Grein

Geirþrúður Charlesdóttir.
Geirþrúður Charlesdóttir.

Geirþrúður Charlesdóttir | 27.05.2006 | 07:54Stöðugleiki og framfarir í Ísafjarðarbæ

Það styttist í að landsmenn gangi að kjörborðinu og velji fulltrúa til að stjórna sínum byggðarlögum næstu fjögur árin. Íbúar Ísafjarðarbæjar eru þar á meðal. Það er mikil ábyrgð sem frambjóðendur standa frammi fyrir, þegar þeir gefa kost á sér til að stjórna sveitarfélaginu sínu. Þeir þurfa að bera ábyrgð á að rétt sé staðið að málum við uppbyggingu bæjarins og að íbúarnir fái þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda. Það þarf að hlúa með hyggindum og skynsemi að skólamálum á öllum stigum svo börnin og æskufólkið fái sem besta menntun. Það mun bera ávöxt fyrir bæjarfélagið okkar.

Við ætlumst til að hér sé góð atvinna og að atvinnuleysi sé með minnsta móti. Einnig viljum að eldri borgarar hafi aðgang að góðri þjónustu og geti valið sér búsetuform eftir þörfum. Það er endalaust hægt að nefna til það sem okkur finnst sjálfsagðir hlutir og við ætlumst til að sé gert í bæjarfélaginu okkar. Allt þetta og meira til leggjum við í hendur og á ábyrgð frambjóðendanna sem við veljum á laugardaginn kemur. En gerum okkur grein fyrir því að allt kostar þetta peninga,- þess vegna þurfum við sterka og ábyrga fjármálastjórn.

Við verðum að velja fólk sem hefir mikla reynslu og þekkingu á sveitarstjórnarmálum, sem kann að skipuleggja og forgangsraða verkefnum, og um leið að hyggja að góðu mannlífi. Þess vegna segi ég að ábyrgðin og velferð Ísafjarðarbæjar sé í höndum okkar kjósendanna laugardaginn 27. maí nk. Ég velkist ekki í vafa með mitt atkvæði, ég ætla að fela ábyrgðina því fólki sem býður sig fram til góðra verka í nafni Sjálfstæðisflokksins.

Af hverju geri ég það? Vegna þess, að ég ber mikið traust til Halldórs Halldórssonar, bæjarstjórans okkar sem unnið hefur góð störf síðustu átta ár. Ég ber traust til hans fyrir hans góðu og fallegu framkomu, velvilja, dugnað og reynslu til að hrinda góðum málum í framkvæmd. Ég treysti fullkomlega þeim frambjóðendum sem eru með Halldóri á framboðslistanum, til allra góðra verka. Kjósendur, verið ekki í vafa, veljið þá sem hafa reynslu og sem þekkja öðrum betur málefni byggðarlagsins okkar.

Við breytum ekki breytinganna vegna. Frambjóðendur Í-listans tala um nauðsynlegar breytingar en ég hef ekki enn heyrt hverjar þær eru. Ég hef heldur aldrei skilið þegar einn, tveir eða þrír stjórnmálaflokkar draga sig saman undir eina sæng, flokkar með ólíkar skoðanir og áherslur. Verk þeirra verða aldrei sönn, því kemur fólk ekki fram eins og það er klætt, með sínar eigin skoðanir, sína eigin persónu? Getum við búist við að þetta fólk standi saman sem einn maður þegar á hólminn er komið?

Sumt af því ágæta fólki sem skipar Í listann hefir verið í fleiri en einum flokki. Vitanlega kemur mér ekki við þó það finni ekki fast land undir fæti, en það er ekki traustvekjandi. Það er ekki traustvekjandi fyrir okkur kjósendur þegar aðalmál þeirra er að fella Sjálfstæðisflokkinn. Það er ekki málefni, og ekki á borð berandi fyrir okkur kjósendur sem eigum að fela þeim ábyrgðina á bæjarfélaginu.

Ágætu kjósendur Ísafjarðarbæjar, hér er gott að búa og hér viljum við vera. Bærinn okkar undir stjórn Halldórs Halldórssonar bæjarstjóra verður áfram góður bær með góðri þjónustu, hvergi fá eldri borgarar betri þjónustu en hér. Ábyrgðin er í okkar höndum, við ráðum því hverjir stjórna Ísafjarðarbæ næstu fjögur árin. Velkist ekki í vafa, veitið Sjálfstæðisflokknum brautargengi til áframhaldandi forystu í Ísafjarðarbæ.

Geirþrúður Charlesdóttir. Höfundur skipar 18. sæti á lista Sjálfstæðsflokksins.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi