Grein

Halldór Halldórsson.
Halldór Halldórsson.

Halldór Halldórsson | 18.04.2006 | 15:06Vestfirðir eru og eiga að vera stóriðjulaus landshluti

Umhverfissjónarmið móta í vaxandi mæli ákvarðanir varðandi framleiðslu, búsetu og ferðalög fólks. Íslendingar standa þar vel að vígi en Vestfirðingar einstaklega vel með lítt spillta náttúru. Ég hef talað fyrir því að sveitarfélög á Vestfjörðum vinni svæðisskipulag þar sem mengandi stóriðnaði á borð við álver verði hafnað. Sérstaða okkar verði í hreinleikanum, sjávarútveginum, matvælaframleiðslunni, þekkingariðnaði og ferðaþjónustu. Með slíkri stefnu styrkjum við byggð á Vestfjörðum og löðum til okkar íbúa. Fullyrt er að meginstraumar breytinga á 21. öldinni snúi einmitt að umhverfissjónarmiðum, samruna og hnattvæðingu. Þar eigum við að vera framsýn og átta okkur á hvar okkar styrkleiki liggur.

Liðin eru rúm þrjú ár síðan ég setti þessar áherslur fram í viðtali í Morgunblaðinu. Þar kallaði ég eftir samstarfi við náttúruunnendur sem á þeim tíma vildu að hætt yrði við Kárahnjúkavirkjun og í staðinn yrðu jafnmörg störf sköpuð með öðrum hætti. Í viðtalinu sagðist ég vilja skapa þessi störf með aðferðum náttúruverndarsinna á Vestfjörðum.

Í framhaldi af þessum áherslum beitti ég mér fyrir tillöguflutningi á Fjórðungsþingi Vestfirðinga haustið 2003 þar sem samþykkt var að undirbúa vinnu hjá vestfirskum sveitarfélögum við gerð svæðisskipulags þar sem náttúruverndarsjónarmið væru ráðandi. Þetta hefur ekki enn verið gert en samþykktin stendur og bíður framkvæmdar.

Ástæða þess að ég rifja þetta mál upp er sú að oft má lesa og heyra fullyrðingar í fjölmiðlum þess efnis að forystumenn sveitarfélaga, hringinn í kringum landið, kalli eftir stóriðju. Það á ekki við um undirritaðan f.h. Ísafjarðarbæjar. Stefna bæjarstjórnar, undir forystu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem mynda meirihluta, hefur verið sú að virkja hugvitið og þekkinguna sem býr í samfélaginu og hækka menntunarstigið. Í þeim tilgangi höfum við beitt okkur með nokkuð góðum árangri fyrir því að byggja upp rannsóknarstofnanir og háskólamenntun. Þróunarsetur Vestfjarða var opnað árið 1999 en það hýsir þjónustu- og rannsóknarstofnanir og býður upp á nýja samstarfsmöguleika og er aðlaðandi vinnustaður.

Síðasti sýnilegi áfanginn hjá okkur er opnun Háskólaseturs Vestfjarða sem sér um háskólamenntun í fjarnámi og er tengiliður við rannsóknarverkefni og rannsóknarstofnanir. Stefnan er að þróa staðbundið nám við Háskólasetrið og bjóða upp á nám sem byggi á sérstöðu og sérþekkingu svæðisins. Þannig verði það segull fyrir námsfólk annars staðar af landinu sem og erlendis frá. Háskólasetrið er mikilvæg undirstaða þeirrar þekkingarstóriðju sem við getum rekið á okkar forsendum. Sérstaðan hér er hreinleiki, matvælaframleiðsla, smærri iðnaður og þekkingariðnaður sem byggir ofan á þá þekkingu sem við búum yfir og höfum þróað í gegnum tíðina. Hún er eftirsóknarverð og mun skapa okkur ný tækifæri í gegnum Háskólasetrið.
Að mínu mati á ríkisstjórnin að leggja meiri áherslu á að styrkja þetta með okkur en annars staðar á landinu. Þarna liggja okkar tækifæri, við eigum að nýta þau til fulls og ríkisstjórnin á að vinna með okkur að því.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og oddviti D-listans í Ísafjarðarbæ.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi