Grein

Elías Jónatansson.
Elías Jónatansson.

Elías Jónatansson | 26.05.2006 | 11:53Bolungarvík - byggð til framtíðar

Mörg teikn eru nú á lofti um að byggð sé að styrkjast í Bolungarvík. Þrátt fyrir að fólksfækkun hafi ekki stöðvast, þá bendir ýmislegt til að svo verði fljótlega og þróunin geti á næstu árum orðið hagstæðari í þeim efnum. Lítum á dæmi. Fasteignamarkaðurinn í Bolungarvík var nánast orðinn stopp. Eignir seldust seint og á afar lágu verði. Engin leið er að segja til um það nákvæmlega hvað varð til þess að þeir hlutir breyttust. Hugsanlega hefur það haft eitthvað að segja að bæjaryfirvöld tóku um það ákvörðun að selja íbúðir úr félagslega íbúðarkerfinu á lágu verði, enda færu þær til annarra nota en inn á almenna íbúðamarkaðinn. Bæjarsjóður nýtti sér um leið framlög úr Varasjóði húsnæðismála. Líklega er þó ástæðan fyrir aukinni veltu á markaðnum ekki síður sú að tiltrú fólks á byggðarlagið hefur aukist og það hlýtur að vera mikilvægt. Þess hefur verið vandlega gætt að sölur úr húsnæðiskerfinu hefðu ekki neikvæð áhrif á fasteignaverðið í bænum. Enda hefur fasteignaverð í bænum hækkað verulega á undanförnum misserum.

Ætla má að frá áramótum 2004-2005 hafi 20 – 25% eigna skipt um hendur í Bolungarvík, sem er ótrúlega hátt hlutfall og glöggt dæmi um breytta tíma. Þrátt fyrir að sölur úr félagslega kerfinu skýri hluta þessa, þá er eftirtektarvert hversu margar sölur eru á almennum fasteignamarkaði.

 Skuldalækkun um 200 milljónir

Tekist hefur að selja á fjórða tug eigna úr félagslega húsnæðiskerfinu og létta þannig á skuldastöðu bæjarsjóðs við Íbúðalánasjóð um 200 milljónir króna. Stór hluti fjármagnsins kemur frá Varasjóði húsnæðismála, sem greiðir 90% af mismuninum á söluverði og áhvílandi lánum Íbúðalánasjóðs. Bæjarsjóður fær jafnframt tekjuaukningu af fasteignagjöldum sem nemur 1,5 milljónum á ári. Hluti þeirra íbúða sem seldar hafa verið, hafa verið seldar tveimur fyrirtækjum í ferðaþjónustu og hefur það myndað fyrirtækjunum ákveðinn grunn til að starfa á. Þannig hefur náðst að slá tvær flugur í einu höggi, þ.e. að lækka skuldir í húsnæðiskerfinu um leið og hlúð er að nýjum atvinnurekstri.

Miklar framkvæmdir á næsta leiti

Á næstu árum fara í hönd miklar framkvæmdir í bæjarfélaginu og nágrenni þess. Á næsta ári hefst vinna við að bora jarðgöng á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar. Þá munu hefjast framkvæmdir við snjóflóðavarnargarð í Bolungarvík. Umfangsmiklar framkvæmdir við Bolungarvíkurhöfn, bæði við stálþil og þekju, eru ennfremur áformaðar á næstu árum. Mikill áhugi er fyrir byggingu íbúða fyrir aldraða í tengslum við sjúkrahúsið og er nauðsynlegt að koma því máli í góðan farveg. Þá er rétt að geta þess að stórt útboðsverk á vegum bæjarsjóðs er í gangi við klæðningu og allsherjar viðhald utanhúss á fjölbýlishúsi við Holtabrún. Þá eru ennfremur uppi áform um stórfelldar endurbætur á Félagsheimilinu. Af þessu má vera ljóst að það er engin lognmolla framundan í framkvæmdum í Bolungarvík. Kjósum D-listann áfram til forystu í Bolungarvík. X-D

Elías Jónatansson skipar 1. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Bolungarvík og er forseti bæjarstjórnar.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi