Grein

Níels A. Ársælsson.
Níels A. Ársælsson.

Níels A. Ársælsson | 07.04.2006 | 10:50Dyr að draumi

Nú berast þau tíðindi að samtök samráðsforstjóra LÍÚ hafi vélað sakleysingja innan Lagadeildar Háskóla Íslands til fylgilags við þráláta drauma sína um einkaeign á fiskveiðiauðlindinni við Ísland. Ekki virðast vera nein takmörk fyrir hugmyndarflugi forstjóranna í hömlulausri leit sinni að dyrum draumalandsins. Sú var tíð er Eyjólfur grái reyndi í einfeldningsskap sínum að fá Auði Vésteinsdóttur konu Gísla Súrsonar í Geirþjórsfirði við Arnarfjörð til að segja til útlagans með því að bera á hana pyngju silfurpeninga. Allir ættu að muna hvernig þeirri viðureign lauk og láta sér að kenningu verða.

Allir vita líka hvað samtökum LÍÚ gengur til með því uppátæki að bera fé á virta stofnun innan Háskóla Íslands. Lagastofnun Háskóla Íslands skyldi láta af auðmýkt sinni og afþakka þá blóðpeninga sem forsbrakkar LÍÚ í einfeldningshætti sínum hafa á hana borið með líkum hætti og Eyjólfur grái reyndi forðum við Auði Vésteinsdóttur. Nær væri að LÍÚ léti umrætt fé rakna til fátæks fólks í sjávarþorpunum sem flest hvert hefur misst aleigu sína og lífsviðurværi vegna fantaskaps, græðgi og skipulagðrar lygastarfsemi forystu LÍÚ.

Í ljósi umræðunnar á Íslandi síðustu misserin þá leyfi ég mér að spyrja hvort fólki fyndist það eðlilegt að Baugur hf. kostaði eitt stöðugildi ransóknarmanns í þrjú ár við efnahagsbrotadeild lögreglunnar. Það leynir sér ekki hvað LÍÚ er að reyna með þessu tiltæki sínu og vísa ég hér með í þrjár setningar sem teknar eru út úr fréttatilkynning að gefnu tilefni og getur hver metið fyrir sig og með sínu nefi.

„Með vönduðum rannsóknum og kynningu þeirra mun Ísland geta skapað sér frekari tækifæri til að festa sig í sessi á alþjóðlegum vettvangi sem leiðandi þjóð á sviði fiskveiða og fiskveiðistjórnunar.“ Tilvitnun lýkur.

„Auk þess sem rannsóknir séu nauðsynlegar til að kynna kerfið betur erlendis og þann árangur sem hlotist hefur af þessu fyrirkomulagi.“ Tilvitnun lýkur.

„Með vönduðum rannsóknum og kynningu þeirra mun Ísland geta skapað sér frekari tækifæri til að festa sig í sessi á alþjóðlegum vettvangi sem leiðandi þjóð á sviði fiskveiða og fiskveiðistjórnunar.“ Tilvitnun lýkur.

Að lokum vil ég minna á dóm Héraðsdóms Reykjavíkur hér neðanmáls sem kveðinn var upp dags 7. febrúar sl. og spyrjum að leikslokum fyrir Hæstarétti Íslands.

Reykjavík 7.2.2006.

„Veiðiheimildir ekki varðar af eignarréttarákvæði stjórnarskrár“

„Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað íslenska ríkið af kröfu smábátaútgerðarmanns, sem taldi að breytingar á lögum, sem gerðar voru á lögum um stjórn fiskveiða árið 2004 og lutu að því að sóknaraflamarkskerfi smábáta var aflagt og krókaaflamarkskerfi tekið upp í staðinn, hefðu valdið honum tjóni og brotið gegn eignarréttarákvæði og jafnréttisreglu stjórnarskrár.

Útgerðarmaðurinn vildi að bótaréttur hans yrði viðurkenndur. Héraðsdómur vísar hins vegar til þess, að í lögum um stjórn fiskveiða, sem sett voru upphafleg árið 1990, segi að úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögunum myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum. Af þessu leiði að veiðiheimildir samkvæmt lögunum séu ekki varðar af ákvæðum 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Útgerðarmaðurinn taldi einnig að reikniregla, sem lögfest var með lagabreytingunni árið 2004, hefði brotið gegn jafnræðisreglu stjórnarskrár. Dómurinn komst hins vegar að þeirri niðurstöðu, að lagaákvæðin væru hvorki ómálefnaleg né andstæð jafnræðisreglunni.“ Tilvitnun lýkur.

Reykjavík 7. apríl 2006.
Virðingarfyllst, Níels A. Ársælsson.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi