Grein

Gunnar Þórðarson.
Gunnar Þórðarson.

Gunnar Þórðarson | 27.01.2006 | 11:50Sameining íþróttafélaga

Undanfarna mánuði hefur verið unnið að sameiningu fjögurra íþróttafélaga á Ísafirði. Þau eru Skíðafélag Ísfirðinga, Körfuknattleiksfélag Ísafjarðar, Boltafélag Ísafjarðar og Sundfélagið Vestri. Þetta eru stærstu félögin innan Héraðssambands Vestfirðinga sé litið til iðkendafjölda með skipulagða leiðsögn þjálfara. Undanfari sameiningarvinnunnar voru viðræður félaganna um samrýmingu iðkendagjalda og íþróttaæfinga barna yngri en 12 ára, svo kostur gæfist á að æfa fleiri en eina íþróttagrein án þess að íþyngja foreldrum of mikið fjárhagslega.

Rannsóknir hafa einmitt sýnt að skipulagt íþróttastarf barna er besta forvörnin gegn vímuefnavá og líklegra er að þau endist fram yfir unglingsárin í íþróttastarfi hafi þau fundið sér íþróttagrein við hæfi. Til að svo verði þurfa börn að geta reynt sem flestar íþróttagreinar. Sumir sækja í einstaklingsgreinar en aðrir liðsheild, og því verða börnin að hafa val. Viðræðurnar rak reyndar fljótlega í strand af mörgum ástæðum sem ekki verða raktar hér, en þessi mál eru í eðli sínu flókin í framkvæmd.

Síðastliðinn vetur kom upp sú hugmynd að sameina stóru félögin sem fjórar deildir í einu félagi og bjóða í framhaldinu öðrum íþróttafélögum inngöngu. Kosin var nefnd undir formennsku Gylfa Guðmundssonar og fljótlega var samrunaferlið skipulagt og hefur verið unnið markvisst eftir því. Í dag er verið að bíða eftir ársreikningum félaganna fjögurra, leita að mönnum í stjórn hins nýja félags ásamt að nafni á nýtt félag.

Ávinningur sameiningarinnar verður m.a. markvissara og öflugra starf. Reiknað er með því að nýtt félag verði með framkvæmdastjóra á launum sem sjá muni um daglegan rekstur hins nýja félags og hafa eftirlit með skipulagi og fjármálum deilda. Þar með mun þekking og yfirsýn ekki glatast við hver stjórnarskipti. Hægur leikur verður að koma inn sem nýr stjórnarmaður í deild þar sem fjármál og skipulag er í lagi. Auðveldara ætti að reynast fyrir nýtt félag að afla fjármagns í krafti stærðar. Þar með er brugðist við því breytta umhverfi að færri fyrirtæki hafa ídag borð fyrir báru til að styðja myndarlega við íþróttahreyfinguna.

Vonast er til að sameining félaganna auki einingu innan íþróttahreyfingarinnar og að í framtíðinni sjáum við sundkrakka hvetja sitt lið í körfu eða fótbolta sem dæmi. Stefnt er að því að félagið taki yfir alla þjónustu og verkefni sem HSV hefur sinnt og mun starfsemi héraðssambandsins þá leggjast af í þeirri mynd sem verið hefur.

Gangi sameiningin í gegn á þingi HSV þann 8. apríl n.k. mun öðrum íþróttafélögum á svæðinu umsvifalaust vera boðin innganga. Búið er að semja lög hins nýja félags og góðar hugmyndir komnar um skipurit.

Enn hefur nafn á félagið ekki verið valið og nú er farið fram á aðstoð bæjarbúa við það. Notkun nafna og lógóa þeirra félaga sem ganga inn í hið nýja félag mun leggjast af og verða þau eftir það til sem hluti íþróttasögunnar. Nýtt nafn er mikilvægt og eitt af því sem sameinar hópinn, vonast er til að mynda megi breiða samstöðu um það í samfélaginu. Nokkrar hugmyndir hafa komið fram og væri gott að fá viðbrögð þín, lesandi góður, við þeim. Gott væri að fá stuðning við það nafn sem þér líkar á listanum hér að neðan, eða uppástungu um betra nafn sem kemur upp í huga þér. Einnig viljum við heyra ef fólki finnst eitthvert nafnanna hér að neðan ómögulegt og þá ástæður þess.

Þau nöfn sem fram hafa komið eru:
Vestfirðingur
Vestri
Ísfirðingur


Vinsamlegast sendið viðbrögð við nafni á hsv@hsv.is og merkið það NAFNIÐ.

F.h. sameiningarnefndar,
Gunnar Þórðarson og Gísli H. Halldórsson.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi