Grein

Gísli Halldór Halldórsson.
Gísli Halldór Halldórsson.

Gísli Halldór Halldórsson | 13.05.2006 | 18:25Framtíð atvinnu á Vestfjörðum

Það er öllum ljóst að þar sem er blómleg byggð hafa íbúarnir atvinnu, líkt og raunin er hjá okkur. Ljóst má líka vera að þar sem byggð er í eyði, þar skortir ekki vinnu. Í Ísafjarðarbæ er raunin sú, að til starfa í framleiðslugreinum okkar höfum við flutt vinnuafl af alþjóðlegum vinnumarkaði. Aðeins er gott eitt um það að segja. Við höfum notið góðs af vinnuframlaginu og þeirri auðgun menningarinnar sem fylgir fólki af ólíkum þjóðernum. Markmið þess að fjölga atvinnutækifærum á stað eins og Ísafjarðarbæ hlýtur því að vera að fjölga hér íbúum, svo lífsgæði þeirra sem fyrir eru aukist, með bættri þjónustu og fjölbreyttari möguleikum.

Hvert er hlutverk bæjarins í atvinnumálum?

Það sem bæjaryfirvöld geta gert til að efla atvinnulíf er fyrst og fremst að bæta aðstæður fólks og fyrirtækja til atvinnurekstrar. Við byggjum ekki glæsilega skemmu og bíðum þess að hún fyllist af fyrirtækjum. Við eflum ekki atvinnulífið með því að veita einstökum fyrirtækjum fyrirgreiðslu fram yfir önnur, á kostnað skattborgara.

Við getum barist fyrir bættum samgöngum, við höfum gert það og ætlum að gera það. Við getum auðveldað fyrirtækjum aðgengi að stjórnsýslu og gefið þeim kost á aðstoð við að komast fyrstu skrefin, þetta höfum við gert en munum gera miklu betur. Við getum í ferðamálum byggt upp fullkominn Vestfjarðavef sem verður raunverulegt andlit okkar út í hinn stóra heim, og það höfum við sjálfstæðisfólk ákveðið að gera á myndarlegan hátt.

En hafið hugfast að atvinnan skapar ekki fólkið, það er fólkið sem skapar atvinnuna og þegar upp er staðið snýst þetta um einstaklinga. Það er af þessum ástæðum svo mikilvægt, að hér geti fólk verið við nám þegar það tekur sín fyrstu skref í lífinu eftir tvítugt. Fólk á þeim aldri er gjarnan að stofna fjölskyldu og festa rætur með kaupum á húsnæði.

Nám veitir þessu fólki þekkingu og fyllir það kjarki og hugmyndum til að fara af stað með ný verkefni. Hvort sem það er sjálfstæður atvinnurekstur eða þjónustustörf fyrir fyrirtæki eða stofnanir. Þar liggur mannauðurinn og framtíð okkar.

Fyrir hvern er háskólanám?

Það voru ekki störf kennaranna sem horft var til þegar við fórum af stað með háskólanám í Ísafjarðarbæ, heldur menntun og þekking fólksins á svæðinu. Frá því Halldór Halldórsson tók þátt í að hrinda hér af stað hjúkrunarnámi hefur stöðugt þokast fram á veg hjá okkur. Háskólasetrið er síðasta dæmið, háskóli gæti orðið það næsta. Fólkið sem hér hefur menntað sig í fjarnámi, á e.t.v. mesta þáttinn í því að hér eru að sjást merki bjartsýni og framkvæmda.

Ég þekki margt af þessu fólki og hef séð kvikna hjá því framkvæmdagleði og hugmyndaauðgi eftir því sem náminu fleygði fram. Hvar værum við ef sjálfstæðisflokkurinn hér hefði ekki tekið öll þessi skref? Hvernig væri ástandið í atvinnumálum hér ef við værum á núllpunktinum að bíða eftir einhverju sem við gætum „formlega“ kallað háskóla? Menntun og þekking er grundvöllurinn að möguleikum okkar til framtíðar.

Gísli Halldór Halldórsson. Höfundur skipar 3. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi