Grein

Bragi Guðmundsson.
Bragi Guðmundsson.

Bragi Guðmundsson | 18.05.2006 | 15:26Nám á grunnskólabraut Háskólans á Akureyri

Allmargir Vestfirðingar hafa stundað fjarnám frá Háskólanum á Akureyri og nú í vor mun til dæmis brautskrást góður hópur leikskólakennara sem stundað hafa nám sitt frá Ísafirði. Þessu ágæta fólki – reyndar allt saman konur – hef ég kynnst lítillega vegna kennslu um myndfundabúnað og tveimur vegna vinnu við lokaverkefni. Leikskólabrautin er þar með nokkuð kynnt á Vestfjörðum en grunnskólabrautin minna. Nú langar mig til að bæta þar lítillega úr en hvet jafnframt alla áhugasama til þess að leita sér frekari upplýsinga á vef Háskólans á Akureyri, www.unak.is. Það hafa lengi verið öflug tengsl á milli Vestfjarða og Akureyrar um skólamál, lengstum vegna sóknar Vestfirðinga í framhaldsskóla norðanlands en á síðari árum einnig vegna tilkomu Háskólans á Akureyri.

Grunnskólakennaranám er margþætt nám sem ætlað er að búa fólk undir kennslu sex til sextán ára barna og unglinga. Starfsvettvangurinn sem bíður brautskráðra er fjölbreyttur því aldurshópur grunnskólanemenda er breiður, námshæfni og þroski er mismunandi, áhugasviðin ólík og námsgreinarnar margar. Mikilvægi kennarastarfsins felst ekki síst í því að hafa skýra heildarsýn yfir alla þessa þætti, geta eygt og greint hvað hverjum nemanda hentar hverju sinni, kunna að bregðast við ólíkum aðstæðum, hafa staðgóða þekkingu á því sem kennt er og geta beitt ólíkum aðferðum við kennsluna svo góður árangur náist. Nám til B.Ed.-prófs á grunnskólabraut er 90 einingar sem deilast niður á þrjú ár í staðarnámi en fjögur ár í fjarnámi. Sérstök áhersla er lögð á að nemendur eigi kost á ítarlegu námi í grunngreinum grunnskólans, íslensku og raunvísindum.

Skipulag og innihald námsins er í megindráttum eins og hér segir: Allir nemendur taka sex einingar í aðferðafræðinámskeiðum sem snúast einkum um rannsóknaraðferðir, tölfræði og þjálfun gagnrýnnar hugsunar. Fimm einingar eru í íslensku og aðrar fimm í náttúruvísindum og stærðfræði. Að þeim einingum loknum velur nemandinn fimm einingar til viðbótar í annað hvort íslensku eða náttúruvísindum og stærðfræði þannig að skyldueiningar á öðru greinarsviðinu verða tíu en fimm á hinu. Í heimspeki og siðfræði eru átta einingar, þrjár einingar eru teknar í íslenskri sögu og jafnmargar í listum sem og sálarfræði. Tólf einingar eru í grunnskólafræðum sem fjalla meðal annars um skólann sem starfsvettvang, námskrárfræði, kennsluaðferðir, námsefnisgerð og skólaþróun. Loks er tólf eininga samfellt vettvangsnám á haustmisseri fjórða árs. Þá dvelja nemendur við athuganir, áheyrn og æfingakennslu í einum og sama skólanum allan tímann og fá þar með fágætt tækifæri til þess að kynnast öllum helstu innviðum venjubundins skólastarfs. Óhætt er að fullyrða að þetta langa og samfellda vettvangsnám hafi gefist vel og er eitt af sérkennum námsins við grunnskólabraut HA. Skyldunámskeiðin sem samtals eru 62 einingar deilast á öll fjögur námsárin. Af þeim eru 25 einingar teknar sameiginlega með leikskólabraut og við trúum að í þeim námskeiðum sé mikilvægur vettvangur til samræðu og skilnings á milli þessara tveggja skólastiga sem hlýtur að skila sér í starfi að námi loknu.

Þær 28 einingar sem ótaldar eru teljast til svokallaðra kjörsviða og þau eru nokkur í staðarnáminu. Enn sem komið er höfum við aðeins boðið eitt kjörsvið í fjarnámi og veljum þar saman námskeið í fjölbreyttan námspakka af þeim námsleiðum sem staðarnemum standa til boða. Þá hafa sumir fjarnemar valið að taka kjörsvið við Kennaraháskóla Íslands og í undirbúningi er samstarf við Háskóla Íslands á þessu sviði.

Allt frá upphafi hefur það verið keppikefli grunnskólabrautar – eins og kennaradeildarinnar allrar – að mynda góð tengsl á milli nemenda og kennara, nýta kosti nálægðar til fullnustu og varast að láta óþarfar hindranir rísa. Þessa nálægð höfum við flutt inn í fjarnámið með því að skipuleggja það í kringum námshópa og kenna í gegnum myndfundabúnað (gagnvirkt sjónvarp) til nokkurra staða í senn. Fyrir þeirri aðferð eru margvísleg kennslufræðileg rök, til dæmis er unnt að skipuleggja hópvinnu og annað samstarf meðal fjarnema vítt um land. Grunnskólakennsla byggist að miklu leyti á góðri samvinnu kennara í milli og mikilvægt er að verðandi kennarar þjálfist í slíkri samvinnu í námi sínu. – Auk beinnar kennslu um myndfundabúnað til fjarnema hafa þeir svo eins og aðrir nemendur beinan aðgang að margvíslegu námsefni og umræðuvettvangi á námsumhverfi á vef, WebCT, og er reynt að gera mun staðarnáms og fjarnáms eins lítinn og unnt er.

Skammt er síðan fjarnám hófst á grunnskólabraut en skólaárið 2005–2006 voru námshópar á þriðja ári í Reykjanesbæ og á Selfossi, á öðru ári í Neskaupstað, Vestmannaeyjum, Hafnarfirði og Ísafirði, á fyrsta ári á Þórshöfn, Höfn í Hornafirði og í Hafnarfirði. Reynsla af kennslu um gagnvirkan myndfundabúnað er að flestu leyti góð og við teljum að það hafi meira gildi að mynda námshópa fremur en leggja kennslu og námsefni út á netið til afnota fyrir hvern þann sem til þess hefur nauðsynlegan tækjakost. Aðferðir við fjarkennslu eru samt og verða alltaf í sífelldri endurskoðun með hliðsjón af tækniþróun og kennslufræði.

Ég vil þakka aðstandendum bb.is fyrir að veita þessari grein viðtöku um leið og ég hvet alla áhugasama um kennaranám að horfa með athygli og alvöru til kennaradeildar Háskólans á Akureyri. Við kappkostum að bjóða gott nám og góða þjónustu. Spyrjið þá álits sem þegar hafa numið hjá okkur og hikið ekki við að hafa samband ef og þegar spurningar vakna. Umsóknarfrestur er til 5. júní næstkomandi.

Bragi Guðmundsson brautarstjóri grunnskólabrautar við kennaradeild Háskólans á Akureyri. Netfang: bragi@unak.is


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi