Grein

Bjarni Pétur Jónsson.
Bjarni Pétur Jónsson.

Bjarni Pétur Jónsson | 25.05.2006 | 14:57Unga fólkið og kosningarnar

Ágæti Kjósandi! Margt ungt fólk nýtir kosningarétt sinn í fyrsta sinn í vor. Kosningar eru fyrir mörgum okkar bara fyrir fullorðið fólk og átta sig ekki endilega allir á að við erum fullorðin, okkar atkvæði telja. Börn hafa litlar áhyggjur af því sem gerist í sveitarfélagi þeirra, áhyggjur þeirra eru bundnar við það hvort að laugardagsnammið skili sér ekki örugglega í þeirra hendur á réttum tíma. Þegar árunum fjölgar, fjölgar ákvarðanatökum um leið. Að ákveða hvað skal kjósa er ein þeirra.

Til þess að hugmyndum ungs fólks verði skapað það brautargengi sem nauðsynlegt er verðum við sjálf að skapa það eða koma þessum hugmyndum til ráðamanna svo hægt sé að vinna úr þeim. Ekki hefur farið mikið fyrir tilraunum til að koma til móts við unga fólkið í bænum á síðustu misserum og er það miður. Hins vegar er ekki hægt að láta bæjarstjórnarmenn taka allan þennan samskiptaskell. Ungt fólk ætti að standa mun keikara en það gerir í sambandi við sín mál

Að sjálfsögðu eru flestir listanna með góðar hugmyndir en fáar af þeim eru sniðnar að hugmyndum ungs fólks. Vegna þessa er því mjög mikilvægt að ungt fólk velti bæjarmálum fyrir sér því þetta eru þau mál sem varða framtíð okkar og koma til með að móta hana á næstu árum. Því er mjög mikilvægt fyrir hvern þann sem er umhugað um framtíð sína að nýta kosningarétt sinn og leggja sitt af mörkum til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.

Stefnur framboðslista eru oft svipaðar og ruglar það oft ungt fólk sem ætlar að setja x við bókstaf í fyrsta sinn. Það er fólkið sem skipar listana sem við eigum að horfa á og sjá hverjum við treystum best til að fylgja stefnumálum eftir. A-listinn er nýtt afl, stefnumál okkar og traust forysta er sú staðreynd sem ég þarf til fylgja honum. Ég treysti efstu frambjóðendum A-listans best til að fylgja okkar stefnumálum eftir og gera góða hluti fyrir Bolungarvík. Ég hvet þig kjósandi góður til að taka afstöðu með okkur og setja X við A í komandi kosningum.

Bjarni Pétur Jónsson. Höfundur er nemi við Menntaskólann á Ísafirði og skipar 14.sæti A-listans í Bolungarvík.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi