Grein

Jón Bjarnason.
Jón Bjarnason.

Jón Bjarnason | 04.07.2006 | 12:03Hverjir eiga að standa skil á stóriðjutollinum?

Efnahagsvandinn sem nú er glímt við felst í stóriðjustefnunni og ruðningsáhrifum hennar. Aðgerðirnar sem ríkisstjórnin boðar í efnahagsmálum eru kunnuglegar: Þrengt er að Íbúðalánasjóði, ráðist á þá sem eru efnaminni, ungt fólk sem er að koma sér upp húsnæði, íbúa landsbyggðarinnar sem hafa einmitt notið stuðnings sjóðsins. Það lítur fremur út sem hefndaraðgerð gagnvart helsta kosningaloforði Framsóknarflokksins en úthugsuð aðgerð í efnahagsmálum að skera lánshlutfall sjóðsins niður úr 90% í 80%.

Önnur úrræði ríkisstjórnarinnar eru að skera niður vegaframkvæmdir, sérstaklega á landsbyggðinni, sem eru þó í lágmarki og höfðu áður verið skornar niður til að draga úr þenslu vegna stóriðjunnar. Brýnar vegaframkvæmdir sem áður höfðu verið samþykktar af alþingi er nú skornar. Hvers vegna eru íbúar á Vestfjörðum, Norðvestur- og Norðausturlandi stöðugt sviknir og þeir sérstaklega látnir taka á sig stóriðjutollinn ár eftir ár?

Athygli vekur að í tillögum ríkisstjórnarinnar er hvergi minnst á að draga úr eða slá af undirbúningi stóriðjuframkvæmda. Þar eru þó stærstu verkefnin. Landsvirkjun er á fullu í rannsóknum, hönnun og undirbúningi á nýjum virkjunum fyrir stóriðju og sama gildir um Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja.

Álver hér- álver þar og álver allstaðar!

Í fjölmiðlum glymur: Álver í Helguvík, stækkun álversins í Straumsvík, stækkun álversins á Grundartanga, álver við Húsavík, boranir hér og virkjanir þar ... Undirbúningur alls þessa er á fullu skriði. Því fer þó fjarri að þeirri óheilla framkvæmd sem Kárahnjúkavirkjun er sé lokið og starfsleyfi vantar enn fyrir álverksmiðjuna á Reyðarfirði. Varla líður sú vika að ekki séu opinberir aðilar, ríki, sveitarfélög og orkuveitur að skrifa undir samninga eða viljayfirlýsingar um virkjanir eða álver. Samt sem áður er reynt að sannfæra þjóðina um að ríkisstjórnin beri hér enga ábyrgð!

Í efnahagsmálum er alveg ljóst hvað ríkisstjórnin á að gera. Hún á að boða á sinn fund stjórnendur og eigendur Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja og gefa fyrirmæli um að stöðvaður verði allur undirbúningur og frekari vinna í rannsóknum, hönnun og samningum um stórvirkjanir og ný eða stækkuð álver. Slík aðgerð myndi slá á væntingar um aukna stóriðju og þar með minnka þensluna verulega.

Í stað frekari stóriðju eiga stjórnvöld að einhenda sér í að skapa umhverfi fyrir fjölbreytt atvinnulíf og öflugt samfélag um allt land, byggt á hugviti þjóðarinnar, félagshyggju og krafti einstaklingsins og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlindanna í takt við nýja tíma. Þjóðin hefur meiri hæfileika og dug en svo að rétt sé að eyða öllu púðri í einhæfa atvinnuhætti undir stjórn erlendra auðherra. Segjum stopp á fleiri álver!

Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi