Grein

Alda Agnes Gylfadóttir.
Alda Agnes Gylfadóttir.

Alda Agnes Gylfadóttir | 19.05.2006 | 08:58Horft til framtíðar

Á undanförnum misserum hefur atvinnulíf á Vestfjörðum tekið miklum breytingum. Kvótinn hefur farið minnkandi á flestum stöðum og skipaflotinn er að mestu farinn. Náttúran hefur heldur ekki farið mjúkum höndum um Vestfirðinga eins og öllum er kunnugt um. Stjórnendur Ísafjarðarbæjar hafa því ekki verið öfundsverðir af störfum sínum undanfarinn áratug og ég verð að segja um gagnrýnisraddir sem skrifa allt mótlætið á tímabilinu á stjórn bæjarins að oft er auðveldara um að tala en í að komast. Nú eru hinsvegar tímamót á Vestfjörðum. Vestfirðingar verða að horfa fram á veginn og líta til þeirra tækifæra sem bjóðast í stað þess að horfa til baka. Það sem liðið er verður ekki aftur tekið, en hinsvegar má alltaf bæta hlutina.

Sjálf er ég nemi við Viðskiptaháskólann á Bifröst, en háskólaþorpið Bifröst er einmitt gott dæmi um það hvernig hægt er að gera fjarlæga hugmynd að veruleika, en fyrir ekki svo löngu hefði mönnum ekki órað fyrir því að háskólaþorpið yrði að veruleika í þeirri mynd sem það er í dag. Til að gera slíkar hugmyndir að veruleika þarf að stefna að ákveðnu markmiði og horfa fram á veginn. Sjálfstæðismenn í Ísafjarðarbæ hafa unnið ötullega að tilkomu háskólaseturs og stefna að því að háskólasetrið verði fullburða öflugur háskóli. Með tilkomu háskólans mun atvinnulíf, mannlíf, og menning gjörbreytast á Vestfjörðum og margfeldisáhrifin verða gífurleg.

Vestfirðir eru eitt best geymda leyndarmál landsins! Önnur eins náttúrfegurð finnst ekki á landinu, að mínu áliti og flestra þeirra sem komið hafa til Vestfjarða. Samgöngur hafa hins vegar háð okkur í því að fá til okkar ferðamenn, sem veigra sér við því að keyra fjallvegina okkar, eins hrikalegir yfirferðar og þeir geta verið og ekki færir allt árið um kring. Það er lífsspursmál fyrir framtíð Vestfjarða að samgöngur verði með þeim hætti að hægt sé að komast á milli allan ársins hring með góðu móti. Mikið hefur verið gert í samgöngumálum okkar vestfirðinga, en betur má ef duga skal.

Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, tilkynnti á dögunum að ákveðið væri að fara í jarðfræðirannsóknir í sumar vegna fyrirhugaðra jarðganga á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Tilkoma jarðganganna skiptir Vestfirðinga gífurlega miklu máli og tengir saman 7000 manna samfélag, auk þess sem tilkoma þeirra mun auka til muna aðsókn til Vestfjarða, bæði ferðamanna og þeirra sem setjast vilja að.

Vestfirðir eiga alla möguleika á að verða ævintýra- og ferðamannaparadís og nú þegar eru rekin metnaðarfull fyrirtæki í ferðaþjónustu í Ísafjarðarbæ sem eiga alla möguleika á að vaxa og dafna enn frekar í framtíðinni með betri samgöngum og með markvissri stefnu um stuðning við vaxtagreinar og verkefni sem laða að ferðamenn og gera þannig Ísafjarðabæ að miðstöð ævintýraferðamennsku á landinu.

Engum treysti ég betur til að sinna þeim verkefnum sem fyrir liggja en fólkinu sem staðið hefur í þessu undanfarin ár og átt svo stóran þátt í því að gera Ísafjarðarbæ að þeim þekkingar- og rannsóknarbæ sem raun ber vitni og markað stefnu bæjarins í umhverfismálum og ferðaþjónustu. Því hvet ég kjósendur til að setja X við D-listann þann 27. maí næstkomandi og taka þannig þátt í að efla Ísafjarðarbæ.

Alda Agnes Gylfadóttir, Þingeyri. Höfundur er nemi í viðskiptalögfræði við Viðskiptaháskólann á Bifröst og skipar 10. sæti á lista sjálfstæðismanna í Ísafjarðarbæ.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi