Grein

Ingólfur Þorleifsson.
Ingólfur Þorleifsson.

Ingólfur H. Þorleifsson | 25.04.2006 | 15:37Í aðdraganda kosninga

Nú þegar líður að kosningum fer fólk sem ekki hefur gert upp hug sinn að spá í hvað það á að kjósa. Fyrir fólk sem ekki hefur verið að hugsa mikið um málefni bæjarins okkar getur verið að valið verði erfitt, en aðrir sem hafa fylgst með málum á síðustu árum eru ekki í neinum vafa. Í átta ár hafa sjálfstæðismenn verið í meirihluta í Ísafjarðarbæ undir forystu Halldórs Halldórssonar og þrátt fyrir að erfiðar aðstæður í sveitarfélaginu og fækkun fólks hafi haft áhrif á gang mála, þá er óumdeilanlegt að á mörgum sviðum hefur orðið mikil breyting til hins betra.

Bæjarfélagið okkar er vel samkeppnisfært við önnur bæjarfélög af sömu stærðargráðu hvað varðar aðbúnað fjölskyldunnar. Hér eru mjög öflugir skólar allt frá leikskóla, til háskólaseturs. Öll aðstaða til íþrótta og tómstunda eins og best verður á kosið og fólk getur valið úr fjölda greina til að stunda.

Allir á Ísafirði vilja fá nýja sundlaug og vissulega margt sem styður þær kröfur og ekki spurning um að það er mál sem verður að skoða vel. Fólk þarf þó að gera sér grein fyrir því að svona laug eins og flesta dreymir um kostar á bilinu 400-700 milljónir, og það eru gríðarlega miklir peningar í okkar bæjarfélagi. Vandséð er við fyrstu skoðun hvar á að taka þá peninga annarstaðar en að láni og ekki er það vænlegt nú um stundir.

Ásýnd bæjarins hefur breyst mikið á undanförnum árum og eignir og svæði hafa verið tekin í gegn og ólíkt skemmtilegra að aka um bæjarfélagið nú en fyrir 10 árum þegar öðruvísi var umhorfs þó að vissulega megi alltaf gera betur.

Mikil ásókn er í byggingalóðir á Tunguskeiði og augljóst að fólk vill byggja sér ný hús til að vera hér áfram, og þeir sem hér búa virðast hafa nóg að gera því atvinnuleysi er hvergi minna á landinu.

Það öfluga fólk sem leitt hefur starfið í bæjarstjórnarflokki okkar sjálfstæðismanna er áfram til staðar, og við hafa bæst fjölhæfir liðsmenn með víðtæka reynslu af hinum ýmsu sviðum atvinnulífsins, þannig að sjálfstæðismenn setja stefnuna á að vinna áfram að hag allra bæjarbúa á næsta kjörtímabili og halda áfram að byggja Ísafjarðarbæ upp sem öflugan höfuðstað Vestfjarða.

Það er ekki nokkur vafi að ef fólk skoðar hvað gert hefur verið síðustu átta ár undir forystu sjálfstæðismanna, þá verður ekki vandamál hvað á að kjósa 27. maí næstkomandi.

Ingólfur H. Þorleifsson


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi