Grein

Einar Örn Thorlacius.
Einar Örn Thorlacius.

Einar Örn Thorlacius | 20.06.2006 | 15:54GSM samband á Vestfjarðavegi

Vegurinn um Steingrímsfjarðarheiði er hluti svokallaðs Djúpvegar (nr. 61) sem byrjar við Brú í Hrútafirði. Hann liggur síðan norður Strandir, yfir Steingrímsfjarðarheiði, gegnum allt Ísafjarðardjúp og endar í Ísafjarðarkaupstað (eða í Bolungarvík til að vera nákvæmur). Mér skilst að GSM-samband sé orðið nokkuð þokkalegt í Djúpinu og nú bætist Steingrímsfjarðarheiðin við. Mér sýnist að Djúpverjar geti nokkuð vel við unað. En hvað með sjálfan Vestfjarðaveg (nr. 60)?

Vestfjarðavegur hefst við Brattabrekku í Norðurárdal í Borgarfirði. Liggur síðan í gegnum alla Dalasýslu (Dalabyggð); alla Austur-Barðastrandarsýslu (Reykhólahrepp), norður yfir Dynjandisheiði og Hrafnseyrarheiði til Þingeyrar og þaðan til Ísafjarðarkaupstaðar. GSM-samband á þessari leið er hörmulegt. Á leiðinni milli Brattabrekku í Borgarfirði og Þingeyrar við Dýrafjörð (engin smávegalengd!) er hvergi GSM-samband nema í Búðardal og við Flókalund. Að vísu er á einum stað (við Skálanes í Reykhólahreppi) skilti sem Vegagerðin hefur komið fyrir og þar stendur „GSM-samband hér.“ Á einum litlum punkti!

Að öðru leyti er svæðið alveg dautt, hvað GSM-samband varðar. Ég þekki reyndar ekki GSM-sambandið á milli Þingeyrar og Ísafjarðar en ég geri ráð fyrir að það sé fyrir hendi. Mér finnst þetta orðin alveg ótrúleg mismunun og spyr: Hvers eiga vegfarendur um Vestfjarðaveg nr. 60 að gjalda? Samgönguráðherra fór þennan veg nýlega og lýsti því síðan yfir í útvarpsviðtali að þetta væri „einn versti vegur á Íslandi“ og fór hann þó ekki lengra en til Patreksfjarðar. Við bætist síðan að hann á að sitja eftir hvað varðar uppbyggingu GSM-sambands.

Íbúar Austur- og Vestur-Barðastrandarsýslu og vegfarendur um Vestfjarðaveg eiga rétt á skýringum á þessum vinnubrögðum.

Kveðja,
Einar Örn Thorlacius, sveitarstjóri Reykhólahrepps.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi