Grein

Guðni Geir Jóhannesson.
Guðni Geir Jóhannesson.

Guðni Geir Jóhannesson | 27.05.2006 | 12:00Í dag er ábyrgðin í ykkar höndum!

Kosningabaráttan er á enda og kjördagurinn runninn upp. Framsóknarflokkurinn í Ísafjarðarbæ hefur á undanförnum vikum kynnt stefnumál sín fyrir komandi kjörtímabil. Jafnframt hefur hann minnt á störf sín í meirihluta bæjarstjórnar undanfarin tvö kjörtímabil. Við sem stöndum að B-listanum óttumst ekki dóm kjósenda, svo framarlega sem sá dómur er byggður á rökum og raunsæi. Síðustu átta árin hefur Framsóknarflokkurinn verið kjölfestan í stjórn Ísafjarðarbæjar. Á þeim tíma hefur varnarbaráttu verið snúið í öfluga sókn. Íbúar Ísafjarðarbæjar horfa bjartsýnir til framtíðar. Sókninni verður að halda áfram í þágu okkar allra.

Val kjósenda í Ísafjarðarbæ í kosningunum í dag stendur um tvennt. Annars vegar: Vilja þeir að haldið verði áfram á sömu braut? Vilja þeir að Framsóknarflokkurinn verði áfram í ábyrgðarhlutverki sínu í meirihluta bæjarstjórnar? Eða: Vilja þeir leggja upp í óvissuferð? Vilja þeir tefla í tvísýnu því sem áorkað hefur verið í þágu Ísafjarðarbæjar og íbúa hans á undanförnum árum?

Hér er eftirsóknarvert að búa

Spurning vikunnar hér á bb-vefnum er þessi: Finnst þér eftirsóknarverðara að búa á Vestfjörðum í dag en á undanförnum árum?

Niðurstöðurnar eru næsta skýrar og mjög athyglisverðar. Þegar þetta er ritað snemma að morgni kjördags hafa 54% sagt já, 31% hafa sagt nei en 15% telja sig ekki sjá þar mun. Þessar tölur eru einmitt sérlega eftirtektarverðar í ljósi þess, að núna eru kosningar.

Vafalaust eru flestir svarendanna búsettir í Ísafjarðarbæ, höfuðstað og langfjölmennasta sveitarfélagi Vestfjarða. Einnig eru vafalaust margir svarendanna í hópi þeirra sem alveg geta hugsað sér að skipta um forystu í bæjarfélaginu. En hver ætli rökin fyrir slíku séu?

Kannski eru rökin meðal annars á þá leið, að núna gangi allt svo vel að óhætt sé að slaka á, óhætt að leyfa sér svolítið ábyrgðarleysi, allt í lagi með svolitla tilraunastarfsemi. Þegar vel gengur koma venjulega einhverjir hlaupandi og segja: Nú get ég!

Tækifærin verða til

Ísafjarðarbær hefur gengið í gegnum mikla erfiðleika í atvinnumálum, líkt og mörg önnur sveitarfélög á landsbyggðinni. Okkur hefur tekist að vinna okkur út úr þeim og endurreisa hér traust og gott samfélag sem einkennist af bjartsýni og krafti. Stöðnun og afturför eru að baki. Hér eru ný íbúðarhverfi að verða til. Hér er háskóli að verða til. Hér eru tækifærin að verða til. Hér viljum við búa. Hér er gott að búa.

Ég leyfi mér að minna á, að uppbygging tekur langan tíma og krefst eljusemi, ábyrgðar og forsjálni. B-listinn í Ísafjarðarbæ hefur reynsluna af uppbyggingunni hér á undanförnum árum. Á hinn bóginn er bæði fljótlegt og auðvelt að spila öllu út úr höndunum á sér aftur. Slíkt getur gerst á snöggu augabragði ef óforsjálni og reynsluleysi ráða ferðinni.

Ísafjarðarbær og íbúar hans eiga betra skilið. Breytingar breytinganna vegna geta orðið dýrkeyptar. Tilraunastarfsemi getur orðið tilraunadýrunum erfið reynsla.

Ábyrgð ykkar í dag er mikil

Í dag er ábyrgðin á framtíðinni í ykkar höndum, kjósendur góðir, og ábyrgð ykkar er mikil. Í dag er það ykkar að ákveða hverjum þið felið þá sömu ábyrgð næstu fjögur árin. Það val ætti að vera auðvelt því að reynslan er ólygin. Ég bið ykkur að minnast þess í kjörklefanum, að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Þið kjósið ekki eftir á. Greitt atkvæði verður ekki aftur tekið.

Ég bið ykkur líka að minnast þess, að B-listinn í Ísafjarðarbæ hefur með sóma staðið undir ábyrgð sinni í meirihluta bæjarstjórnar síðustu átta árin. Bjartsýni, framsýni og kraftur hafa einkennt okkar verk. Svo mun verða áfram.

Þakkir í baráttulok

Að lokinni strangri en skemmtilegri kosningabaráttu vil ég þakka ágætum keppinautum B-listans í Ísafjarðarbæ fyrir drengilega viðureign á liðnum vikum. Þeim fjölmörgu sem hafa starfað ötullega í þágu framboðs okkar færi ég bestu þakkir. Og Ísafjarðarbæ og málefnum hans óska ég velfarnaðar á næsta kjörtímabili – rétt eins og því sem nú er að ljúka.

Guðni Geir Jóhannesson, oddviti B-lista og formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi