Grein

Elías Jónatansson.
Elías Jónatansson.

Elías Jónatansson | 08.05.2006 | 13:26Hámörkun lífeyrisréttinda og aukin áhættudreifing er markmið sameiningar

Stefnt hefur verið að sameiningu Lífeyrissjóðs Bolungarvíkur (LB), við annan lífeyrissjóð, um nokkurt skeið. Stjórn LB setti sér nokkur meginmarkmið sem stefna bæri að með sameiningu. Að auka áhættudreifingu, ná betri ávöxtun til lengri tíma litið og að taka upp aldurstengda ávinnslu réttinda. Aukin áhættudreifing næst með því m.a. að tengjast landfræðilega fjarlægum sjóði sem hefur ólíka samsetningu sjóðfélaga miðað við LB, bæði hvað varðar atvinnugreinar sem sjóðfélagar starfa við og aldurssamsetningu sjóðfélaganna. Stækkun efnahags sjóðsins er mikilvægur þáttur varðandi samtryggingu sjóðfélaganna. Hámörkun lífeyrisréttinda er svo það markmið sem allir lífeyrissjóðir hljóta auðvitað að stefna að.

Sameining LB við tryggingadeild Frjálsa lífeyrissjóðsins (FL) þjónar vel þeim markmiðum sem stjórn LB hefur sett sér.Félagar í FL eru 22 þúsund og hefur fjölgað um 10 þúsund á síðustu þremur árum. Félagar í LB eru hins vegar fjögur þúsund. Þá eru innborgðuð iðgjöld í FL 10 falt meiri en í LB. Ennþá er mjög lítið útstreymi í formi lífeyris úr FL, reyndar minna í krónum talið, en úr LB, þrátt fyrir mikinn stærðarmun á sjóðunum. Ástæðan er mismunandi aldursdreifing sjóðfélaga í sjóðunum tveimur. Staða LB krefst þess að réttindi sjóðfélaga verði færð niður og verður svo gert til að jafnræði sé með sjóðfélögum LB og Frjálsa við sameininguna. Lífeyrisgreiðslur verða þó ekki lækkaðar að sinni þar sem þess er vænst að hagræði vegna sameiningarinnar verði búið að bæta skerðinguna innan fimm ára. Að öðrum kosti hefði skerðing lífeyrisgreiðslna þurft að koma til núna.

Fjárfestingarstefnan lykilatriði ávöxtunar

Ávöxtun sjóðsins er bein afleiðing af fjárfestingarstefnu hans. LB hefur á undanförnum árum verið með fjárfestingarstefnu, sem kalla má áhættufælna. Hún byggist á því að tiltölulega lítil áhætta er tekin í hlutabréfum og er markmiðið samtals 20% í innlendum og erlendum hlutabréfum. Hverfandi líkur eru á að slík fjárfestingarstefna geti leitt til neikvæðrar ávöxtunar. Til samanburðar, þá hefur Frjálsi lífeyrissjóðurinn fjárfestingarstefnu sem hefur að markmiði að vera með 40% í innlendum og erlendum hlutabréfum. Hærra hlutfall hlutabréfa gefur væntingar um hærri ávöxtun til lengri tíma litið. Hins vegar má þá búast við meiri sveiflum í ávöxtun á milli ára. Sjóðfélagasamsetningin hefur mikil áhrif á þá áhættu sem sjóðstjórnin getur leyft sér að taka í fjárfestingarstefnunni. Sjóður með lágan meðalaldur er með mikið innstreymi fjármagns samanborið við útstreymi, þar sem lítill fjöldi sjóðfélaga er farinn að taka við lífeyri. Frjálsi lífeyrissjóðurinn hefur verið með góða ávöxtun á undanförnum árum, eða 15,9% nafnávöxtun undanfarin 3 ár. Hrein eign FL til greiðslu lífeyris eykst verulega við sameininguna eða úr 7,1 milljarði í 10 milljarða sé miðað við síðustu áramót.

Aldurstengd ávinnsla réttinda

Sjóðfélagar í FL ávinna sér aldurstengd réttindi. Þannig vega innborguð iðgjöld yngra fólks mun þyngra í ávinnslu réttinda, en fólks sem farið er að nálgast lífeyristöku, sökum aldurs. Meðfylgjandi línurit sýnir þetta glöggt. En á línuritinu má einnig lesa hvernig ávinnslu er háttað hjá nokkrum öðrum lífeyrissjóðum. Í öllum tilfellum er verið að reikna með að greidd sé inn jafn há upphæð, (samtals framlag launþega og atvinnurekanda, kr. 10.000). Línuritið sýnir hvers virði sú innborgun verður í lífeyrisréttindum á ári, þegar kemur að töku lífeyris. Ekki fer á milli mála að Frjálsi lífeyrissjóðurinn er mjög góður valkostur, í samanburði við aðra lífeyrissjóði, ef litið er til ávinnslu réttinda.Vegna aldurstengingar réttinda, hafa margir lífeyrissjóðir farið þá leið að leyfa „eldri“ sjóðfélögum að halda áfram jafnri ávinnslu réttinda, en það er yfirleitt hagkvæmt fyrir þá sem eru komnir yfir 42 ára aldur. LB gerir þetta með þeim hætti að „eldri“ sjóðfélagar sækja um uppfærslu réttinda, þar sem tekið er tillit til væntanlegrar framtíðarávinnslu réttinda í samanburði við aldurstengda ávinnslu. Útreiknaður mismunur er síðan notaður til að uppfæra réttindi viðkomandi. Eftir það eru allir sjóðfélagar LB, sem nú verða félagar í Frjálsa lífeyrissjóðnum í aldurstengdri ávinnslu. Væri ekki um þessa leiðréttingu að ræða, þá hefði mátt ætla „eldri“ sjóðfélagar bæru skarðan hlut frá borði. Svo er þó alls ekki, samanber framangreinda uppfærslu réttinda þeirra. Hagur yngri sjóðfélaga af aldurstengingu er augljós, sé línuritið skoðað.

Áframhaldandi starfsemi í Bolungarvík

Lífeyrissjóður Bolungarvíkur hefur ætið haft litla yfirbyggingu. Framkvæmdastjóri sjóðsins til margra ára hefur verið Steinunn Annasdóttir og hefur hún gengt því starfi í hlutastarfi. Sparisjóður Bolungarvíkur hefur gert þjónustusamning við Frjálsa lífeyrissjóðinn um þjónustu við sjóðfélaga og mun þjónustu við sjóðfélaga í Bolungarvík, fremur aukast en minnka. Breytingar á rekstrarfyrirkomulagi sjóðsins hafa þannig ekki áhrif í atvinnulegu tilliti.

Það er von stjórnar Lífeyrissjóðs Bolungarvíkur að sameining sjóðsins við Frjálsa lífeyrissjóðinn sé heillaspor í sögu sjóðsins og megi verða til þess að tryggja hag sjóðfélaga Lífeyrissjóðs Bolungarvíkur sem allra best.

Elías Jónatansson, formaður stjórnar Lífeyrissjóðs Bolungarvíkur.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi