Grein

Helgi Sigmundsson.
Helgi Sigmundsson.

Helgi Sigmundsson | 26.05.2006 | 19:35Kosningabaráttan 2006

Kynningar framboðanna í vor á stefnumálum sínum hafa náð hámarki síðastliðna daga. Fróðlegt hefur verið að fylgjast með og auðvitað spennandi. Hverjum þykir sinn fugl fegurstur, eins og venjulega. Flest hefur verið nokkuð málefnalega sett fram og á vissan hátt dregnar skýrar línur. Þrennt þykir mér standa upp úr.

Flugvallarmálið!

Í fyrsta lagi er afstöðuleysi oddvita Í listans varðandi staðsetningu flugvallar í Reykjavík stórfurðulegt. Þarna er auðvitað um að ræða eina mikilvægustu samgönguæð landsbyggðarinnar. Það er óhugsandi að það varði okkur ekkert þegar hrófla á við núverandi fyrirkomulagi á flugsamgöngum og sérstaklega þegar útlit er fyrir að það verði okkur afar óhagkvæmt. Oddviti Í listans á auðvitað að vita, að samflokksmenn hans í Reykjavík vilja helst að flugvöllurinn fari til Keflavíkur ef ekki lengra, og þeir hafa aldrei nefnt það að breyta stöðu Reykjavíkur sem höfuðborg í þessu sambandi. Þess vegna er það léttvægt að svara gagnrýni á afstöðuleysi hans í þessu máli, með því að segja að Reykjavík eigi þá ekki að vera höfuðborg lengur. Þarna þykir mér vera grunnt hugsað og ekki væri það sterkur málssvari íbúa Ísafjarðarbæjar gagnvart Ríki og SV-horninu, sem kysi að leggja niður vopnin á þennan hátt. Oddvitanum er þó auðvitað vorkunn og vill ekki fara opinberlega gegn sínum samflokksmönnum syðra í þessu mikilvæga máli.

Persónulegar árásir og skotgrafir!

Nokkrir af Í lista hafa vikið að því í greinum sínum að kosningabaráttan sé orðin persónuleg og óvægin. Sjálfur hef ég ekki orðið var við þetta nema einmitt í þessum skrifum. Hins vegar virðist ákveðinn bæklingur hafa farið í taugarnar á þeim og reyndar finnst mér umfjöllun Í listamanna um þennan bækling vera orðinn ýkt og jaðrar við vænisýki. Jafnframt stenst ég ekki mátið að minna á að það voru einmitt Í listamenn sem festu upp á áberandi stað á skrifstofu sinni einhverjar gamlar greinar (með úreltum?) skoðunum frambjóðenda sem eitt sinn studdi einn af þeirra flokkum en hefur síðan ákveðið að bjóða sig fram á D lista í vor. Eru þetta ekki svolítið persónulegar og jafnvel barnalegar árásir? Eða er þetta dæmi um sterka málefnalega stöðu?

Bæjarútgerð?

Oddviti Í listans virðist ætla að stefna í það að bæjarsjóðir sinni áhættufjárfestingum af miklum móð. Þarna er ég auðvitað að vísa í þær hugmyndir sem rifjaðar hafa verið upp um að kaupa hefði átt kvóta fyrir sem nemur einum milljarði af hagnaði þeim sem fékkst við sölu Orkubúsins. Síðan hafa reiknimeistarar Í listans sýnt fram á það að þannig hefði skapast tekjur upp á 70-75 milljónir árlega. Nokkur atriði erum mikilvæg í þessu sambandi. Í fyrsta lagi eru hlutverk sveitarfélaga ærin og vel skilgreind og áhættufjárfestingar eru ekki eitt af þeim. Það að kvótaverð hafi þróast eins og við höfum séð s.l. ár er gott dæmi um spákaupmennsku, en við höfum ekki færri dæmi um fjáfestingar á því sviði sem hafa skilað miklu tapi. En ef fara hefði átt leið þeirra Í listamanna, hefði þá ekki verið hagkvæmast að kaupa hlutabréf í KB banka? Er þetta raunhæft eða er nokkurt vit að vera með svona málflutning, sem við öll sjáum svo leikandi létt í gegnum. Leið núverandi meirihluta var skynsamleg og sýnir að þar hafa menn ekki gleymt hlutverkum sínum. Það voru greiddar niður skuldir sem nemur um það bil 600 milljónum og við það lækkuðu vaxtagreiðslur bæjarsjóðs um 60 milljónir (nánast sama tala og reiknimeistarar Í listans áætla í tekjur af kvótabraskinu). Þessu til viðbótar var svo varið 500 milljónum til uppbyggingar í sveitarfélaginu sem svo sannarlega var ekki vanþörf á.

Hvað er til ráða?

Ég tel að D listi hafi sett fram skýra stefnu og framtíðarsýn. Kynnt listann og málefnin á jákvæðan hátt og ekki látið teyma sig niður á þær brautir sem sumir andstæðingar hafa boðið upp á. Ég mun á morgun óhikað kjósa Sjálfstæðisflokkinn fullviss um að þar sé atkvæði mínu sem og flestra best borgið.

Helgi Kr. Sigmundsson, kjósandi.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi