Grein

Rannveig Þorvaldsdóttir.
Rannveig Þorvaldsdóttir.

Rannveig Þorvaldsdóttir | 12.05.2006 | 08:47Stöndum vörð um skólana okkar

Senn líður að sveitarstjórnarkosningum og kjósendur munu á næstu vikum gera upp hug sinn um hvaða fólki þeir treysta best til að stýra bæjarfélaginu. Við Í-listafólk höfum lagt fram þau atriði sem okkur þykir brýnast að vinna að á næsta kjörtímabili fáum við til þess umboð kjósenda. Í skólamálastefnu okkar Í-listafólks leggjum við áherslu á að efla og standa vörð um alla leik- og grunnskóla sveitarfélagsins. Skólarnir eru mjög mikilvægur þáttur í hverju bæjarfélagi, þar slær hjarta íbúanna. Allir skólar sveitarfélagsins búa yfir kostum sem ber að hlú að og í hverjum þeirra eru sóknarfæri, ekki síst í fámennari skólum.

Ég mun aldrei verða talsmaður þess að leggja niður lítinn skóla í fámennum byggðakjarna bæjarins til þess að aka nemendum um langan veg svo bæjarfélagið geti sinnt um þá grunnþjónustu sem því ber að veita. Heldur vil ég leita leiða, í samráði við heimafólk, til að styrkja stoðirnar í skólunum og leggja mitt af mörkum til að gera gott enn betra. Það þarf ekki alltaf að kosta miklu til svo þannig megi verða.

Við í Í-listanum leggjum einnig mikla áherslu á að faglegt skólastarf verði ávallt haft í fyrirrúmi. Það er ekki víst að allir kjósendur geri sér grein fyrir því hvað felst í þessum orðum. Sveitarfélögum ber að sjá um rekstur leik- og grunnskóla samkvæmt lögum þar um. Í öllu skólastarfi á þjónustan við nemendur og fjölskyldur þeirra að vera leiðarljósið. Kveðið er á um að skólinn komi til móts við þarfir allra nemenda og viðurkennt er að þær þarfir geta verið mjög fjölbreytilegar. Stjórnendur ásamt bæjaryfirvöldum bera þar sameiginlega ábyrgð og innan skólanna er fjöldinn allur af starfsfólki sem allt hefur það að markmiði að sinna þörfum nemenda. Síðustu ár hefur oft komið upp sá misskilningur að skólastarf snúist um starfsfólkið. Þegar stjórnendur meta þörf fyrir starfsmenn til að sinna hinum ýmsu störfum hefur ekki alltaf verið hlustað á þá og þeim fremur gert að skera niður í starfsmannahaldi. Þegar slík skólastefna er rekin í bæjarfélagi eins og Ísafjarðarbæ er hætt við að faglegu starfi fari hnignandi. Áhugasamur og vel menntaður kennari gerir ekkert einn og sér ef hann hefur ekki úrræði eða aðstöðu til að sinna faglegum skyldum sínum. Skóli er stórt samfélag og þar þurfa margar hendur að vinna saman til þess að árangur náist. Of mikill niðurskurður getur unnið gegn upphaflegum markmiðum þannig að vandamál stækka og flóknara verður að leysa þau síðar.

Aðstæður Ísafjarðarbæjar eru þannig að nú er brýnna en oft áður að laða fjölskyldufólk til að setjast hér að og, ekki síður, að halda í það fólk sem hér vill búa áfram. Til þess að það megi verða þarf skólastarf bæjarins að vera framsækið og til fyrirmyndar. Það skiptir mjög miklu máli að skólar njóti stuðnings yfirvalda og íbúanna til að vinna samfélaginu vel með góðu skólastarfi. Niðurskurður á stöðum lykilstarfsmanna eins og stuðningsfulltrúa og skólaliða gerir engum gott. Álagið verður meira á þá sem eftir eru og við slíkar aðstæður er hætt við að gott og reynslumikið starfsfólk gefist upp og leiti annað.

Fögur orð um góða og framsækna skóla eru góð og gild í sjálfu sér en það þarf að vera innistæða fyrir slíkum orðum. Það þarf að búa svo um hnútana að skólastarfið hér sé betra en gengur og gerist annars staðar á landinu. Núverandi meirihluti hefur fengið sín tækifæri en ekki orðið mikið ágengt.

Tökum þátt í að breyta þessu og setjum X við Í, í þágu allra bæjarbúa.

Rannveig Þorvaldsdóttir, skipar 5. sæti Í-listans.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi