Grein

Sigurjón Þórðarson
Sigurjón Þórðarson

Sigurjón Þórðarson | 02.05.2006 | 13:39Flugvöllinn kyrran

Það sem ég ætla að gera að umtalsefni hér er flugvöllurinn í Vatnsmýrinni en Exbé í höfuðborginni hefur kynnt fráleita hugmynd um flutning flugvallarins út í sjó. Þar á bæ hafa menn eytt gríðarlegum fjármunum í að auglýsa þessa vitleysu sína eins og þeirra er von og vísa en minna hefur farið fyrir einhverjum haldbærum rökum enda virðist endanlega verið búið að blása þessa auglýsingabrellu út af borðinu.

Frjálslyndi flokkurinn hefur lagt áherslu á að flugvöllurinn verði áfram þar sem hann er. Erfitt er að sjá hvaða kostir eru aðrir í stöðunni, ef Vatnsmýrarvöllurinn fer. Flugvöllur í Kapelluhrauni sunnan Hafnarfjarðar þótti lítt fýsilegur vegna sviptivinda sem vænta mátti vegna nálægðar fjallanna. Einnig hefur verið bent á flugvöll uppi á heiðum, þ.e. á Sandskeiði eða Miðdalsheiði en þegar komið er upp í nokkra hæð yfir sjávarmáli blasir við vandamál sem felst í þoku. Oft er lág skýjahæð í nágrenni Reykjavíkur og veldur því að flugvöllur uppi á heiðunum myndi nýtast illa. Auk þess veldur hæðin því að hætta eykst á ísingu og hálku.

Seint er nú í rassinn gripið hvað varðar Álftanes því að þar hefði líklega verið langbest að byggja flugvöllinn áður en byggðin fór að rísa þar. Líkast til hafa menn heykst á þessu á sínum tíma vegna ónæðis fyrir forsetann! Komið hafa fram fullyrðingar í þá veru að ein braut dugi fyrir Reykvíkinga. Úr því að á landsbyggðinni séu víða dæmi um að ein braut nægi ætti það sama að gilda í Reykjavík. Bent hefur verið á að á Akureyri sé ein braut sem vísar eðlilega samsíða fjöllunum sem liggja henni hvort til sinnar handar en þessi fjöll, og í raun lega fjarðarins, gera það að verkum að vindurinn stýrist í tvær áttir hvað sem líður vindátt yfir landinu, annað hvort í norður eða suður, landátt eða hafátt. Aðrar vindstefnur er vart um að ræða. Áður en að við í Frjálslynda flokknum mótuðum stefnu okkar kynntum við okkur rækilega að allt aðrar aðstæður eru hér fyrir sunnan. Á Faxaflóasvæðinu er ríkjandi vindátt hreinlega allan kompáshringinn, og hún af öllum vindstyrk. Þar veitir því ekki af tveimur flugbrautum. Það verður að tala um hlutina eins og þeir eru. Ef hætt verður að nota Reykjavíkurflugvöll flyst flugið til Keflavíkur. Það að tala eins og Samfylkingin og VG og Sjálfstæðisflokkurinn um einhvern annan kost einhvers staðar er óraunhæft og eini tilgangurinn virðist vera sá að kasta ryki í augu kjósenda. Fyrir utan allt óhagræðið sem flutningur á flugvellinum alla leið til Keflavíkur myndi leiða af sér fyrir almenna flugfarþega innanlands ylli það örugglega stórkostlegum samdrætti í innanlandsflugi.

Færsla flugvallarins út úr borginni og alla leið til Keflavíkur mun valda stórskertu öryggi fyrir landsbyggðina hvað varðar aðgengi að stærstu og best búnu sjúkrahúsum okkar sem öll eru í Reykjavík. Frá Keflavíkurflugvelli er 40 mínútna akstur til Reykjavíkur, og miðast það við bestu skilyrði. Allur þessi aksturstími með bráðveikan eða slasaðan sjúkling bætist síðan við aukinn flugtíma, sem getur numið allt að 10 mínútum ef flugið er að norðan eða frá Vestmanneyjum, miðað við lendingu í Reykjavík.
Óhætt mun því að segja að lenging sjúkraflutningstímans sé um 50 mínútur sé farið um Keflavíkurflugvöll í stað Reykjavíkurflugvallar - og er þá miðað við bestu akstursskilyrði á leiðinni til Reykjavíkur. "Það sér hver maður" hvers lags storkun þessi ráðstöfun yrði við líf og heilsu þeirra sem þurfa í skyndi að komast utan af landsbyggðinni og til aðhlynningar á bráðadeildum sjúkrahúsanna í Reykjavík. Hér er rétt að geta þess að skilgreind bráðatilfelli í sjúkraflugsútköllum eru í um 50% hlutfalli þeirra, gróft áætlað. Varpað hefur verið fram þeirri hugmynd að þyrlur gætu nýst til að flýta fyrir flutningi sjúklingsins milli Keflavíkur og Reykjavíkur í alvarlegustu tilfellunum. Það þarf að skoða hlutina í samhengi, ef það á að reisa nýtt sjúkrahús í Vatnsmýrinni í framtíðinni er óásættanlegt að lenda með sjúklinga í Keflavík. Fleiri veigamikil rök hafa komið fram í umræðunni.

Rifja má upp að Reykjavíkurflugvöllur er varavöllur fyrir Keflavík og brotthvarf hans veldur því að áhafnir flugvéla á leið til Keflavíkur verða að taka eldsneyti sem duga myndi þeim til fjarlægari varavallar og það veldur auknum kostnaði. Það kostar eldsneyti að bera eldsneyti. Það er óðs manns æði að leggja niður innanlandsflugvöllinn í Vatnsmýrinni og við í Frjálslynda flokknum munum berjast einarðlega gegn því.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi