Grein

Ingunn Ósk Sturludóttir.
Ingunn Ósk Sturludóttir.

Ingunn Ósk Sturludóttir. | 15.05.2006 | 11:48Fólk og málefni

Senn líður að kosningum. Andrúmsloftið í bænum titrar af pólitískum umræðum. Fólki hleypur kapp í kinn, gerist stóryrt, hrópar á báða bóga og þreyir gönuhlaup tilfinninganna. Allt er þetta gott og blessað og á stundum skemmtilegt. Öll viljum við sveitarfélaginu okkar vel og framgang þess sem mestan. Þess vegna þurfum við að setjast niður og vega og meta störf meirihluta bæjarstjórnar undir forystu Halldórs Halldórssonar. Í mínum huga er það ekki erfitt.

Ekki þarf annað en líta áratug aftur til að sjá hversu mikið hefur áunnist. Hér hafa verið skapaðar aðstæður fyrir rannsóknar-og fræðivinnu. Hvar var Þróunarsetrið fyrir átta árum? Nú eða Snjóflóðasetrið?Og nú síðast Háskólasetrið? Í Vestrahúsinu starfa nú á milli 30 og 40 manns. Að stórum hluta ungt og vel menntað fólk sem ugglaust væri einhvers staðar annars staðar ef ekki væri fyrir Þróunarsetrið, þó ekki ætli ég að fullyrða neitt um það. Svona hlutir gerast ekki af sjálfu sér, þar þurfa að koma til áræðni, þor og kraftur og ekki síst eljusemi til að fylgja þeim eftir. Þó Pallas Aþena hafi stokkið alsköpuð út úr höfði Seifs í goðafræði Grikklands hins forna, þá gerist slíkt ekki á Íslandi nútímans.

Halldór hefur með störfum sínum sýnt, að hann ber hag Ísafjarðarbæjar fyrir brjósti og meirihlutinn hefur staðið þétt að baki hans. Ég horfi bjartsýn fram á við ef fram heldur sem horfir. Nei, við þurfum ekki baráttufundi, slagorð eða hnefa á lofti. Við þurfum raunsæi, skynsemi og bjartsýni. Lítum í kringum okkur. Vegum og metum það sem gerst hefur í samfélaginu okkar síðasta áratug. Þurfum við að breyta breytinganna vegna? Ég segi nei. Ég kýs fólk og málefni. Ég set X við D.

Ingunn Ósk Sturludóttir, söngvari og tónlistarkennari.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi