Grein

Óli M. Lúðvíksson.
Óli M. Lúðvíksson.

Óli M. Lúðvíksson | 16.05.2006 | 09:21Valkostur D-listans er skýr

Það er ljóst að framtíðarsýn Ísafjarðarbæjar hefur ekki verið betri í mörg herrans ár og sú sýn sem oddviti sjálfsstæðismanna hefur haft er að skila árangri svo um munar. Menn sjá ekki þá miklu hugarfarsbreytingu sem varð við opnun byggingasvæðis á Skeiði. Öll aðstaða fyrir æskuna hefur batnað svo um munar. Áfangi hefur náðst í skólamálum á háskólastigi, byggja á við grunnskólan. Öll skilyrði til farsællar búsetu eru til staðar. Því þarf að byggja við starfsemina á staðnum til framtíðar, bæði í tengslum við klasamyndun sem og við þær sterku stoðir sem hér eru og núverandi meirihluti hefur tryggt til muna. Það eru því öll skilyrði til þess að hér muni fjölga og að byggðin verði blómlegri.

Enda þótt lægð hafi komið í sjávarútveginn, eru framsýnir menn þar við stjórn og ekki þarf að hafa áhyggjur af þeirra framtíðarsýn - hún virðist skýr. Ísafjarðarbær hefur reynt að styðja við þann rekstur sem er á staðnum, en ekki er hægt að fallast á að það sé farsælt fyrir sveitarfélag af þessari stærð að standa sjálft í rekstri, í samkeppni við þá sem fyrir eru. Meirihlutinn hefur verið gagnrýndur vegna þess að hann hefur ekki verið nóu harður að sækja á ríkisvaldið, þennan tón heyrum við frá Alþingi daglega. Spurningin er hins vegar sú, hvort það sé ekki okkar hlutverk að reka sveitarfélagið með þeim leikreglum sem til staðar eru – það er þá Alþingis að bæta þær og laga að stöðu mála.

Það er sama hvar borið er niður, bæjarstjóri okkar Ísfirðinga er talinn svo vel inni í málum, að honum er falin mörg trúnaðarstörf á landsvísu. Væri það gert ef hann væri ekki á réttri braut með okkar ágæta bæjarfélag? Það er nauðsynlegt að bæjarbúar skoði það sem áunnist hefur á liðnu kjörtímabili og greiði síðan atkvæði í samræmi við það sem þá kemur í ljós. Fyrst og fremst er rétt að kjósendur hafi í huga, að með miklu starfi og jákvæðu hugarfari er búið snúa slæmri þróun á betri veg, örugglega og ákveðið og þannig er búið að skapa þann grunn sem byggja má á í kjölfar kosninganna nú.

Það er bjart yfir bæjarfélaginu okkar og stefnuskrá D-lista gerir grein fyrir næstu skrefum þannig að enn betur verði gert. Höldum áfram uppbyggingu í Ísafjarðarbæ, gerum það með festu og fyrir það fjármagn sem er til staðar en ekki með því að stofna til skulda umfram getu einsog sum framboð vilja. Valkostur D-lista er skýr með Halldór sem bæjarstjóraefni, en ekki liggur fyrir hver eru bæjarstjóraefni annarra framboða. Verðlaunum bjartsýni, þor og dug - eflum bæinn okkar og kjósum D á kjördag -Ísafjarðarbæ til heilla.

Óli M. Lúðvíksson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi