Grein

Jón Fanndal Þórðarson.
Jón Fanndal Þórðarson.

Jón Fanndal Þórðarson | 09.02.2006 | 11:26Tekjur sveitarfélaganna af fasteignaskatti eru ærið misjafnar

Í frétt á BB vefnum frá 2. febr. s.l. undir fyrirsögninni „Álagður fasteignaskattur á hvern íbúa í Ísafjarðarbæ undir landsmeðaltali“ kemur fram að álagður fasteignaskattur á hvern íbúa í Ísafjarðarbæ er kr. 27.055 en í Reykjavík kr. 57.611 og í Grímsnes- og Grafningshreppi kr. 352.448. Hvernig má þetta vera þar sem íbúar Ísafjarðarbæjar og fleiri sveitarfélaga á landsbyggðinni eru bæði sárir og reiðir yfir háum fasteignagjöldum og bera sig jafnan við Reykjavík þar sem álagningaprósentan er mun lægri en hér.

Umrædd fyrirsögn er að vísu rétt og allar þær tölur sem fram koma í fréttinni munu einnig vera réttar en fyrirsögnin er ákaflega villandi og gefur ekki rétta mynd af innihaldinu nema fram komi við hvað er átt. Fyrirsögnin hefði mátt hljóða einhvernveginn á þennan veg: Tekjur af fasteignagjöldum á hvern íbúa í Reykjavík eru helmingi meiri en tekjur Ísafjarðarbæjar af sömu gjöldum á hvern íbúa.Á flestu er skýring og einnig þessu.

Í Grímsnes- og Grafningshreppi sem trónir á toppnum í þessum samanburði með tekjur upp á 352.448 kr. á hvern íbúa eru 350 skráðir með lögheimili en þar eru þúsundir sumarbústaða sem flestir eru í eigu Reykvíkinga og þeir borga fasteignagjöld af. Mér reiknast svo til að tekjur af fasteignagjöldum sem deilist á þessa 300 íbúa séu 123 miljónir. Þetta segir ekkert um það hvað hver íbúi eða fasteignaeigandi í hreppnum borgar.

Í Reykjavík eru öll stærstu fyrirtæki og stofnanir landsins og greiða fasteignagjöld. Samkvæmt þeirri úttekt sem ég er að fjalla um kemur í ljós, að um helmingur þeirra fasteignagjalda sem renna í borgarsjóð Reykjavíkur kemur frá fyrirtækjum og stofnunum. Þetta skýrir það að Reykvíkingar fá helmingi hærri upphæð í kassann miðað við hvern íbúa heldur en Ísafjarðarbær af sínum þegnum.

Álagningaprósentan í Ísafjarðarbæ er 0,43% á meðan hún er aðeins 0,32% í Reykjavík. Almennt á landsbyggðinni er álagningaprósentan svipuð og í Ísafjarðarbæ og hann sker sig ekkert sérstaklega úr hvað það snertir. Hæst er prósentan í Reykhólahreppi og Vesturbyggð 0,5% Hvað þíðir nú þessi mismunur í krónum talið. Ef við miðum við húsnæði sem er í fasteignamati 10 milljónir, þá borgar Reykvíkingurinn 32.000 krónur, Ísfirðingurinn 43.000 og Vesturbyggðaríbúinn 50.000. Ef við förum upp í eign sem er 15 milljónir í fasteignamati þá borgar Reykvíkingurinn 48.000, Ísfirðingurinn 64.500 en þeir í Vesturbyggð kr.75.000. Þessi mismunun er óþolandi eins og svo margt annað hvað landsbyggðina varðar og er ekki að undra þó fólk sé reitt yfir slíku. Þessu verður að linna það eru takmörk fyrir því hvað fólk lætur bjóða sér.

Fjármálastjóri bæjarins teljur ekki ráðlegt að lækka fasteignagjöld, þar sem slíkt myndi auka á tekjuvanda sveitarfélagsins. Þetta kemur engum á óvart sem kynnt hefur sér fjárhag sveitarfélagsins. Hér virðist gilda að selja allt sem hægt er að selja og nýta alla tekjumöguleika til fulls, en það má ekki blóðmjólka beljuna. En dugar það? Ef við værum á landsmeðaltali í tekjum af fasteignagjöldum, en þar munar kr.19.207 okkur í óhag, myndi það muna sveitarfélagið um 80 miljónir á ári. Þetta sannar okkur hversu mikilvægt það er að öflug fyrirtæki séu í bænum. Þau sveitarfélög sem hæstar tekjurnar hafa af fasteignagjöldum eru þau sem flest hafa fyrirtækin, stofnanirnar, sumarbústaðina og annað í þeim dúr. Með eflingu þessara þátta mætti lækka fasteignagjöld á hinum almenna húseiganda í bænum, einnig væri athugandi að létta yfirbygginguna, undirstöðurnar eru of veikar til að þola þann þunga sem á þeim hvílir.

Það eina sem getur bjargað fjárhag þessa sveitarfélags og annarra sveitarfélaga í sömu aðstöðu er fleiri fyrirtæki í bæinn og fleiri störf og það margfalt fleiri. Ef það tekst þá kemur hitt allt af sjálfu sér.

8. febrúar 2006, Jón Fanndal.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi