Grein

Halldór Halldórsson.
Halldór Halldórsson.

Halldór Halldórsson | 22.05.2006 | 08:49Staðreyndir í stað innihaldslausra slagorða

Staðreyndirnar um vöxt og viðgang Ísafjarðarbæjar tala sínu máli en oft er nóg að sá efa í heilan kviðdóm til að raska niðurstöðu. Mótframbjóðendur okkar sá efa með því að gefa í skyn að andstæðingar þeirra standi sig ekki. Í-listinn virðist ekki ná að hefja sig upp fyrir andstæðinga sína og því fara þeir þá leið að draga okkur niður. Sú tegund stjórnmála ætti ekki að þekkjast en gerir það því miður í þessari kosningabaráttu.

Framboðsbræðingur þriggja stjórnmálaflokka, sem fátt eiga sameiginlegt annað en vilja til að koma núverandi meirihluta frá, segja íbúum Ísafjarðarbæjar að hér sé allt í kalda koli. Nú þurfi að breyta til og nú verði að snúa vörn í sókn. Þvílík öfugmæli og fjarstæða að ætla að slíkur bræðingur geti gert annað en tekið upp eldra ástand í bæjarmálunum, þ.e. að eyða kröftunum í deilur sem hæfa sandkassa á meðan hagsmunir bæjarbúa sitja á hakanum.

Engar staðreyndir takk!

Framboð Í-listans skreytir titilreit heimasíðu sinnar, þegar þessi grein er skrifuð, með slagorðinu: ,,Ekki rugla mig með staðreyndum. Ég hef þegar gert upp hug minn.” Slík slagorð eru auðvitað boðleg í hvaða sandkassa sem er. En varla telja kjósendur í Ísafjarðarbæ hag sínum best borgið hjá þessu fólki. Megum við frekar biðja um gamla slagorðið, þar sem þau kveiktu á kerti til að lýsa upp myrkrið sem þau hafa sökkt sér í árum saman. Það er í góðu lagi að gagnrýna á málefnalegan hátt, nauðsynlegt reyndar, en þegar fólk býður sig fram þá er ekki nóg að segjast ætla að gera betur án þess að útskýra fyrir fólki hvernig það skuli gert.

Það lýsir af Ísafjarðarbæ

Það kom skýrt fram í erindi forseta Íslands við setningu sýningarinnar Perlan Vestfirðir um daginn hver staða mála er hér um slóðir. Þar lýsti hann breytingunni á samfélaginu frá drunga og doða árið 1996 yfir í vöxt og bjartsýni árið 2006. Það dylst engum sem fylgst hefur með málefnum Ísafjarðarbæjar og Vestfjarða á undanförnum árum að mikill árangur hefur náðst. Bjartsýnna samfélag endurspeglast í aukinni fjölbreytni, fleiri menntunartækifærum, fjölgun starfa í nýjum greinum, bættum þjóðvegum, fjölgun rannsóknarstarfa og úthlutun lóða til bygginga í Ísafjarðarbæ. Fjöldi atvinnuauglýsinga birtast og stjórnendur fyrirtækja leita erlendis eftir starfsfólki þar sem það fæst ekki hér á svæðinu. Hefur þetta komið fram í umfjöllun fjölmiðla og annarra sem kynnt hafa sér stöðuna.

Engar upplýsingar takk!

Í beinni útsendingu NFS um daginn var fjallað um málefni Ísafjarðarbæjar og rætt við okkur oddvita framboðslistanna. Tekin voru viðtöl við fólk og sagt frá uppbyggingunni í bæjarfélaginu. Það var skrítin upplifun að vera svo þátttakandi í sama þætti og hlusta á fullyrðingar um að nú þyrfti að gera breytingar á stjórn bæjarins, snúa þyrfti vörn í sókn o.fl. innihaldslítil slagorð af hálfu Í-lista.Aftur voru sýndar fréttamyndir af byggingarsvæði og tekið viðtal við verktaka sem sagði að mikið væri að gera og mikil bjartsýni ríkti.

Enn var rætt við frambjóðendur og aftur talaði oddviti Í-lista um að snúa þyrfti vörn í sókn og gera þyrfti breytingar á stjórn bæjarfélagsins, hann tók ekkert eftir uppganginum sem um var rætt. Sjálfsagt vill hann ekki vita þetta.

Varist bæjarútgerðartilburði Í-listans!

Á opnum fundi á Flateyri kom fram hjá oddvita Í-listans að ef fjárfest hefði verið af hálfu Ísafjarðarbæjar í kvóta fyrir fjórum árum þá hefði kvótinn vaxið svo og svo mikið í verði o.s.frv. Þetta þarf að varast sérstaklega því oddviti Í-listans lét þess ekki getið hvað hefði gerst ef kvótinn hefði fallið í verði á þessum fjórum árum. Hann reiknaði ekki með hvort hægt hefði verið að græða meira ef hlutabréf hefðu verið keypt, hann sýndi ekki fram á hvort kvóti hefði aukist eða minnkað í sveitarfélaginu við þessa aðgerð.

Mergurinn málsins er sá að það er stórhættulegt að braska með peninga sveitarfélagsins með þeim hætti sem hann talaði um á Flateyri. Hlutverk sveitarfélaganna er að veita þjónustu og skapa umhverfi – ekki að braska með peninga og fara 30-40 ár aftur í tímann til misheppnaðra bæjarútgerða sem sugu peninginn úr bæjarsjóðum sveitarfélaganna hér áður fyrr.

Opnið augun!

Tilraunamennska í stjórn bæjarins getur hæglega fært okkur áratug aftur í tímann, þegar efnahagsleg hnignun náði hér hámarki. Við höfum nýtt Orkubúspeningana vel og gætilega. Stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins er skýr, markmið okkar er að stuðla að áframhaldandi vexti Ísafjarðarbæjar. Við bjóðum til starfa fólk með reynslu af sveitarstjórnarmálum í bland við nýtt fólk með áherslur og reynslu úr öðrum greinum. Horfið til næstu fjögurra ára. X-D.

Halldór Halldórsson, oddviti sjálfstæðismanna í Ísafjarðarbæ.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi