Grein

Halldór Jónsson.
Halldór Jónsson.

Halldór Jónsson | 17.05.2006 | 08:47Flogið yfir Hetjuhöll með stolnum fjöðrum

Vestfirðir og veruleikinn þar ólu tíðum af sér afreksmenn. Flestir undu þeir heimavið enda akurinn frjór og samfélagið framsækið. Það besta var viðmiðið. Ekkert annað álitlegt. Sjaldnast annað að sækja utan æðri menntunar. Þeir sem þráðu hana flugu á brott á vit ævintýranna. Flugu á þéttum fjöðrum þekkingar og eigin verka. Flugu hvert sem hugurinn girntist. Voru víðast hvar aufúsugestir. Til áhrifa fallnir. Ekki allra, enda baráttuglaðir. Aðeins það besta.

Þeir sem heima sátu tókust á við lífið og að halda lífi. Sjaldnast var það friðsæl veröld. Það er lítið skjól fyrir þann er fremstur fer. Kröfuhart samfélag, til sjálf sín og annarra, skapaði framfarir sem horft var til úr fjarlægð.

Þegar járntjaldið eystra féll var talið að með hefði fallið skefjalaus persónudýrkun sem grafið hafði um sig þar eystra áratugum saman. Þá sjaldan að slíks hafa sést merki síðan, hefur að því verið hent gaman víðast hvar. Hefur þar engu skipt hvor í hlut hafa átt Castro hinn kúbverski eða synir sólarinnar, KimIlSung norðlenskur Kóreubúi eða Túrkmenbashi, faðir sólargeislanna. Fram til síðustu daga hefur því aðeins verið haldið í heimasveitum áðurnefndra að þá aðeins kæmi sólin upp er þeir hafa stigið fram úr rúmum sínum.

Þessi sannindi rifjuðust upp brottfluttum Ísfirðingi við lestur greinar er háskólanemi í Danmörku skrifaði á dögunum á bb.is. Sá lestur sannfæri mig um að seint skyldi slakað á kröfum til háskólanema um höndlun staðreynda og túlkun þeirra. Ég vona allra vegna að þann hluta námsins eigi þessi háskólanemi algjörlega eftir. Ég trúi ekki öðru.

Nú er það mér þvert um geð sem brottfluttum að hlutast til um mál þeirra er eftir sitja. Slíkt er ekki til eftirbreytni. Þegar hins vegar farið er jafn frjálslega með staðreyndir og áðurnefndur háskólanemi gerir verður ekki undan vikist að segja frá því sanna. Sérstaklega þegar nýttar eru fjaðrir góðra samferðar- og samstarfsmanna minna til þess eins að flugbúa ófleyg för annarra.

Skulu nú nefnd nokkur dæmi úr hafsjó rangfærslna háskólanemans:

Það er rétt að undanfarin ár hafa verið mikil niðurlægingarár fyrir íbúa Ísafjarðarbæjar. Þau hófust ekki 2002,eins og háskólaneminn segir, með sölu Básafells og gífurlegar aflaheimildir fóru í aðra landshluta. Þau hófust árið 1999 þegar ýmsir heimamenn og núverandi meirihluti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar lögðust á eitt með vinalausum Snæfellingi sem hafði það eitt að markmiði að koma í burtu stærsta fyrirtæki sveitarfélagsins. Þar brást meirihlutinn bæjarbúum og í kjölfarið hurfu nálega 300 tekjuhæstu störf sveitarfélagsins. Og fleiri fyrirtæki fóru sem háskólaneminn kann betur skil á. Þetta gerðist þrátt fyrir aðvörunarorð margra. Afleiðingarnar voru flestum ljósar frá fyrsta degi. Aðrir lokuðu augunum. Sumir eyrunum líka. Háskólaneminn segir að Ísfirðingar hafi vaknað upp við það í ársbyrjun 2003 að 9.000 fermetrar af atvinnuhúsnæði voru laus við Skutulsfjörð. Þetta er fjarri sanni. Nálega allir höfðu þá gert sér grein fyrir því í rúmlega þrjú ár. Hvað vakti nemann á þessum tíma veit ég ekki. Aðeins þeir sem sofa á verðinum vakna upp við vondan draum. Það varð í það minnsta hlutskipti þeirra sem sváfu þar til í ársbyrjun 2003. Sumir eru ekki vaknaðir ennþá.

Af skrifum háskólanemans má skilja að sólargeislar hafi fyrst leikið við Ísfirðinga árið 1998. Meirihluti sólargeislanna sem tók við árið 1998 eyddi að sögn biðlistum leikskóla. Eftir að leikskólinn Sólborg tók til starfa hafa engir biðlista verið. Hann var formlega tekinn í notkun í ársbyrjun 1998. Þá riðu aðrir stjórnendur um héröð Ísafjarðarbæjar. Meirihluti sólarinnar hefur því engum biðlistum eytt. Með einbeittum vilja hefur honum hins vegar tekist að hækka allar gjaldskrár leikskóla sveitarfélagsins þannig að um nokkrurra ára skeið hefur hvergi á landinu verið dýrara að nýta sér þessa sjálfsögðu þjónustu.
Þeir sem telja ásýnd bæjarins í umhverfismálum hafa batnað hafa tæplega átt leið um Suðurtanga né margra annarra staða í sveitarfélaginu þar sem umhverfismálum hefur hnignað mjög.

Á árunum 1994-1998 voru teknar ákvarðanir í bæjarstjórn sem lögðu grunn að mikilli sókn Grunnskólans á Ísafirði í innra starfi. Einnig var haldið áfram vinnu í húsnæðismálum skólans. Því miður hefur lítið sem ekkert gerst í húsnæðismálum skólans undanfarin átta ár. Það litla sem gert hefur verið er ákaflega tilviljanakennt. Fjárframlög til grunnskólanna í bæjarfélaginu eru þau lægstu á landinu á hvern nemanda. Það er því aðdáunarvert fylgjast með því hvernig starfsfólki skólanna hefur tekist að gera mikið úr litlu.

Framganga meirihlutans í málefnum Menntaskólans á Ísafirði verður þeim til ævarandi skammar. Þar brugðust forystumenn sveitarfélagsins skólanum á örlagastundu. Vonandi verður hægt að bæta fyrir þann skaða. Grunnur var lagður að úrlausn húsnæðismála Tónlistarskólans löngu áður en núverandi meirihluti kom til valda og þrátt fyrir að formleg vígsla Hamra hafa verið eftir að núverandi meirihluti kom til valda kom sá meirihluti ekki að þeirri ákvarðanatöku.

Það vekur hins vegar athygli að Edinborgarhúsið er ennþá óklárað. Skýringin er sú að Ísafjarðarbær hefur ekki staðið við sinn hluta fjármögnunar framkvæmda. Af einhverjum ástæðum minntist háskólaneminn ekki orði á þetta mál.

Með minnkandi metnaði aukast líkur á misbrestum. Það var mikið fagnaðarefni þegar fréttist af nýbyggingu í miðbæ Ísafjarðar, sem síðar hlaut nafnið Neisti. Útlit þeirrar byggingar leiðir óneitanlega hugann að því hversu mikilvægt er að metnaður ráði för þegar byggja skal upp. Að sú bygging hafi dregið Samkaup, Bónus og Húsasmiðjuna til bæjarins er sérkennileg fullyrðing í ljósi þess að verslun Samkaups opnaði síðla árs 1996 eða tæpum tveimur árum áður en núverandi meirihluti tók til starfa og enn fleiri árum áður en framkvæmdir við Neista hófust. Þegar Samkaupsmenn höfðu sannað að hér var hægt að reka verslun með hagnaði fylgdi fleiri aðilar í kjölfarið. Þar komu sólargeislar meirihlutans ekkert við sögu.

Greinarhöfundur nefnir sölu Orkubús Vestfjarða og að sú ákvörðun hafi verið umdeild. Í þeirri setningu kemst greinarhöfundur næst sannleikanum í grein sinni. Hann telur að söluandvirðið hafi gefið bæjarfélaginu byr og svigrúm sem vel hafi verið nýtt af meirihlutanum. Vissulega gaf salan svigrúm. Því miður var það ekki nýtt. Það er alkunna að þegar sveitarfélög selja eignir nýta þau söluandvirðið til fjárfestinga og framkvæmda sem þau að öllu jafna hafa ekki burði til að fjármagna úr rekstri sínum. Sum framkvæma fyrst og selja síðan eignir til fjármögnunar. Fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar kom fram hjá sumum frambjóðendum að núverandi meirihluti yrði aðeins sex ár að sóa þeim fjármunum sem fengust fyrir sölu Orkubúsins, ef ekki yrði breitt um stefnu. Þetta þótti bölsýni. Nú fjórum árum síðar kemur í ljós að þessi spádómur var tóm bjartsýni. Um síðustu áramót hafði öllu söluandvirði Orkubúsins verið ráðstafað. Megnið af því hefur farið til þess að fjármagna rekstur sveitarfélagsins, sem meirihlutinn virðist ekki hafa neina stjórn á.

Framkvæmdir á vegum bæjarfélagsins á undanförnum átta árum hafa þrátt fyrir allt ekki verið meiri en eðlilegt getur talist af bæjarfélagi af þessari stærð. Það er ekki vinsælt að tala um fjármál við kosningar en engu að síður nauðsynlegt. Á síðasta ári einu versnaði peningaleg staða bæjarfélagsins um rúmar 366 milljónir króna. Aðeins á þessu eina ári. Á síðustu tveimur árum hefur þessi staða versnað um 643 milljónir króna. Þannig að sjá má að staðan fer hratt versnandi. Enda nú þegar loks hafa verið boðnar út framkvæmdir við Grunnskólann á Ísafirði verður að taka allan framkvæmdakostnaðinn að láni. Þeim sem kenna slíka þróun við trausta fjármálastjórn verður sennilega fátt til bjargar.

Svona mætti lengi telja hvað grein háskólanemans varðar. En hér skal látið staðar numið.

Aðeins það besta. Það var löngum krafa Vestfirðinga með Ísfirðinga í fararbroddi. Annað var undanhald. Á undanförnum árum hefur skapast undarlegt andrúm í Ísafjarðarbæ. Danski háskólaneminn kallar það tónlist sem fólkið vill heyra bæjarfélaginu til mikilla hagsbóta og vegsauka í samfélaginu. Ég velti því fyrir mér hvort þarna sé verið að hæðast að stjórnendum bæjarfélagsins. Neminn hefur hins vegar verið þekktur af óhefðbundnum aðferðum við að koma ár sinni fyrir borð og því meinar hann þetta víst.

Metnaðarleysi hefur á undanförnum árum grafið um sig. Með glórulausri sjálfumgleði og sjálfshóli eru viðmiðin orðin slík að það er talinn stórsigur þegar lítill moli hrekkur af allsnægtarborðinu syðra. Öðruvísi mér áður brá. Nú er komið að skuldadögum enn einu sinni. Nú hópast menn eins og danski háskólaneminn og keppast við að skreyta meirihluta síðustu átta ára stolnum fjöðrum. Slíkt er ekki fallegt. Það er hins vegar skiljanlegt. Það er engar aðrar fjaðrir til.

Íbúar Ísafjarðarbæjar fá þá stjórnendur yfir sig sem þeir velja hverju sinni. Það hefur ekki verið af þeim tekið. Hverjir koma til með að stjórna Ísafjarðarbæ eftir kosningar ræðst í lýðræðislegum kosningum. Það er óskastaða að hver sá sem fer að kjörborðinu hafi gert sér grein fyrir raunverulegri stöðu bæjarfélagsins og því mannlífi sem þar þrífst. Íbúar verða að axla ábyrgð á gjörðum sinna sveitarstjórnarmanna. Það gerir enginn fyrir þá. Eins og rakið hefur verið verður það ekki skemmtileg aðkoma. Hún á hins vegar ekki að vefjast fyrir þeim sem koma að borði með heilbrigða skynsemi og raunsætt mat á stöðu mála. Og metnaðinn í lagi. Kannski nægir kjósendum að rifja upp ævintýrið um nýju fötin keisarans.

Halldór Jónsson. Höfundur var bæjarfulltrúi í bæjarstjórn Ísafjarðar 1994-1996 og í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar 1996-1998.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi