Grein

Bergþór Ólason.
Bergþór Ólason.

Bergþór Ólason | 20.05.2006 | 11:00Sigurður Pétursson og samgöngumál

Það var sérstakt að lesa grein Sigurðar Péturssonar hér í BB nýlega þar sem hann fór mikinn í yfirlýsingum og þá sérstaklega um samgöngumál. Þar gengur frambjóðandinn fram með þeim hætti að ekki er hægt annað en að svara. Eftir að lesa grein Sigurðar má ætla að allt sé í kalda koli á Ísafirði. Þar hafi ekkert gerst undanfarin ár. Ekkert! Er raunverulega einhver sem hefur það á tilfinningunni? Sérstaklega hart gengur frambjóðandinn fram þegar hann gagnrýnir framtaksleysi í samgöngumálum. Hann gagnrýnir að vegaframkvæmdir í Djúpinu séu skammt á veg komnar. Er raunverulega einhver sem er þeirrar skoðunar að lítið hafi þokast í vegagerð um Djúpið?

Nú horfum við fram á að árið 2008 verður hægt að aka frá Reykjavík til Ísafjarðar á bundnu slitlagi. Framkvæmdir við þverun Mjóafjarðar eru handan við hornið og sömuleiðis vegagerð um Arnkötludal. Auðvitað veit frambjóðandinn þetta en kýs að fara með rangt mál, sennlega í þeim tilgangi að skapa stemmingu fyrir framboði sínu.

Frambjóðandinn heldur því jafnframt fram að ekkert hafi heyrst um jarðgöng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Það vill nú þannig til að rannsóknaboranir hefjast þar í sumar.

Allar staðhæfingar Sigurðar í grein hans sem snúa að samgöngumálum eru út í bláinn. Bylting hefur orðið hvað vegtengingu Ísafjarðarsvæðisins við suðvesturhornið varðar. Árið 2008 verður hægt að aka á bundnu slitlagi frá Ísafirði til Reykjavíkur. Ef það er framtaksleysi þá sér frambjóðandinn Sigurður Pétursson þessa hluti með öðrum augum en ég. En sennilegast er að hann sjái þetta alls ekki, af því að hann vill ekki sjá framfarirnar. Þær henta sennilega ekki framboði hans.

Bergþór Ólason, aðstoðarmaður samgönguráðherra.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi