Grein

Albertína Elíasdóttir.
Albertína Elíasdóttir.

Albertína Elíasdóttir | 19.05.2006 | 14:18Ferðasaga

Hvar á að byrja? Ég verð að vera hreinskilin. Ég lenti í töluverðum vandræðum með að ákveða um hvað ég vildi fjalla í þessari grein minni, enda ekki lítið sem til greina kemur. Jú, vissulega var hugmyndin að fjalla um sveitarstjórnarmál, en á ég að ræða samgöngumál, skólamál, málefni unga fólksins, umhverfismál, íþrótta og tómstundamál... Já, hann er mjög langur þessi listi. Meðan þessum vangaveltum stóð þá, reikaði hugurinn út og suður, eins og oft vill gerast. Já, suður. Það er nefnilega svo skrýtið, að það er oft sem maður virðist þurfa að komast aðeins í burtu úr eigin umhverfi, til að átta sig á öllu því góða sem maður býr við.

Ég skrapp suður í lok síðustu viku. Þar var ég reyndar aðallega í Borgarfirðinum, Lundareykjadalnum nánar til tekið að passa hús, börn, hunda, ketti og hesta. Á föstudeginum þurfti ég að fara til Reykjavíkur að stússast. Já, ég verð að viðurkenna að ég sé það alltaf betur og betur hvað ég er ótrúlega mikil forréttinda manneskja. Hvað við, sem búum hér, erum ótrúlegar forréttindamanneskjur. Forréttindi hugsið þið ef til vill. Já, það eru nefnilega forréttindi að fá að eiga heima úti á landi og auðvitað alveg sérstaklega að fá að búa í Ísafjarðarbæ.

Ég asnaðist sem sagt til Reykjavíkur á föstudegi. Ég var komin í borgina um tvö leytið og var umferðin svona, temmileg og ekkert nema gaman af því. Þar kom ég við í Kringlunni og ætlaði síðan rétt að skreppa niður á Hverfisgötu, áður en ég keyrði í sund upp í Árbæ. Já, ég veit – skreppa eitthvað í Reykjavík. Þetta stutta skrepp varð að tíu mínútum, svo hálftíma og endaði í klukkutíma. Það tók mig rúman klukkutíma að keyra frá Kringlunni, niður á Hverfisgötu (þar sem ég stoppaði nú ekki nema í 5 mínútur í mesta lagi) og upp í Árbæjarlaug. Ástæðan var ekki sú að þetta væri svona löng leið – það var einfaldlega brjáluð umferð!

Á þessum klukkutíma komu heimaslóðirnar og kostir þeirra ansi oft upp í huga mér. Til að mynda má nefna að ég vaknaði ansi seint í morgun, verð bara að viðurkenna það, vaknaði sem sagt ca. 10 mín. í átta en var samt sem áður mætt í vinnunna á réttum tíma og kom samt við í bakaríinu. Hér er stutt í allt.

Það eru fleiri atriði sem styðja það mál mitt að hér býr forréttindafólk. Hér má stunda nánast hvaða áhugamál sem er, hvort sem um ræðir íþróttir eða aðrar tómstundir. Ég ætla að sleppa ykkur við að telja upp allt sem hér er hægt að gera, enda er hætt við að þið væruð öll löngu farin heim að sofa áður en ég næði að klára listann.

Enn annað dæmið, er hversu auðvelt er að koma hugmyndum sínum í framkvæmd. Ég get nefnt ótal dæmi um það, til að mynda ráðstefnuna Með höfuðið hátt, sem ég og fleiri ungir áhugmenn um byggð á Vestfjörðum héldum fyrir nokkrum árum. Það má nefna Aldrei fór ég suður, Útilífveruna, Mýrarboltann, fyrir utan mörg fyrirtæki sem hafa staðið sig vel. Þetta er aðeins brota brot af öllu því sem nefna mætti. Hér eru einnig staðsettar framsýnar stofnanir eins og Fjölmenningarsetur, en ég legg mikla áherslu á að uppbygging þess og styrking haldi áfram.

Allt eru þetta atriði sem valda því að ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa fæðst hér og fengið að alast hér upp. Já, ég missti mig víst aðeins í bjartsýninni og gleðinni yfir lífinu hérna á undan. Ástandið hefur verið að batna, en enn eru þau vissulega mörg málefnin sem við þurfum að vinna áfram að.

Það er augljós staðreynd að það væri heppilegt fyrir sveitarfélagið ef okkur íbúunum fjölgaði aðeins. Til þess að það megi verða, þá þurfum við að halda áfram að byggja upp sveitarfélagið og ég legg mikla áherslu á, að til þess þurfum við að auka tengsl okkar við sveitarfélögin í kring. Þar er ekki síst mikilvægt að auka samskipti okkar við sveitarfélögin hinum megin við fjöllin, þ.e. Suðurfirðina. Það er aðeins ein leið til þess og hún er að gera göng úr Dýrafirði yfir í Arnarfjörð. Ríkið verður einfaldlega að gera sér grein fyrir því, að ef það ætlar að standa við fögur fyrirheit um uppbyggingu Vestfjarða og Ísafjarðar sem byggðakjarna, þá þarf að koma þessum göngum af stað sem allra allra fyrst, enda er varla hægt að bjóða íbúum á 21. öldinni upp á aðra eins vegi og nú eru á þessari leið.

Einnig er mjög mikilvægt þegar við erum að tala um að fjölga í sveitarfélaginu, að gæta þess að fjölga ungu fólki á svæðinu. Í því samhengi er mikilvægt að horfa til þess, hvaða þjónustu ungt fólk er einkum að nota. Þar er mikilvægt að félagslíf bæjarins sé í góðum málum fyrir alla aldurshópa, að leikskólagjöldin lækki og séu sambærileg við það sem gerist í öðrum sveitarfélögum, að þau finni hvatningu til að stofna eigin fyrirtæki og hafi möguleika á heilsusamlegu lífi. Allt þetta leggur Framsóknarflokkurinn í Ísafjarðarbæ áherslu á hvort sem er fyrir ungt fólk eða eldra. Hér í Ísafjarðarbæ búa bjartsýni, framsýni og kraftur. Höldum áfram uppbyggingu sveitarfélagsins og setjum X við B.

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir. Höfundur skipar 3ja sætið á lista Framsóknarflokksins í Ísafjarðarbæ.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi