Grein

Steinþór Bjarni Kristjánsson.
Steinþór Bjarni Kristjánsson.

Steinþór Bjarni Kristjánsson | 22.05.2006 | 14:49Breytum ekki breytinganna vegna

Árum saman höfum við Vestfirðingar þurft að þola það í spjalli við höfuðborgarbúa að vera spurðir spurninga eins og „hvernig getið þið búið þarna“, „eru ekki allir að flytja í burtu“ og svo framvegis. Upp á síðkastið hefur þessi tónn breyst. Venjulegt fólk hefur ekki lengur efni á að búa í höfuðborginni og fyrir þá sem hafa efni á að búa þar fer hálfur dagurinn í að koma sér og sínum á milli staða. Einnig hafa lítilsvirðingarraddirnar um búsetu hér snar þagnað. Ísafjarðarbær hefur nú á sér þá ímynd að hér séum við í sókn og húsbyggingar bendi til þess að fólk hafi trú á svæðinu. Eitthvað hefur þurft til þess að breyta þessari ímynd og er jákvæð og uppbyggjandi forysta Ísafjarðarbæjar sem hefur verið lykilatriði í því sambandi. Það er reyndar með ólíkindum að nú ryðjist fram á völlinn fólk sem telur að breyta þurfi kúrsinum og sigla í þveröfuga átt.

Sjálfstæðisflokknum hefur tekist að breyta ásýnd og ímynd Ísafjarðarbæjar, skapa grundvöll fyrir fjölbreyttari atvinnustarfsemi og aukið bjartsýni íbúanna. Halldór Halldórsson bæjarstjóri hefur sannarlega lagt sig fram af heilum hug að gera Ísafjarðarbæ að samfélagi sem eftirsóknarvert er að búa á. Halldór sinnir starfi sínu af krafti auk þess sem hann er einn af lykilmönnum í sveitastjórnarmálum á Íslandi. Það eru léleg rök að breytinga sé þörf og þess vegna þurfi að skipta um bæjarstjórn og bæjarstjóra. Það er reyndar stórhættulegt að láta reyslulaust fólk, blautt á bak við eyrun í pólitík ráðskast með fjöreggið okkar. Þegar við loks höfum eftir erfiða tíma breytinga í atvinnumálum fundið nýjan grundvöll byggðan á þekkingu og menntun.

Við kjósum ekki í sveitarstjórnarkosningum til þess eins að ná okkur niður á ríkisstjórninni, veðurguðunum eða einhverju sem skiptir engu máli er varðar sveitarstjórnarmál. Átta ár eru ekki langur tími þegar gera þarf breytingar á sveitarfélagi sem er í eðli sínu flókið fyrirtæki þar sem hagsmunaaðilar sem hafa ólíkar þarfir og væntingar. Sjálfstæðisflokkurinn þarf tækifæri til þess að fylgja eftir þeim breytingum sem ég hef nefnt af festu og ákveðni. Breytum ekki breytinganna vegna.

Steinþór Bjarni Kristjánsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi