Grein

Kristján Pálsson.
Kristján Pálsson.

Kristján Pálsson | 14.03.2006 | 14:52Umhverfið okkar að Árvöllum í Hnífsdal

Fyrir 25-30 árum var mikið byggt í Hnífsdal. Gert var nýtt byggingarsvæði á Árvöllum. Byggð voru einnar hæðar raðhús, tveggja hæða raðhús og íbúðarblokkir og 14 einbýlishús. Árið 1985 fóru íbúar að berjast fyrir að starfsemi sorpbrennslunnar á Skarfaskeri yrði hætt vegna mengunar. Jafnframt var barist fyrir því að gert yrði hættumat vegna snjóflóða. Í stuttu máli þá lauk þessu þannig að allar byggingar þarna eru á rauðu svæði, vegna snjóflóðahættu, sem þýðir að gera þarf varnargarð og eða fara í uppkaup á húsunum.

Niðurstaðan varð sú að uppkaup urðu ofan á og við það varð svæðið að Árvöllum eins og opið sár eftir að einbýlishúsin voru fjarðlægð og eftir stendur illa hirt raðhús og blokk, er Ísafjarðarbær telst eigandi að. Við íbúar í Hnífsdal erum annt um okkar umhverfi og gerum allt til að fegra okkar fagra Hnífsdal. Borgarafundir hafa verið haldnir með bæjarfulltrúum og þeim bent á þetta svæði á Árvöllum. Jafnframt var óskað eftir því að svæðið yrði skipulagt og gert snyrtilegt aftur, eftir að sú staðreynd lá fyrir að þar yrði ekki byggð í framtíðinni. Fögur loforð hafa verið gefin en ekkert verið gert að neinu ráði nema setja ýtu í gang í þrjá daga.

Mér skilst að stjórnendur Ísafjarðarbæjar hafi í mörg ár verið að berjast við ríkisvaldið um að það greiði Ísafjarðarbæ upphæð sem nemur skuldum á þessum eignum Ísafjararbæjar á Árvöllum. Fyrir mánuði ákvað ríkisvaldið að greiða Ísafjarðarbæ upphæð, þannig að hægt sé að gera þessi hús veðlaus. Við íbúar höfum horft upp á að brotist hefur verið inn í blokkina og raðhúsin og alls konar fólk gengið þar út og inn. Einnig verðum við var við að lítið eftirlit er með þessum eignum. Ástandið á þessum húsum er orðið slíkt að það kostar stórfé að gera þau íbúðarhæf aftur. Ef það yrði gert, þá er sú kvöð á að þar má ekki búa í sex mánuði á ári vegna snjóflóðahættu.

Á framboðsfundi hjá frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins kom fram að öllum byggðakjörnum yrði gert jafnt undir höfði hvað varðar þjónustu og fegrun umhverfisins. Þar kom fram hjá bæjarstjóra að hann hefði áhuga á að hægt yrði að selja þessar eignir á Árvöllum og það kannað til hlítar.

Ég spyr nú bara: Hverjir eru möguleikarnir á að það hafist upp í kostnað hjá þeim sem myndi kaupa ef Ísafjarðarbær getur ekki haft leigurekstur á þessum húsum. Þá geta aðrir það ekki. Nú eru kosningar í vor og það er því kærkomið tækifæri hjá frambjóðendum að segja okkur í Hnífsdal, hvað þeir vilji gera við þessar byggingar á Árvöllum. Það er ekki hægt að bjóða okkur upp á það lengur að horfa upp á þetta grotna niður og einnig það að ef þetta á að standa uppi þá kostar það að hafa rafmagn og hita á þessum húsum.

Mín tillaga er sú að Ísafjarðarbær úthluti sjálfum sér þessar 700.000.- krónur, sem á að verja til lagfæringar á umhverfinu og auglýsi eftir tillögum þar um. Setji þær í að rífa þessar byggingar og geri umhverfið aftur snyrtilegt. Möguleiki gæti verið að skilja eftir eitt raðhús, sem yrði sem þjónustuhús fyrir tjaldsvæðið. Gerð yrði aðstaða fyrir húsbíla, tjaldvagna og fellihýsi og aðstaða fyrir tjöld. Þarna er rafmagn, vatn og allt til staðar til að gera frábært svæði fyrir ferðafólk. Umsjón með þessu nýju tjaldsvæði yrði tengt rekstri tjaldsvæðisins í Tungudal.

Skarfaskerið

Fyrir ári lét Ísafjarðarbær rífa sorpbrennsluna á Skarfaskeri. Eftir stendur bara steyptur grunnur að hluta og að hluta stór geil ofan í sjálfan brennsluofninn er þar var. Var mokað möl ofan í hann og hefur hún sigið og horfið að hluta. Frágangur hjá bæjaryfirvöldum á þessu er til skammar og við endann á þessum grunni er 10-15 metra fall ofan í fjöru. Þarna hefði frágangur átt að vera þannig að handrið yrði sett í kring og það þannig gert að ekki hljótist hætta af. Þetta er ekki það eina sem hefur verið að hjá okkur í umhverfismálum og stafar það að mínu áliti á að við höfum ekki sinnt þessum málaflokk neitt.

Enginn skilgreining hefur verið á starfi vinnuskóla og garðyrkjustjóra og hafa þau störf í gegnum árin verið unnin með engu skipulagi og bera bæjarhlutirnir það með sér. Til dæmis þetta umhverfi í hjarta Ísafjarðarbæjar í kringum hringtorgið og sjúkrahús stúnið. Ég legg til að Ísafjarðarbær myndi sér umhverfisstefnu og ráði yfirmann í starf umhverfisstjóra á tæknideild og sá hafi eftirlit með því að vinnuskólinn og garðyrkjustjóri vinni eftir skipulagi sem bæjarbúar geta kynnt sér og komið með ábendingar um og fengið svör.

Kristján Pálsson, Bakkavegi 33, Hnífsdal.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi