Grein

Jónína S. Guðmundsdóttir.
Jónína S. Guðmundsdóttir.

Jónína S. Guðmundsdóttir | 30.01.2006 | 16:28Geðsjúkdómar

Mig setur hljóða. Er orða vant. Við, hópurinn hér á Ísafirði og nágrenni sem eigum við geðsjúkdóma að stríða, misalvarlega, söknum eins félaga okkar. Hún er sem betur fer ekki dáin og ég vona að hún verði hundgömul og við getum notið hæfileika hennar um ókomin ár. Fyrir áramótin greindi okkur, mig og hana, á um hvernig best væri að standa að kynningum á geðsjúkdómum okkar. Ég, borinn og barnfæddur Ísfirðingur, taldi best að kynningin færi fram sem almenn fræðsla undir nafnleynd, svo ekki væri hægt að tengja kynninguna við ákveðna manneskju.

Lesendur segðu þá bara; ójá, þetta er hún eða hann, svo sem ekkert skrýtið að þetta hrjái viðkomandi af því að… o.s.frv. Þ.e.a.s tengdi kynninguna við persónuna, ekki sjúkdóminn. Mér fannst meira vert að lesendur kynntust sjúkdómnum, en ekki manneskunni með akkúrat þennan sjúkdóm. En hún vinkona mín úr hópnum hafði kynnst starfsemi Hugarafls í Reykjavík, betur en ég. (hugarafl.is) Hún vildi koma fram undir nafni. Kynna sig og þann sjúkdóm sem hún er að kljást við, skítt með það þó fólk tengdi skrifin við persónuna, fortíð hennar eða hvað sem er. Hún er manneskja með ákveðinn sjúkdóm, punktur og basta. Og hafði mætt þvílíkum fordómum í gegnum tíðina vegna sjúkdóms sins að það hálfa væri nóg. Eftir ýmsar vangaveltur og spjall, fram og til baka, var ég enn ekki viss. Hugsaði út frá sjálfri mér og vissi að ef ég setti fram grein um minn geðsjúkdóm, þá fyndu lesendur strax skýringar hjá sjálfum sér. Tja, það er svo sem ekkert skrýtið þó HÚN sé svona, hún sem…. o.s.frv.

M.ö.o. taldi ég að ekki yrði hægt að setja fram kynningu án þess að hnýtt yrði aftan í greinarhöfund eitthvað persónulegt og lesendur færu að leika litla guði með allt á hreinu, sínar eigin skýringar á hvers vegna svo er komið fyrir manneskju sem þeir þekkja eða telja sig þekkja. Þá færi fyrir lítið sjálf kynningin á viðkomandi sjúkdómi. Vinkona mín úr geðræktarhópnum fylgdi sinni sannfæringu. Hún var hún og ef fólk tæki henni ekki sem slíkri, þá, hvað með það. Markmið hennar var að eyða ótta og fordómum almennings. Hún kom upp bloggsíðu, tvisvar, undir nafni, þar sem hún greindi m.a. frá því hvernig sjúkdómurinn hennar birtist. Það þarf mikinn kjark til opinbera veikindi sín. Sjúkdómur hennar er alvarlegur og margir muna eftir myndinni Englar alheimsins sem gefur ágæta mynd af þróun hans.

Þegar ég fer á bloggsíðurnar hennar, les ákall hennar, óskir ,vonir og þrár, hinnar ungu hæfileikaríku konu, þá finn ég hve einmana hún er og hefur verið í raun og veru. Skynja baráttu hennar fyrir að fá að lifa sem hún sjálf. Hún er kjarkmikil, því hún ákvað að koma hingað vestur og reyna að lifa eins og hver annar, með stuðningi. Það er takmarkað hversu mikinn stuðning hún getur fengið hér á Vestfjarðakjálkanum og þrautlendinging er og hefur verið að senda hana suður þegar hún verður veik. Svo er hún heilbrigð á milli. Ef – EF – það væri búið að koma upp geðsviði hér í tengslum við Heilsugæsluna og EF væri, þó ekki væri nema eitt sjálfstætt sambýli hér, þá þyrfti fólk eins og hún ekki að fara sífellt suður þegar veikindin hrekja hana út í dimmasta skot, þar sem ekkert er eftir nema raddir sem segja henni að drepa sig.

Geðklofi er alvarlegur sjúkdómur. Hún lýsir sjúkdómi sínum mjög vel á bloggsíðunum sínum, er svo einlæg og klár, að bara með þessu ákalli á síðunum, kallar hún á hjálp OKKAR. Ég hugsa stundum, að stuðningur sem ég gæti boðið henni væri eins og haltur leiðir blindan. Ef ég væri sjálf hress og allt í lagi með mína heilsu, þá hefði ég trúlega haft oftar samband, hitt hana oftar og við getað skrifað greinar saman. Það er bara ekki þannig, því sjálf er ég andlega veik. Og mér finnst að alltof margir sem ég þekki séu með skýringar á reiðum höndum vegna þess. Ósköp einfaldar skýringar og til að ná bata þurfi líka einfaldar aðferðir.

Enginn veit um myrkrið sem ég þarf að berjast við sínkt og heilagt. Þetta myrkur á ekkert skylt við aðstæður, erfiðleika, fortíð né nútíð. Það er bara myrkur sem leggst yfir, án fyrirvara og engin skýring er á. Myrkrið vill að ég hverfi. Og ég berst á móti. 90 % af orkunni fer í að berjast á móti því, vegna þess að ég vil lifa, vera til, taka þátt í samfélaginu. Myrkrið er ekki út af neinu sérstöku, því myrkrið er sjúkdómur.

Mikið vatn hefur til sjávar runnið síðan ég tók þátt í geðræktarhópnum á mánudögum frá því í haust. Mér er ljóst að alltof margir sitja einir heima, berjast við sitt myrkur og eru við það að gefast upp. Eitthvað þarf að gerast. Við getum bara ekki dáið drottni okkar eða flutt í burtu. Reykjavík og Akureyri eru komin með sitt geðsvið. Það vantar slíkt hér. Það er engin lausn að senda fólk í veikindum í burtu. Eða fólk flytjist alfarið burt. Það eina sem þarf til að vont þróist áfram er gott fólk til að líta undan.

Hversu lengi getum við horft undan, yppt öxlum og látið sem ekkert sé? Burt með vandann, flytjum hann í burtu, látum sem hann sé ekki til, úps. Hversu margir eru að kljást við alls kyns geðröskun, en þora varla að tala um það? Einangra sig heima og brotna smám saman niður, því það veldur ekki daglegum verkefnum og skyldum? Hversu margir eiga við depurð og kvíða að stríða og vita ekkert hvert á að leita? Hversu margir eiga um sárt að binda vegna ástvinamissis eða sjúkdóma? Missa atvinnu og um leið stóran hluta af sjálfinu? Eitthvað verður að gera. Til allrar hamingju er ein góð manneskja hér á Ísafirði byrjuð að berjast fyrir athvarfi, batahúsi fyrir alla þá sem eiga um sárt að binda.

Annað er í bígerð; lengi hefur verið vöntun á eftirfylgd og stuðningi þeirra sem þurfa á meðferð að halda. Ráðgjöf. Hér er ekkert áfangaheimili fyrir þá sem vilja t.d. ná sér eftir sjúkdóminn alkoholisma. Engir ráðgjafar. Engin eftirfylgd. Félagar sem hafa náð árangri gera allt sem þeir geta til að hjálpa nýliðum. Nú er í sjónmáli lausn á þeim vanda. Vestfirðingar! Við erum góðar manneskjur, lítum ekki undan. Hér er gífurlegur mannauður sem því miður fer of oft í súginn vegna þess að einstaklingarnir eiga í erfiðleikum og vita ekki hvert skal leita eftir aðstoð. Látum ekki flagga í hálfa stöng bara út af því. Gerum það sem við getum til að koma í veg fyrir slíkt.

Til stuðnings félaga mínum úr Geðræktarhópnum (nánari upplýsingar um fundi er að finna á heimasíðu Rauða krossins eða hægt að hafa samband við Bryndísi Friðgeirsdóttur), þá sendi ég þessa grein í BB undir nafni. Og ég bið vini og ættingja að virða það, að hið króníska þunglyndi mitt og kvíðasjúkdómur er veiki sem á ekkert skylt við fortíð eða nútíð, erfiðleika, streitu, aðstæður, ekkert af því. Það er sjúkdómur sem er myrkur og ég berst við myrkrið þangað til sigur fæst. Bloggsíða félaga míns er http://www.blog.central.is/sing.

Ég vil gjarnan að þið lítið á þessar síður og sjáið með eigin augum myndir af heillandi manneskju og lýsingar á baráttu hennar. Hvað hún er og hefur verið að kljást við. Að lokum, við Vestfirðingar þurfum enga stóriðju til að lifa góðu lífi. Við þurfum fyrst og fremst að virkja mannauðinn okkar. Því það er ótrúlegt hvað sá auður leiðir af sér og getur leitt af sér í framtíðinni.

Með virðingu og þökk
Jónína S. Guðmundsdóttir.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi