjálfir til sláttuvél.

Hver skyldi hafa verið ástæðan fyrir því, að bæjaryfirvöld efndu ekki til opinna borgarafunda með Bolvíkingum á síðasta kjörtímabili (og það sem af er þessu), þar sem m.a. hefði verið hægt að ræða þessi mál? Höfðu (hafa) bæjaryfirvöld eitthvað að fela?

– Magnús Ólafs Hansson. Höfundur er framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Bolungarvíkur.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi