Grein

Benedikt Sigurðsson.
Benedikt Sigurðsson.

Benedikt Sigurðsson | 23.05.2006 | 09:22Baldur í bæjarstjórn!

Nú er kosningabaráttan í Bolungarvík að ná hæstu tindum og er aðeins byrjað að blása manna í milli. Þetta er fyrsta kosningabaráttan mín sem virkur þátttakandi. Ástæðan fyrir því að ég ákvað að taka sæti á D-listanum var aðallega sú að styðja við bakið á Baldri Smára Einarssyni sem skipar 3. sæti listans. Ég tel okkur þurfa ferska einstaklinga til starfa í samvinnu við þá reyndari sem fyrir eru. Á lista sjálfstæðismanna í Bolungarvík eru mjög frambærilegir einstaklingar í 3. og 4. sæti, þau Baldur Smári og Elín Jónsdóttir. Bæði eru þau viðskiptafræðimenntuð en ég tel það afar sterkan kost fyrir okkur Bolvíkinga að hafa fólk í bæjarstjórn með slíkan bakgrunn.

Baldur Smári hefur sýnt það og sannað að hann er mikils megnugur þó beinlínis gusti ekki af honum, hann er hæglátur ungur maður sem lætur verkin tala. Við þurfum svona fólk sem lætur sér ekki aðeins nægja að tala um hlutina, heldur framkvæmir og klárar dæmið til enda. Það er til dæmis flókið mál og víðfemt að halda utan um fjársýslu bæjarins svo vel sé og þurfum við fólk með reynslu í slíkum málum til starfa í yfirstjórn bæjarins.

Ég er afar ánægður með þá ákvörðun mína að taka sæti á lista sjálfstæðismanna því þar hefur ríkt einhugur, samheldni og bjartsýni allt frá upphafi eftir að listinn var mótaður. Við á D-listanum viljum gera Bolungarvík að vænlegri stað til að búa á og höfum kynnt stefnumál okkar meðal annars með því að benda á það sem vel hefur verið gert fremur en hnýta í andstæðingana.

Ég skora því á þig ágæti Bolvíkingur að setja X við D á kjördag og tryggja að Bolungarvík njóti krafta Baldurs Smára í bæjarstjórn næstu fjögur árin.

Benedikt Sigurðsson. Höfundur skipar 7. sæti á lista sjálfstæðismanna í Bolungarvík.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi