Grein

Fylkir Ágústsson.
Fylkir Ágústsson.

Fylkir Ágústsson | 31.01.2006 | 11:42,,Palli var einn í heiminum“

Stjórnarformaður Vesturferða ehf., fer mikinn í grein sinni í BB 25. janúar sl. Á æskuárum mínum las ég söguna um Palla sem var einn í heiminum, eins og langflestir Íslendingar. Palli flakkaði aleinn um bæinn sinn og vaknaði síðan af draumi sínum, innan um fólk. Það mætti ætla að slíkt hafi einnig komið fyrir stjórnarformanninn. Það sama má segja um Vesturferðir ehf, því á liðnum tveimur árum hafa auglýsingar þeirra og öll kynning, bæði erlendis og innanlands, verið á þann hátt að auglýsa sig sem ,,einu ferðaskrifstofuna á Vestfjörðum”.

Mér er ekki alveg ljóst hvers vegna þessar rangfærslur eru tilkomnar en sem ferðaskrifstofurekandi hér á Ísafirði með fullt leyfi eins og Vesturferðir ehf, finnst mér þetta bæði rangt og villandi. Á þessum tveimur árum hef ég orðið fyrir smávægilegum óþægindum vegna þessa, bæði frá innlendum og erlendum ferðamönnum. Ferðafólki sem fengið hefur rangar upplýsingar frá Vesturferðum og Upplýsingarskrifstofu ferðamála á Vestfjörðum - sem í raun er eitt og sama fyrirtækið. Upplýsingar sem fyrirtækið hafði, eins og ég, og þess utan hafði fengið umtalsverða styrki frá opinberum aðilum til að veita ferðafólki, en taldi sér af einhverjum ástæðum ekki skylt að veita þær.

Síðar í grein stjórnarformanns segir hún: ,,Því verður að teljast afskaplega undarleg sú rógsherferð sem önnur ferðaskrifstofa á Vestfjörðum hefur farið upp á síðkastið. Enn ankanalegri verður hún þegar litið er til þess að téð ferðaskrifstofa stendur eingöngu í því að senda Íslendinga til Danmerkur, nokkuð sem Vesturferðir hafa fyrir löngu hætt og hafa engan áhuga á.“

Ég gerði athugasemd til Samkeppnisstofnunar og Neytendastofu um að fyrirtækið Vesturferðir ehf fengi styrki frá opinberum aðilum, Ísafjarðarbæ og Ferðamálaráði, til að auglýsa þá þjónustu sem fyrirtækið væri þegar með í boði - og að fyrirtækið auglýsti sig sem ,,eina ferðaskrifstofan á Vestfjörðum”. Samkvæmt grein stjórnarformannsins fengu Vesturferðir kr. 2.000.000 á sl. ári til að kynna ferðaþjónustu á Vestfjörðum (þ.e. vöru sem umrætt fyrirtæki selur) en síðar kemur fram að Vesturferðir njóti ekki ríkisstyrkja. Þetta heitir víst að fara í hring eða e.t.v. var styrkleysið í draumi Palla og styrkurinn í raunveruleikanum. Varla var styrkur þessi greiddur til Vesturferða svo að fyrirtækið gæti ráðið starfsmenn sem síðan settu á fót eigið fyrirtæki til að keppa um ferðamenn við þá sem þeim var ætlað að þjóna eins og gert var.

Samkeppnisstofnun mun enn vera að skoða málið með styrkina og þá niðurgreiðslu kostnaðar fyrirtækisins sem það hefur í för með sér, en Neytendastofa tók strax á málinu og eftir nokkrar tilraunir til undankomu að hálfu Vesturferða ehf - þá breyttu þeir loksins hluta af þessum fullyrðingum á heimasíðu sinni og málinu lauk með bréfi Neytendastofu hinn 20. jan. s.l.

Þetta mál var á engan hátt gert opinbert heldur unnið að málinu eftir eðlilegum leiðum og því furðulegt að kalla málið ,,rógsherferð”. Eitt umkvörtunarefni mitt var kynning á Vesturferðum ehf í ferðablaði BB – Vestfirðir 2005, en þar hefst greinin á ,,Vesturferðir eru eina ferðaskrifstofan á Vestfjörðum” og í svari sínu til Neytendastofa segja þeir í bréfi dags. 17. nóv. s.l. ,,Vesturferðir ehf geta ekki og munu ekki svara fyrir hvað einstakir fjölmiðlar velja að prenta á sínar síður.” Með öðrum orðum er þetta allt á ábyrgð blaðsins BB og ætti þeim hér með að gefast tækifæri á að svara þessu, hvort greinin er öll eða að hluta skálduð af þeim eða hitt að hún sé öll eða af hluta komin frá Vesturferðum.

Annað í þessari grein stjórnarformannsins vakti hins vegar nokkra athygli , þ.e. að ferðaskrifstofa mín standi í því að ,,senda fólk til Danmerkur” og að ,,Vesturferðir hafi fyrir löngu hætt og hafi engan áhuga á.” Þessi hugsunarháttur má vera til innan Vesturferða, þ.e. að senda fólk eitthvað sem það jafnvel vill ekki fara, en ég sendi ekki fólk til Danmerkur – heldur fara viðskiptavinir mínir þangað (og um alla Evrópu) samkvæmt eigin ákvörðun. Hitt er síðan ágætt að vita að þeir hafi ekki áhuga á að bjóða fólki upp á Danmerkurferðir - þeir mættu gjarnan auglýsa það sérstaklega og benda á þá mína þjónustu.

Mjög miklar breytingar hafa orðið á þjónustu við ferðamenn á s.l. 5 árum, þar hefur tilkoma internetsins haft mest áhrif. Ég rek mína ferðaskrifstofu www.fylkir.is aðallega á netinu þar sem viðskiptavinir sækja upplýsingar, panta sumarhús, bíla eða aðra þjónustu eða fá aðstoð mína við slíkt. Ég tel að ég sé bestur í Danmörku.

Ferðaþjónustan hér á Vestfjörðum hefur hins vegar ekki tileinkað sér internetið í nægilega miklu mæli til samskipta við erlenda sem innlenda viðskiptamenn. Það hefur komið fram í könnunum að 60-70% erlendra ferðamanna sæki upplýsingar á netið, og að 6% hafi sótt upplýsingar í upplýsingaskrifstofu og 40% ferðamanna (erlendra) sem komu til Vestfjarða hafi lítið vitað um svæðið fyrirfram. Þýskir ferðamenn skipuleggja ferðalög sín með góðum fyrirvara allt að 5 mánuðum, þannig að talsverður hópur er þegar búinn að skipuleggja ferð sumarsins.

Markaðsskrifstofa Vestfjarða er nauðsynlegur kostur fyrir ferðaþjónustu á Vestfjörðum. Þar yrði samræmd kynning- heimasíðuþjónusta- og góð tenging við ferðamenn. Samræmd kynning allra Vestfjarða er nauðsyn fyrir ferðaþjónustuna og þátttaka allra ferðaaðila því nauðsynleg. Það er ekki nægilegt að auglýsa bara símanúmer sitt. Ferðamaðurinn gerir kröfu til þess að komast á heimasíðu viðkomandi og sjá hvað er í boði og geta síðan haft samband.

Vesturferðir ehf hafa tileinkað sér og verða í framtíðinni að tileinka sér breytingar í þjónustu við ferðamenn og þeir verða að starfa af eigin frumkvæði og afkomu. Styrkir til einstakra verkefna og áherslu sérkenna verða þeir að sækja sjálfir m.a. til Ferðamálaráð og fleiri. Hins vegar er stórkostleg styrkveiting frá bæ og ríki til niðurgreiðslu eitthvað sem tilheyrir fortíðinni.

Fylkir Ágústsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi