Grein

Gunnbjörn Óli Jóhannsson.
Gunnbjörn Óli Jóhannsson.
Svona leysa Norðmenn málið.
Svona leysa Norðmenn málið.

Gunnbjörn Óli Jóhannsson | 23.04.2006 | 12:26Hvers virði eru bættar samgöngur og hverju má fórna fyrir þær?

Undanfarið hefur verið skrifað um væntanlegt vegarstæði frá Bjarkarlundi að Flókalundi. Flestir (nær allir) eru á þeirri skoðun að þvera firðina (Þorskafjörð, Djúpafjörð og Gufufjörð) og koma veginum á suðurfirðina niður á láglendi. Það á að velja vegtæknilegustu og bestu leiðina; færa til framtíðar. Við erum að byggja til næstu 25 – 50 ára miða við vegagerð undanfarinnar ára. Með því að þvera Þorskafjörð strax, fæst hagræðing á flutningi efnis í vegstæðið við Teigsskóg í Hallsteinsnes svo sem minnst umrót verði. Og síðan brúa yfir Djúpafjörð og Gufufjörð í Melanes. Það skiptir suðurfirðina mjög miklu máli að vegurinn sé settur niður á láglendi sökum flutninga á fiski til útflutnings eða á markað. Þá er ekki spurt um færð heldur verður að fara með farminn.

Krafan er bara sú að kaupandi ræður, annars er engin sala. Blómstrandi byggð svari kalli markaðarins. Annars verða aðrir til þess og byggðirnar tapa.Einnig þarf að flytja nauðsynjavörur, mjólk og fl. Það er sótt mjólk á firðina til vinnslu í Búðardal og vörur fluttar þangað til dreifingar á firðina t.d. Patreksfjörð og Bíldudal, svo ekki sé minnst á aukna umferð ferðafólks um þetta svæði. Vegarstæðið verður án vafa eitt hið fegursta á landinu og mikil lyftistöng fyrir ferðamennsku í Dölum og í Reykhólasveit. Við erum löngu komnir af hestakerruöldinni inn á bíla upp á 49 tonn. Hvernig á að vera hægt að halda áætlun með því að fara með þessa farma upp í 16% halla upp þessa hálsa? Það er því lykilatriði að getað mokað þessa vegi á sem skemmstum tíma á veturna og þá þarf vegurinn að vera helst sem snjóléttastur til að mokstur taki ekki heilu og hálfu dagana eða svo vikum skiptir um hálsana, samanber á tímabilinu 1989 til 1995.

Ef vegtæknilegasta leiðin að mati Vegagerðarinnar, leið B, er farin , eru snjómoksturtæki frá Búðardal og Reykhólum komin að Klettshálsi að sunnanverðu á 3 tímum og einnig frá Patreksfirði. Því ætti að vera hægt að opna t.d. leiðina, Reykjavík – Patreksfjörður um kl. 10 á morgnana að því tilskildu að vegurinn um Svínadal (sem er í vinnslu) sé búinn og vegurinn fari yfir firðina.

Hvar eru úrtölumennirnir nú sem ekki vildu Gilsfjarðarbrú, veg um Vatnaleið og veg um Kolgrafafjörð svo dæmi séu tekin? Ég held að þeir séu dauðfegnir að keyra þessa vegi og veit ég hverju vegurinn um Gilsfjörð gjörbreytti. Og nú þegar umræður eru um aukið umferðaröryggi hlýtur það að vera krafa að það öryggi sé sett í fyrirrúm, þökk sé ráðamönnum þjóðarinnar og ætla ég að vona að ráðherrar samgöngu og umhverfismála taki áfram ákvarðanir til framtíðar til sóma fyrir land og þjóð.

Skrifað að Kinnarstöðum í apríl 2006,
Gunnbjörn Óli Jóhannsson.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi