Grein

Sigurður J. Hafberg.
Sigurður J. Hafberg.

Sigurður J. Hafberg | 24.05.2006 | 09:12Bjart framundan

Senn líður að kosningum og er margt rætt og ritað af því tilefni. Mest ber á lofræðum um Halldór Halldórsson bæjarstjóra. Menn gerast svo stórtækir að tala í þá veru að það sé „stórhættulegt“, eins og einn úr trúfélaginu skrifaði í BB á dögunum, að hleypa þessu Í-lista fólki til valda. Fólki sem er meira að segja „blautt á bak við eyrun“. Að eitthvað „vinstra moð“ ,eins og sami höfundur kemst að orði í annarri grein, ætli að fara að ráðskast með bæjarfélagið sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur talið sig eiga einkarétt á og enginn núlifandi Íslendingur annar en Halldór Halldórsson geti rekið.

Halldór hefur margt til brunns að bera, það verður ekki af honum tekið. Hann er mjög svo viðræðugóður alla jafna og hefur komið ýmsu góðu til leiðar. Er ekki líka full ástæða til að gera kröfur fyrir milljón á mánuði, eða hvað? Þvílíka persónudýrkun hef ég ekki orðið vitni að lengi. Ofsatrúarpennarnir sem ritað hafa þessar lofgreinar vitna mikið til þess að Í-listaframbjóðendur skorti reynslu til að takast á við hin ýmsu mál sveitarfélagsins. Það var þetta sama fólk sem hafnaði reynslumesta sveitarstjórnarmanni sínum í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins, Ragnheiði Hákonardóttur, sem að mínu mati ber höfuð og herðar yfir þá bæjarfulltrúa sem nú sitja í meirihluta.

Það er ótrúlegt að upplifa þessa gífurlegu hræðslu sumra við því að hér fari allt í kalda kol ef þeir fái ekki að stjórna þessu bæjarfélagi okkar eftir kosningar. Það er hlutverk okkar þessara 70%, sem samkvæmt skoðanakönnunum ætla ekki að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, að hughreysta þá sem þjakaðir eru af áhyggjum. Áhyggjum af því að niðurrifsöfl séu að ræna þá völdum.

Ætlar Halldór Halldórsson að eigna sér þá uppbyggingu sem hefur átt sér stað t.d. í Kambi á Flateyri eða 3X stál, eða framkvæmdakraftinn í byggingaraðilum. Það eru aðrar ástæður en galdrar meirihlutans fyrir þeim skemmtilega viðsnúningi sem átt hefur sér stað í byggingaframkvæmdum á svæðinu. Hverjum dytti í hug að ætla að það sé Davíð Oddssyni að þakka að Bónus er það veldi sem það er í dag.

Rannveig Þorvaldsdóttir (blaut á bak við eyrun) grunnskólakennari við Grunnskólann á Ísafirði skipar fimmta sæti Í-listans. Það er samdóma álit þeirra sem þekkja til hennar starfa að þar sé á ferð dugmikill skólamaður með víða sýn á tækifærin sem fyrir hendi eru í skólamálum. Rannveig hlaut meðal annars Menntaverðlaun Forseta Íslands fyrir frumkvæði í skólastarfi. Sjálfur þekki ég aðeins til hennar þar sem ég var þeirrar gæfu aðnjótandi í vettvangsnámi mínu við Kennaraháskóla Íslands að vera undir hennar leiðsögn í 5 vikur í Grunnskólanum á Ísafirði. Tryggjum Rannveigu sæti í næstu bæjarstjórn.

Það verður með mikilli gleði og bjartsýni á byggðina okkar sem ég merki X við Í þann 27. maí n.k

Flateyri 23. maí 2006. Sigurður J. Hafberg, grunnskólakennari.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi