Grein

Úlfar Ágústsson.
Úlfar Ágústsson.

Úlfar Ágústsson | 15.02.2006 | 11:51Kveðjubréf

Góðir sjálfstæðismenn í Ísafjarðarbæ. Til hamingju með stórglæsilegt prófkjör og það frambærilega fólk, sem þið hafið kosið ykkur til forystu næstu fjögur árin. Eftir að hafa farið yfir úrslit prófkjörsins, þá sé ég að skoðanir mínar eiga ekki upp á pallborðið hjá ykkur. Við því er ekkert að gera, þið hafið kosið ykkar framtíðarstefnu og hafnað minni. Að fenginni þessari niðurstöðu hef ég ákveðið að láta af öllum afskiptum af pólitík og öðru hér í bænum til þess að trufla ekki frekar en orðið er bjartsýni ykkar og framtíðardrauma.

Jafnframt vil ég þakka þeim kærlega sem veittu mér brautargengi. Ég átti ekki eitt einasta símtal né bankaði á neinar einustu dyr til að biðja fólk að kjósa mig. Þeir sem greiddu mér atkvæði á laugardaginn voru einfaldlega að kjósa sér aðra framtíðarsýn en þá sem við blasir. Vonandi höfum við samt sáð einhverjum fræjum, sem geta orðið að fallegum blómum í stórum og öflugum bæ, þeim bæ sem til verður við sameiningu allra sveitarfélaga á Vestfjörðum í eitt, eins og forystumenn ykkar stefna afdráttarlaust að.

Ég kveð Ísafjörð sannarlega með söknuði og vona að hann blómgist í hinum væntanlega Vestfjarðabæ.

Úlfar Ágústsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi