Grein

Ragnheiður Davíðsdóttir.
Ragnheiður Davíðsdóttir.

Ragnheiður Davíðsdóttir | 03.03.2006 | 23:21Sjaldan launar kálfur ofeldið

,,Sjaldan launar kálfur ofeldið” eru orð sem koma óneitanlega upp í hugann eftir þá atlögu sem gerð hefur verið að Ólínu Þorvarðardóttur, skólameistara Menntaskólans á Ísafirði undanfarin ár sem nú hefur leitt til þess að hún hefur ákveðið að hætta störfum við skólann. Það er sorgleg staðreynd að þetta skuli gerast þegar ljóst er að skólastarf Menntaskólans á Ísafirði hefur aldrei staðið í eins miklum blóma og nú; tæpum fimm árum eftir að hún tók við embætti. Á þessum tíma hefur nemendum fjölgað um meira en helming, brottfall nemenda minnkað til muna, spurst hefur að réttindakennarar hafi sótt að skólanum í stórauknum mæli og starfsmannavelta minnkað svo um munar.

Vert er einnig að minnast þess að sóst var eftir Ólínu til stjórnunarstarfa í MÍ á sínum tíma og var lagt hart að henni að takast á við þetta starf, eftir langvarandi deyfð sem ríkt hafði í skólanum. Hún varð við kallinu og fluttist búferlum með fjölskyldu sína til þess að vinna að uppbyggingarstarfi skólans; full bjartsýni og metnaði með þá von í brjósti að hún myndi hljóta góðar móttökur og stuðning skólayfirvalda og bæjarbúa. Og víst er að nemendur, foreldrar og aðrir bæjarbúar tóku þessum skelegga skólameistara opnum örmum og kunna að meta störf hennar. Það má m.a. sjá af yfirlýsingu foreldrafélags skólans sem birt var í fjölmiðlum fyrir fáum dögum.

En hvað um þá sem sátu á fleti fyrir inni í skólanum þegar hinn nýi skólameistari kom til starfa? Voru þeir samstíga við uppbyggingu skólans? Eða áttu einhverjir þeirra e.t.v hagsmuna að gæta að þvælast fyrir skólameistaranum? Gæti verið að öfund og meinsemi ráði þar för fremur en fagmennska?

Þegar upp koma vandamál sem tengjast fámennum hópi kennara; agavandamál sem geta komið upp á öllum vinnustöðum, er drottningunni umsvifalaust fórnað fyrir peð, eins og komist var svo réttilega að orði í leiðara DV í vikunni. Skólanefnd MÍ (reyndar að stórum hluta sú sama og óskaði eftir liðsinni Ólínu á sínum tíma) virðist ekki líta til þess mikla árangurs sem náðst hefur í skólanum ef marka má hrópandi afskiptaleysi nefndarinnar í því einelti sem skólameistarinn hefur mátt sæta undanfarið ár. Hvar var stuðningur nefndarinnar þegar ofsóknirnar á hendur skólamesitaranum upphófust í fjölmiðlum á síðasta ári? Hvar eru þakkir skólanefndarinnar fyrir árangur skólameistarans nú, þegar hann lætur af störfum? Formaður skólanefndar lætur hafa eftir sér í fjölmiðlum að skólanefnd eigi að vera "augu og eyru ráðuneytisins" í héraði og að nefndin geti ekki aðhafst annað en það sem henni sé uppálagt af ráðuneytinu. Ég hef kannski misskilið eitthvað – en af reglugerð um hlutverk skólanefnda verður ekki annað ráðið en að skólanefnd sé samráðsvettvangur þar sem fulltrúar samfélagsins (hins vestfirska samfélags í þessu tilviki) eiga að gæta hagsmuna skólans og vera málsvarar hans út á við og gagnvart ráðuneytinu.

Þessi ummæli formanns skólanefndar eru einkennileg í ljósi yfirlýsingar skólanefndar frá deginum áður þar sem talað um nauðsyn þess að skapa lýðræðisvettvang fyrir kennara um málefni skólans. Á sama tíma berast spurnir af því skólanefndin haldi fund með 13 kennurum sem nefndin velur úr 30 kennara hópi til þess að ráða ráðum sínum án vitneskju annarra starsfmanna skólans. Stjórnendum skólans virðist ekki hafa verið kunnugt um þennan fund, því ekki sátu þeir fundinn. Engu að síður sendir skólanefndin frá sér yfirlýsingu þar sem hafðar eru uppi fullyrðingar um sáttavilja “kennara almennt”. Varla þarf að taka fram að ekki eru allir kennarar MÍ sáttir við lyktir mála í MÍ því nú þegar hafa tveir af þremur af stjórnendum skólans sagt starfi sínu lausu og í loftinu liggur að fleiri muni fylgja í kjölfarið.

Ef marka má upphaf þessa máls, þ.e. handvömm eins kennara og réttmæta áminningu í kjölfarið, virðist sem skólanefnd sé reiðubúin að fórna miklum hagsmunum fyrir litla. Í þeirri múgæsingu sem einkennt hefur alla umræðu um þessar deilur vill gleymast hvað kom deilunum af stað. Kennari verður uppvís að því að hafa rangt við á prófi og hlýtur áminningu fyrir. Málið fer fyrir Héraðsdóm Vestfjarða og dómari leggur til að sættir náist með því að kennari biðjist afsökunar á yfirsjóninni og skólameistari dragi áminninguna til baka. Skólameistari sýnir sáttavilja og fellst á þetta. Nokkru síðar eru aftur gerðar alvarlegar athugasemdir við prófúrlausnir sama kennara, eftir að menntamálaraðuneytið hafði hlutast til um að hlutlaus aðili færi yrir prófin. Það má því ljóst vera að nefndur kennari hefur brotið af sér í starfi - ekki bara einu sinni - heldur tvisvar og í fyrra skiptið játað brot sitt með afsökunarbeiðni sinni.

Þegar horft er á málið í samhengi og af sanngirni stendur þetta eftir: Óskað var sérstaklega eftir liðsinni Ólínu í starf skólameistara. Hún tókst á við krefjandi verkefni og hefur skilað frábæru starfi. Um það er ekki deilt. Í tíð hennar hefur skólinn vaxið og dafnað sem aldrei fyrr. Skólanefnd MÍ virðist ekki vera hlutlaus í afstöðu sinni, þrátt fyrir lýðræðislegt hlutverk sitt. Hæfir og vel menntaðir réttindakennarar neyðast til að segja upp starfi sínu og í kjölfarið flytjast á brott úr bæjarfélaginu. Það er vissulega umhugsunarefni hvernig ísfirsk skólayfirvöld og ráðherra menntamála leggja mat sitt á hæfni einstaklinga og hagsmuni svæðisins. Hvernig gat annað eins og þetta gerst? Hvað varð um metnað Ísfirðinga í menntamálum? Spyr sú sem ekki veit.

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir. Höfundur á ættir að rekja til Vestfjarða.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi