Grein

Sturla Böðvarsson.
Sturla Böðvarsson.

Sturla Böðvarsson | 24.05.2006 | 14:52Borað vegna jarðganga á tveimur stöðum í sumar!

Umræður um samgöngumál eru eðlilega fyrirferðarmiklar á Vestfjörðum. Sem samgönguráðherra og þingmaður Norðvesturkjördæmis hef ég beitt mér af öllu afli fyrir því að tryggja sem best fjármuni til framkvæmda við vegagerð á Vestfjörðum. Allir sangjarnir menn sjá og viðurkenna að verulegur árangur hefur náðst og hann blasir hvarvetna við. Og framundan eru meiri framkvæmdir en nokkru sinni fyrr á svæðinu. Hvað sem pólitískir andstæðingar mínir segja þá tala staðreyndir sínu máli. Þeim virðist lítt gefið um þær í aðdraganda sveitarstjórnarkosningann. Þar virðist marklaust tal og óábyrgt ráða för þeagar um samgöngumálin er fjallað. Málflutningur forystumanna Sjálfstæðisflokksins á Vestfjörðum er markviss, ábyrgur og þeir ná árangri með skipulögðum vinnubrögðum og traustu samstarfi við þá sem með samgöngumálin fara.

Djúpið

Síðustu árin hefur verið unnið stöðugt við endurbyggingu vegarins um Djúp. Síðustu áfangar þess verks verða boðnir út á næstunni og verður lokið árið 2008. Um er að ræða mjög stóran áfanga með þverun bæði Mjóafjarðar og Reykjafjarðar. Þar með verður Reykjanes komið í þjóðbraut og full uppbyggður vegur .

Vegur um Arnkötludal

Nýr vegur um Arnkötludal var settur í Samgönguáætlun við endurskoðun hennar á síðast ári. Arnkötludalsvegur sem liggur milli Strandasýslu og Reykhólasvæðisins mun stytta leiðina milli Ísafjarðar og Reykjavíkur. Fyrir nokkrum dögum lauk umhverfismatsferlinum við það verk og munu framkvæmdir hefjast í ár og geta lokið á árinu 2008 ef allt gengur að óskum með útboði þess verks.

Vestfjarðavegur

Nú er unnið að því að ljúka við endurbyggja Vestfjarðaveginn um Svínadal og unnið að undirbúningi þess að þvera firðina svo leiðin um Barðaströnd milli Bjarkarlundar og Flókalundar styttist sem mest og verði sem öruggust sem heilsársvegur. Fjármunir hafa verið tryggðir til næstu áfanga og þess beðið að umhverfismatsferlinum ljúki svo framkvæmdir geti hafist. Þegar framkvæmdum við þennan áfanga verður lokið verður ekið á fulluppbyggðum vegi milli Vesturbyggðar og höfuðborgarinnar. Vonandi tefst þessi mikilvæga vegalagning ekki frekar vegna deilna um vegarstæðið.

Tvenn jarðgöng framundan

Í sumar fara fram rannsóknaboranir vegna tveggja jarðganga á Vestfjörðum. Annars vegar í hinni miklu umferðaröryggisaðgerð sem jarðgöng á leiðinni milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur verður og hins vegar hin langþráða samgöngubót og tenging norður og suðurfjarða Vestfjarða með göngum úr Arnarfirði í Dýrafjörð. Þessi tvenn jarðgöng eru forsenda fyrir því að fylgja eftir öflugum aðgerðum stjórnvalda við samgöngubætur og um leið eflingu atvinnulífsins á svæðinu. Eftir að rannsóknum á jarðgangastæðum í stað vegar um Óshlíð er lokið verður hægt að ákveða legu jarðganganna. Í umfjöllun minni um málið hef ég sagt að velja verði þann kost sem tryggir örugga umferð. Jafnframt verðum við að nýta fjarmuni sem best og koma verkinu í gagnið á eins skömmum tíma og kostur er. Því verður að leggja raunsætt mat á kostina sem í boði eru.

Flugvellir endurbyggðir

Eins og vestfirðingar þekkja þá eru í gangi miklar framkvæmdir bæði við öryggissvæði við Ísafjarðarflugvöll og endurbygging flugvallarins á Þingeyri. Fyrir stuttu var tekin í notkun nýr flugturn við Ísafjarðarflugvöll sem bætir stórlega alla starfsaðstöðu á vellinum fyrir þá sem vinna að flugumsjóninni. Með þessum aðgerðum mun öryggi í flugsamgöngum við Vestfirði stórbatna og í kjöfar þess ættu flugfargjöld milli Ísafjarðar og Reykjavíkur að geta lækkað þegar áætlanir verða öruggari og standast betur þegar Ísafjarðarflugvöllur og Þingeyrarflugvöllur verða reknir saman sem um einn völl sé að ræða sem stór eykur öryggið í fluginu.

Ferðaþjónustan eflist

Bættar samgöngur eru forsenda fyrir því að ferðaþjónustan eflist. Ég hef við mörg tækifæri lýst þeirri skoðun minni að Vestfirðir hafi mikla möguleika sem framtíðarland ferðaþjónustunnar. Sveitarfélögin og atvinnulífið á Vestfjörðum hefur unnið skipulega að því að marka fjórðungnum sértöðu samanber sú áhersla sem Halldór Halldórsson bæjarstjóri lagði með því að leggja til að Vestfirðir verði stóriðjulaus landshluti. Með þeirri stefnumörkun eru lagðar línur sem líklegar eru til þess að efla þær atvinnugreinar sem fyrir eru og þær sem tengjast ferðaþjónustu, rannsóknum, hátækni og menntastofnunum. Það er sá tónn sem best mun gagnast þeirri ímynd sem Perlan Vestfirðir hefur verið að skapa.

Samstarf við sveitarstjórarmenn

Það er von mín að samgönguráðuneytið geti áfram átt gott samstarf við þá öflugu sveit sem leitt hefur bæjarmálin á Ísafirði undir styrkri stjórn sjálfstæðismanna og þess öfluga bæjarstjóra Halldórs Halldórssonar. Halldór nýtur trausts og trúnaðar langt út fyrir raðir flokksmanna um landið allt sem afburðamaður á vettvangi sveitarstjórnanna. Í störfum sínum hefur hann unnið með það í huga að ná árangri og það hefur honum tekist svo sem við blasir á svo mörgum sviðum í Ísafjarðarbæ. Það er því mikilvægt að tryggja áfram sterka stöðu sjálfstæðismanna við stjórn bæjarmála á Ísafirði. Þannig eru hagsmunum íbúa bæjarins best tryggðir. Miklum árangri síðustu ára yrði fórnað með því að koma til valda ósamstæðum hópi þriggja flokka. Sá hópur á sér ekkert annað sameiginlegt en að komast til valda. Þessa uppskrift er búið að prófa með R-listanum í höfuðborginni. Það ætti að vera nægjanlegt víti til að varast.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi