Grein

Halldór Halldórsson.
Halldór Halldórsson.

Halldór Halldórsson | 28.05.2006 | 19:48Við sjálfstæðismenn þökkum traustið

Kjördegi er lokið, talið hefur verið upp úr kjörkössum og niðurstaðan liggur fyrir. Kjósendur hafa ákveðið hverjir skipi næstu bæjarstjórn sem stýra á málefnum Ísafjarðarbæjar til vorsins 2010. Fyrir hönd okkar sem skipum framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ vil ég þakka fyrir þann afgerandi stuðning sem við hljótum í þessum kosningum. Kjörfylgi okkar eykst frá síðustu kosningum um 8% sem verður að teljast mjög góð niðurstaða. Það er heiður að vera í forystu fyrir þeirri öflugu liðsheild sem Sjálfstæðisflokkurinn í Ísafjarðarbæ er. Í upphafi kosningabaráttunnar voru kannanir okkur óhagstæðar en það hafði einungis þau áhrif að við þéttum hópinn enn frekar, héldum okkar áætlun og bættum enn frekar við okkur, hvert og eitt.

Þegar þetta er skrifað liggur ekkert fyrir um meirihlutasamstarf. Miðað við niðurstöður kosninga hlýtur að teljast eðlilegt að núverandi meirihlutaflokkar ræði samstarf.

Dómur kjósenda er fallinn. Við Sjálfstæðismenn erum sátt við þann dóm og heitum því að gera allt sem við getum til að vinna áfram að vexti og viðgangi Ísafjarðarbæjar og Vestfjarða allra. Við erum stolt af því trausti sem íbúar Ísafjarðarbæjar sýna okkur í þessum kosningum.

Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðismanna í Ísafjarðarbæ.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi