Grein

Hlynur Snorrason lögreglufulltrúi.
Hlynur Snorrason lögreglufulltrúi.

Hlynur Snorrason | 21.12.2001 | 11:58Hugsa áður en maður talar!

Það ber vott um visku að hugsa vel áður en maður talar. Slíkt kennum við a.m.k. börnunum okkar, vonandi. Einu sinni heyrði ég barn segja við sjónvarpsmanninn Hemma Gunn, að ástæðan fyrir því að fólk er með einn munn en tvö eyru væri vegna þess að fólk ætti að hlusta meira og tala minna. Margt til í þessu. Mér kom þetta til hugar þegar fréttir bárust af landsfundi Samfylkingarinnar sem haldinn var fyrir nokkru.
Ég verð að segja að ég varð fyrir mjög miklum vonbrigðum með þær fréttir. Af mörgum vandamálunum sem hrjá þjóðina þá datt mönnum í hug að fara að eyða tímanum í að ræða það hvort ekki ætti að sleppa því að setja smæstu fíkniefnabrot á sakaskrá.

Eftir því sem ég hef komist næst, þá hafa Samfylkingarmenn sérstakar áhyggjur af því að velferð þeirra sem fremja „smæstu“ fíkniefnabrot sé hætta búin síðar á lífsleiðinni. Og einn ónefndur alþingismaður Samfylkingarinnar sagði í sjónvarpsviðtali vegna þessa merkilega málfutnings, að það sé alltaf möguleiki á því að ungt fólk „slysist“ til þess að prófa ólögleg fíkniefni örfáum sinnum. Þetta mun sennilega bjarga heiminum, að reyna af fremsta megni að fela það að ungir sem aldnir brjóti fíkniefnalöggjöfina. Ég bendi á að þarna talaði þingmaður. Hverjir bera ábyrgð á lögum landsins? Eru það ekki fulltrúarnir okkar á Alþingi? Þessi sami þingmaður sagði hins vegar að hann væri ekki fylgjandi því að lögleiða fíkniefni. Er ekki pínulítill tvískiningur í þessu?

Ég spyr einfaldlega: Er þetta lausnin á vandanum? Er það mikilvægast að fela það fyrir þeim sem óska eftir sakavottorðinu okkar, að maður hafi misstigið sig einhvern tíma ævinnar? Hverjum er greiði gerður með þessu? Hvers vegna að leyna þessu en ekki öðrum „smábrotum“? Hvaða hagsmunum erum við að bjarga?

Það veldur okkur, sem störfum að vímuefnaforvörnum með einum eða öðrum hætti, oft hugarangri hversu hægt það gengur að sannfæra ungt fólk um það að fara að neyta áfengis á unglingsaldri og að prófa fíkniefni hafi í för með sér mikla áhættu. Forvarnir virka, en við hefðum viljað sjá þær virka hraðar. Allt of margt ungt fólk fellur í valinn, æskan okkar er í veði. Þetta má einfaldlega lesa í nýútkominni ársskýrslu SÁÁ. Nóg um þær hörmungar.

Ég er orðinn sannfærður um það, eftir margra ára starf að vímuefnaforvörnum, að þau skilaboð sem við, fullorðna fólkið, erum að senda út í þjóðfélagið, þar á meðal til unglinganna okkar, eru mjög mótandi. Það er staðreynd að það erum við sjálf sem mótum samfélagið okkar. Ef ekki við, hver þá?

Nú er ég að komast að kjarna málsins. Óráðshjal, eins og nánast á hverjum landsfundi Sjálfstæðismanna, um að lögleiða skuli „daufustu“ vímuefnin eins og kannabisefni, eru mjög sterk skilaboð út í þjóðfélagið. Sama á við um þá umræðu sem ég vísaði til áðan á landsfundi Samfylkingarinnar. Hvaða skilaboð eru þetta til þjóðarinnar og sérstaklega unga fólksins? Jú, þetta er eitt af því sem dregur úr árangri forvarna. Þegar ungt fólk heyrir „málsmetandi“ menn eins og stjórnmálamenn tala fjálglega um að lögleiða beri kannabisefni af því að þau séu skaðlaus, eða að rétt sé að setja ekki smæstu fíkniefnabrot á sakaskrá, þá er eðlilegt að það fái það á tilfinninguna að það sé allt í lagi að prófa fíkniefni. Þau muni hvort eð er líklega verða lögleidd fjótlega, eða stjórnmálamenn telji þetta vera svo ómerkileg brot að ekki taki því að setja það inn á sakaskrána.

Nú má vel spyrja: Er ekki málfrelsi í landinu? Má nú ekki ræða opinberlega um skoðanir sínar? Jú, vissulega. En það er öllum hollt að hugsa vel áður en maður talar, sérstaklega opinberlega. Hér þarf einfaldlega að hugsa hugsunina til enda. Við þessar aðstæður sem við búum við í dag, hvað varðar vímuefni og vanda þann sem að ungu fólki steðjar, er þetta nákvæmlega ekki það sem okkur vantar.

Stjórnmálamenn og sér í lagi alþingismenn! Þið hafið athygli þjóðarinnar, þið eruð fulltrúar okkar á þingi, ekki bara þeirra sem eru fylgjandi lögleiðingu kannabisefna og fylgjandi því að fela þau brot sem framin eru á fíkniefnalöggjöfinni. Sem betur fer eru flestir þeirra skoðunar að lögleiðing vímuefna væri hrapalleg mistök. Þingmenn! Þið eruð líka fulltrúar þessa fólks. Hugsum áður en við segjum eitthvað óviturlegt.

– Hlynur Snorrason,
lögreglufulltrúi á Ísafirði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi