Grein

Baldur Smári Einarsson.
Baldur Smári Einarsson.

Baldur Smári Einarsson | 25.05.2006 | 10:50Bolungarvík – aðgengileg fyrir alla

Bolungarvík er bæjarfélag sem er þekkt fyrir hátt þjónustustig og góðar þjónustustofnanir. En alltaf er hægt að gera betur. Stundum gerum við ráð fyrir að allir íbúar bæjarins séu heilir heilsu og geti komist allra sinna ferða líkt og fullfrískir einstaklingar. Því miður er það ekki raunin. Það verður að viðurkennast að aðgengi fatlaðra að mörgum stofnunum og fyrirtækjum í Bolungarvík er ekki nógu gott. Víða er erfitt að komast að á hjólastólum og það er til dæmis ekki hlaupið að því að komast á kjörstað í Bolungarvík bundinn við slíkt farartæki.

Við þurfum að líta í eigin barm og bæta aðgengi fatlaðra að stofnunum bæjarfélagsins. Það yrði einkaaðilum á svæðinu góð fyrirmynd. Á komandi kjörtímabili ætlar D-listinn að láta gera úttekt á aðgengi fatlaðra að stofnunum og þjónustustöðum í bænum og er það von okkar fatlaðir komist hindrunarlaust um Bolungarvík áður en langt um líður.

Við búum við annan farartálma sem fullfrískt fólk á það jafnvel til að reka sig á. Hér er um að ræða illa farnar gangstéttar og háa kantsteina. Á síðasta kjörtímabili var mörkuð sú stefna hjá Bolungarvíkurkaupstað að helluleggja allar nýjar gangstéttar og setja nýja kantsteina sem eru töluvert lægri en þeir sem fyrir voru. Þessi breyting hefur verið til batnaðar en betur má ef duga skal. D-listinn ætlar að halda áfram á sömu braut og hyggst setja fram tímasetta áætlun um endurnýjun ófullnægjandi gangstétta og stíga. Þar með fækkar þeim farartálmum sem fatlaðir þurfa að glíma við í Bolungarvík.

Það er hverjum manni hollt að líta yfir farinn veg og skoða hvað betur má fara. D-listinn leggur áherslu á að það megi alltaf gera betur og stefnir að því að gera Bolungarvík aðgengilega fyrir alla á komandi kjörtímabili.

X-D

Baldur Smári Einarsson skipar 3. sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Bolungarvík.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi