Grein

Elvar Bæringsson.
Elvar Bæringsson.

Elvar Bæringsson | 20.03.2006 | 09:14Burt með Funa

Ég get ekki lengur stillt mig um að setja út á þessa logandi öskutunnu sem er inni í Engidal. Mér er alveg sama hvað bæjarstjórinn og hans sérfræðingar segja um hvað reykurinn frá þessu sé lítið mengaður. Það hafa fleiri en ég fundið lykt af brennandi sorpi og óbragð í munni frá þessari sorpeyðingarstöð. En ástæða þess að ég fer að blanda mér í þetta er að í morgun 18. mars 2006 kl. 06:10 fékk ég nóg. Þá fór ég einu sinni sem oftar hjólandi í vinnuna inn á flugvöll.

Þegar ég kom út var þoka með Kirkjubólshlíðinni líkt og spáð hafði verið um vestanvert landið. Þegar ég er kominn að Menntaskólanum sé ég ekki ljósin í firðinum eða á flugvellinum en finn einhverja daufa brunalykt sem ágerðist þegar innar kom í fjörðinn. Þá finn ég að þetta er þessi fína sorpbrennslulykt. Þegar ég var kominn neðan við Grænagarð, var mér efst í huga að snúa við og sækja bílinn, því mér var farið að líða illa í reyknum, en þá sá ég grilla í ljósin innar í firðinum og sá að þokan og reykjarmökkurinn var farin að þynnast svo að ég hélt áfram á hjólinu. Þegar ég kem fyrir Hafrafellshálsinn liggur (reykurinn) þokan lágt yfir Engidalnum þannig að það rétt sást í efsta hluta reykrörsins á Funa og stóð reykjarmökkurinn þar upp úr, þannig að þetta var sannkölluð reykjaþoka.

Þegar ég var kominn að flugstöðinni var mér orðið óglatt og kominn með brjóstsviða. Voru fyrstu mínúturnar þegar inn var komið, faðmlög við klósettskálina þar sem ég kúgaðist um stund. Þessu fylgdi svo höfuðverkur og ógleði næstu tvo tímana. En hvað er maður að röfla yfir þessu, bæjarstjórinn segir mælingar sýna að þetta sé allt í lagi. En í alvöru, er ekki kominn tími til að fjarlægja þennan óþverra úr Engidalnum, öðru eins hefur nú verið eitt í vitleysu í þessu bæjarfélagi. Ísfirðingar og þeir sem hérna hafa verið staddir á þessum góðu dögum hafa fundið þessa sorpbrennslulykt og fengið óbragð í munninn, svo að þetta er ekkert einsdæmi. Viðurkennum að þetta voru mistök með þessa staðsetningu og að við losnum aldrei við þessa mengun. Söfnum undirskriftum.

Burt með sorpbrennsluna úr Skutulsfirðinum.

Elvar Bæringsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi