Grein

Gísli Halldór Halldórsson.
Gísli Halldór Halldórsson.

Gísli H. Halldórsson | 27.04.2006 | 16:59Samgönguleiðir, æðakerfi þjóðfélaga

Við sjálfstæðisfólk í Ísafjarðarbæ viljum að Vestfirðir verði efldir sem atvinnu- og búsetusvæði með tryggari og greiðari samgöngum milli þéttbýlisstaða í fjórðungnum. Við munum berjast fyrir því. Gott vegakerfi er þjóðfélögum sem æðakerfi og heldur þeim lifandi, þetta hefur mannkynssagan sýnt okkur aftur og aftur.

Á hringveginn á bundnu slitlagi!

Lengi máttum við Vestfirðingar vera afgangsstærð í samgöngumálum þjóðarinnar. Þegar framleiðsla sjávarafurða á Vestfjörðum var um 30% af vöruútflutningi þjóðarinnar þá voru hér að vísu reglulegar skipaferðir, en ekki var verið að æsa sig of mikið í vegamálunum. Hægt og bítandi hefur þó verið tekið á þessu og hillir nú loks undir að við getum ekið alla leið inn á hringveginn á bundnu slitlagi. Að mínu mati hefur Sturla Böðvarsson samgönguráðherra staðið sig mjög vel í þessum efnum þrátt fyrir skilningsleysi sem fram hefur komið hjá öðrum stjórnmálamönnum. Nú hefur verið gert nokkuð átak í vegamálum á Vestfjörðum og stendur til að gera meira, en það er enn langt í land varðandi samgöngur innan fjórðungsins.

Góðir vegir fyrir alla Íslendinga

Það er hagsmunamál hvers einasta Íslendings að góðir vegir verði lagðir um landið allt og það gert að sterkari heild. Það er auðvitað ekkert skrýtið þó fáir búi á stöðum þar sem ekki verður komist nema með herkjum og hugsanlega í talsverðri lífshættu. Metnaður okkar á að standa til þess að allt landið sé í blómlegri byggð og góðar samgönguleiðir stórauka búsetumöguleikana hvarvetna.

Gísli H. Halldórsson,
skipar 3. sæti á lista sjálfstæðismanna í sveitarstjórnarkosningunum í vor.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi