Grein

Sigurður Pétursson.
Sigurður Pétursson.

Sigurður Pétursson o.fl. | 30.05.2006 | 14:07Eitt þúsund og þrjár þakkir frá Í-listanum!

Frambjóðendur Í-listans þakka öllum þeim sem veittu listanum stuðning í nýafstöðnum kosningum til bæjarstjórnar í Ísafjarðarbæ. Ennfremur þökkum við öllum þeim sem lögðu okkur lið í kosningabaráttunni, með óeigingjörnu starfi. Við getum borið höfuðið hátt í fullvissu þess að við háðum þessa baráttu af heiðarleika og virðingu fyrir kjósendum og andstæðingum okkar. Við uppskárum ekki eins og vonir stóðu til, en getum fullvissað stuðningsmenn okkar og aðra íbúa Ísafjarðarbæjar um það að við munum berjast fyrir hagsmunum þeirra næstu fjögur ár af einurð og festu.

Við höfum á að skipa fjórum bæjarfulltrúum á næsta kjörtímabili. Á þessari stundu stefnir allt í að sömu flokkar muni mynda meirihluta í bæjarstjórn og síðustu átta árin. Við munum sýna þeim samstöðu um þau mál er til framfara horfa en jafnframt málefnalegt aðhald og andstöðu þar sem vikið verður af réttri leið.

Í-listinn mun næstu fjögur ár vinna í umboði 1003 kjósenda í Ísafjarðarbæ að framgangi þeirra mála sem hann setti fram fyrir kosningarnar. Við heitum því að vinna í samstarfi við bæjarbúa með hagsmuni allra í huga. Þannig viljum við skapa bjartari framtíð fyrir Ísafjarðarbæ.

Fyrir hönd frambjóðenda Í-listans,
Sigurður Pétursson,
Magnús Reynir Guðmundsson,
Arna Lára Jónsdóttir,
Jóna Benediktsdóttir.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi