Grein

Guðni Geir Jóhannesson | 03.05.2006 | 14:02Breytt atvinnustefna á Vestfjörðum

Miklar breytingar hafa verið á atvinnulífi Íslendinga frá níunda áratugum fram til dagsins í dag. Þróunin hefur verið minnkandi vægi frumframleiðslugreina en samhliða efling atvinnugreina innan þjónustu, þekkingar og stóriðju. Hinar nýju greinar hafa haft betur í samkeppni um vinnuafl. Viðbrögð atvinnugreina eins og sjávarútvegs hefur verið aukin tækniþróun sem síðan leitt til fækkunar starfa. Þetta hefur haft mikil áhrif á Vestfjörðum, sem hafa um aldir byggt efnahagslíf sitt á sjávarútvegi. En það jók á erfiðleikana að samhliða hefur svæðið þurft að glíma við miklar breytingar í aðgengi að auðlindum svæðisins. Annarsvegar vegna takmarkana í sókn í fiskistofna og aflabrest í sumum þeirra s.s. rækju. Hinsvegar breytingar sem urðu af framsali aflaheimilda sem hefur leitt til fækkunar öflugra fyrirtækja. Þar á ofan hafa verið erfiðleikar vegna sveiflna í gengi og vöxtum.

Sjávarútvegur er þó enn mikilvægasta atvinnugrein Vestfjarða, en fyrirtækin sem eru innan greinarinnar eru nú færri og sumpart veikari en á níunda áratugnum. Áhrif þessa á efnahagslífs svæðisins koma fram í minni veltu stoðgreina svo sem þjónustu, flutningum og minnkandi tekjum einstaklinga og sveitarfélaga. Því eru minni fjármunir til staðar til þess að bregðast við þróun atvinnulífs sem lýst er hér að framan. Því hefur það verið val margra íbúa Vestfjarða að flytja sig til annarra landssvæða til að leita nýrra tækifæra. Hafa margir þeirra náð að hasla sér þar völl enda komnir úr umhverfi sem hefur alið upp í þeim frumkvöðlaanda.

Núverandi íbúar Vestfjarða hafa hinsvegar tekið það val að hasla sér völl á Vestfjörðum. Forsenda fyrir því byggir á tvennu, annarsvegar jafnræði með öðrum landshlutum varðandi grunngerð samfélaganna svo sem í samgöngum, aðgengi að fjármagni og menntun. Hinsvegar þróun nýrra atvinnukosta sem geta byggst upp samhliða núverandi atvinnugreinum.

Varðandi grunngerð samfélaganna hefur náðst nokkur árangur á allra síðustu árum í samgöngum og menntun. Á framkvæmdaáætlun í samgönguáætlunar eru nú stærri verkefni til ársins 2009 en sést hafa um langa hríð, en stór verkefni eru þó enn eftir sem áður. Efling á rannsóknum og menntun á framhaldsstigi á sér nú stað innan stofnana í Þróunarsetri Vestfjarða og á vegum Háskólaseturs Vestfjarða og Náttúrustofu Vestfjarða. Hér eru því eru að skapast forsendur fyrir eflingu þekkingar og nýsköpunar, þar með bættum rekstri fyrirtækjanna. Það styður einnig þennan þátt árangur iðnfyrirtækja líkt og 3 X stál ehf, sem er handhafi Útflutningsverðlauna 2006 og fyrrum Póls ehf sem nú er í eigu annars slíks verðlaunahafa, Marel hf . Efling rannsókna í veiðum og eldi á þorski í forsjá starfstöðvar Hafró og Rf á Ísafirði er annar þáttur sem ber að nefna í þessu samhengi. Á þessum þáttum er einnig tekið innan Vaxtarsamnings Vestfjarða þar sem lögð er áhersla á klasa innan sjávarútvegs, ferðaþjónustu og menningar og menntun og rannsóknum.

Efling núverandi atvinnulífs er hinsvegar langtímaverkefni og byggir á auðlindum sem svæðið ræður yfir í dag. Spáð er áfram hægri fækkun starf í frumframleiðslu en eftir standa verðmætari störf. Nýir atvinnukostir eru því nauðsynlegir og leit að nýjum auðlindum sem svæðið gæti byggt sig upp á hefur verið erfið. Önnur landssvæði sem hafa verið í svipaðri stöðu hafa mörg hver sett markið á eflingu atvinnulífs með stórum iðjuverum, samhliða virkjun. Umræða síðustu missera er hinsvegar að beina sjónum manna á að slík stór inngrip í atvinnulíf af þessu tagi geti verið tvíeggja sverð, til lengri tíma litið. Hafa aðilar svo sem Landvernd og samstarfshópur er stóð að ráðstefnunni “Orkulindin Ísland. Náttúran, mannauður, menning og hugvit” þann 10 mars s.l., vakið athygli á þessari skoðun.

Fjórðungssamband Vestfirðinga er sameiginlegur vettvangur sveitarfélaga á Vestfjörðum og heldur árlega þing sem tekur á málefnum sveitarfélaganna. Eitt af hlutverkum þess er að vakta þróun atvinnulífs og benda á nýjar leiðir í þeim efnum. Fyrir liggur samþykkt frá Fjórðungsþing Vestfirðinga árið 2003, þar sem það mat var sett fram, að mikilvæg sóknartækifæri væru fólgin í því fyrir Vestfirði, að sveitarfélög á Vestfjörðum ynnu sérstakt skipulag eða framtíðarsýn fyrir landshlutann. Slíkt skipulag myndi byggja á hugmyndafræði um sjálfbæra þróun og nýtingu landshlutans með þeim hætti að eftir verði tekið á landsvísu og á alþjóðlegum vettvangi. Ekki væri hér átt við lögformlegt svæðisskipulag heldur fremur sameiginlega sýn sveitarfélaganna.

Fjórðungssambandið hefur haft þessa ályktun til skoðunar og reynt að finna samnefnara með sjálfbærri þróun og fjárfestingu og þar með fjölgun atvinnutækifæra. Var að hálfu þess varpað fram á árinu 2004, hvort vinna ætti að greiningu stóriðnaðarkosta fyrir Vestfirði, enda hefðu stjórnvöld stutt dyggilega við rannsóknir varðandi stóriðju í öðrum hluta landsins. Hafði sambandið þar í huga starfsemi Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum sem framleiðir lífrænt vottaða vöru og væntanleg verksmiðju á Bíldudal sem mun framleiða á efni úr kalkþörungasetlögum úr Arnarfriði. Þessi fyrirtæki eru í sjálfu sér ígildi stóriðju sínu atvinnusvæði en lítil á landsvísu. Á Fjórðungsþingum 2004 og 2005 var rædd atvinnustefna á Vestfjörðum á grundvelli menntunar, rannsókna og framtíðarsýn ungs fólks. Á grundvelli þessarar umræðu og umræðu síðustu missera, er það mat Fjórðungssambands Vestfirðinga að láta aðra landshluta um eflingu stóriðju en treysta fremur á að auðlindir náttúru og mannauðs.

Því vakti athygli sambandsins starf starfshóps sem stóð að ráðsstefnunni Orkulindin Ísland í mars s.l.. Fjórðungssamband Vestfirðinga hefur því leitað eftir hugsanlegu samstarfi við starfshópinn varðandi greiningu nýrra tækifæra til eflingar atvinnulíf svæðisins. Haft verður að leiðarljósi að hagsmunir núverandi samfélags og atvinnulífs fari saman með nýjum atvinnutækifærum sem byggja á sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda Vestfjarða og þekkingu sem er til staðar á svæðinu. Að lokinni þeirri vinnu er þess vænst að sveitarfélögin á Vestfjörðum geti hvert og eitt tekið afstöðu til þróunar atvinnulífs og hugsanlegra breytinga á svæðaskipulagi.

Sýningin Perlan Vestfirðir verður haldinn þann 6. til 7. maí n.k, í Reykjavík á vegum Markaðsstofu Vestfjarða og Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða, þar verður íbúum landsins boðið til að kynna sér atvinnulíf, menningu og samfélag á Vestfjörðum og ræða hugmyndir Vestfirðinga um framtíðar uppbyggingu samfélaga. Það var því mat Fjórðungssambands Vestfirðinga að vel fari saman að boða til málþings í tengslum við sýninguna, þar sem þessi sjónarmið um breytta atvinnustefnu verða tekin til umræðu. Málþingið verður haldið þann 6. maí og hefst kl 10.00 á Hótel Loftleiðum.

Guðni Geir Jóhannsson, stjórnarformaður Fjórðungssambands Vestfirðinga
Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi