Grein

Björn Davíðsson.
Björn Davíðsson.

Björn Davíðsson | 25.05.2006 | 20:06Um mikilmenni

Mannkynssagan geymir nöfn manna sem af ýmsum hafa verið kölluð mikilmenni. Þó hefur gleymst að setja staðal um með hvaða hætti menn verðskuldi slíka nafnbót. Sjaldnast hafa menn þó öðlast þann titil fyrr en að lokinni jarðvist sinni. Ræður þar án efa nokkru þau gildu sannindi að fjarlægðin geri fjöllin blá og mennina mikla. Eðli málsins samkvæmt hljóta mikilmenni að hafa skilið eftir sig vandfyllt skarð.

Engin dæmi eru þó um að samfélög hafi fallið með mikilmennum sínum. Maður hefur komið í manns stað. Hafa þau sannindi verið á flestra vitorði um aldir. Dæmi eru þó um að ekki hafi menn að öllu leyti komið í stað mikilmenna. Í þeim tilfellum hafa þeir skilið slíkt bú eftir sig að eftirlifendur hafa lífi haldið. Eitt slíkt dæmi er drengurinn sem lagður var í jötu forðum og seinna krossfestur.

Nú tvö þúsund árum síðar hafa þau boð út gengið að íbúar sveitarfélaga hér á landi skuli ganga að kjörborði og velja sér forystusveit. Sem fyrr mun á flestum stöðum talið eðlilegt að maður komi í manns stað. En ekki á öllum stöðum. Þá er fréttir bárust að stærstur hluti íbúa forystusveitarfélags Vestfjarða teldu tímabært að hvíla móða leiðtoga sína reis upp kór mikill sem söng þeim til dýrðar. Sá kórinn skyndilega hilla undir endalok byggðar. Gengur nú kórinn fyrir hvers manns dyr í sveitarfélaginu og syngur heimsendaljóð. „Sjá í röðum ykkar er maður sem enginn getur í spor hans gengið“.

Sagan geymir marga stjórnmálamenn, sem ekki hafa þekkt sinn vitjunartíma þrátt fyrir að hafa um tíma reynst umbjóðendum sínum svo vel að síðar hafi þeir verið kallaðir mikilmenni. Einn slíkur var Winston Churchill. Hann taldi sig ómissandi að lokinni seinni heimsstyrjöldinni. Þjóð hans var á annarri skoðun og kallaði til Attlee sem varð húsbóndi í Downingsstræti 10. Churchill féll þetta þungt og greip til háðsins. Í einni þingræðu sagði hann að tómur leigubíll hefði komið að Downingsstræti 10 og út úr honum hafi stigið Attlee. Í Bretlandi kom maður í manns stað eins og annars staðar í veröldinni. Höfnuðu þeir þó manni sem enginn ágreiningur var um að unnið hefði þjóð sinni stórkostlegt gagn um tíma. Um slíkt eru hins vegar uppi gildar efasemdir hér í Ísafjarðarbæ.

Íbúar svara að sjálfsögðu í kosningum þeirri spurningu hvort mannval í þeirra röðum sé með slíkum naumindum að ekki bara einn stjórnmálaflokkur heldur samfélagið allt líði undir lok við löngu tímabærar mannabreytingar í forystusveit. Sé svo eru það óneitanlega tíðindi. Og eiga þó engin mikilmenni í hlut að séð verður. Aðeins venjulegt fólk. Og afrekaskráin þunn.

Björn Davíðsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi