Grein

Sigurður Jónsson.
Sigurður Jónsson.

Sigurður Jónsson | 25.01.2006 | 16:54Vegasamgöngur í Jökulfirði?

Hvað er að gerast Bjössi? Er það orðin pólitísk stefna Samfylkingarinnar að halda opinni akstursleið í Jökulfirði? Verður Í-listinn með þetta á stefnuskrá sinni í vor? Hvað með aðra flokka? Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að standa með bæjarstjóranum sínum? Fyrst menn hafa kosið að gera þetta að pólitísku máli þá verður áhugavert að fylgjast með stefnumörkun framboðanna í umhverfis- og skipulagsmálum þegar nær líður kosningum.

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með því hvernig umræða um vegagerðina í Jökulfjörðum hefur þróast. Sólberg Jónsson passaði sig auðvitað mjög vel á því að nefna aldrei vegagerð þegar hann átti í viðræðum við bæjaryfirvöld um framkvæmdir í Leirufirði. Þá var eingöngu rætt um að ýta upp melum til að færa til jökulána þannig að hún rynni ekki yfir nokkrar trjáplöntur sem nýlega var búið að setja niður á melunum. Þetta var gert í nafni náttúrverndar eða til að „verja land“ sem er auðvitað nokkuð skondið. Einu raunverulegu skemmdirnar sem hafa orðið á landi þarna síðustu áratugi voru unnar með jarðýtu síðasta sumar. Svokallað landrof er bara eðlileg hreyfing á jökulá sem aldrei verður tamin.

En, allt í lagi, þetta virðist hafa átt einhvern stuðning opinberra aðila og þá var næsta skref. Hvernig skyldi koma tækjum í Leirufjörð til að vinna þetta verk? Ekki vildi Sólberg fara sjóleiðina heldur taldi nauðsynlegt að „labba“ á ýtu yfir heiði. Jafnvel þetta hefði etv verið hægt að gera án stórkostlegra vegaframkvæmda. En þá kom að því að flytja olíu að tækjunum (!). Lítið mál hefði verið að flytja hana sjóleiðina. En, nei, nú þyrfti að gera ökufæran veg. Var það ef til vill alltaf tilgangurinn með öllu þessu ati, að lauma þarna inn vel jeppafærum vegi og ýta svo og pota þangað til hann fengi að standa um alla framtíð?

Var með þessari vegalagningu kannski að rætast draumur Sólbergs um vegasamgöngur milli Ísafjarðardjúps og Jökulfjarða? Þarna er þetta svæði opnað fyrir bílaumferð. Þetta er því ekki um að ræða einhverja minniháttar leyfisveitingu vegna einnar jarðýtu heldur stórkostlega stefnumarkandi ákvörðun um að breyta áratuga gömlu skipulagi. Slíka ákvörðun getur ekki ein nefnd Ísafjarðarbæjar tekið á eigin spýtur og þar af síður getur einn landeigandi gert þetta. Hvað gerist næst: á að setja brú á ána og byggja veg yfir að Dynjanda? Á síðan að halda áfram yfir að Höfðaströnd og laga slóðann þaðan yfir í Grunnavík? Geta landeigendur ákveðið þetta hver fyrir sig?

Umhverfisnefnd lagði til við bæjarstjórn að framkvæmdirnar yrðu leyfðar „enda verði allt jarðrask vegna umferðar vinnutækis til og frá Leirufirði lagfært“ – þetta virðist mjög einfalt. Það getur vel verið að Halldór bæjarstjóri hafi verið full snöggur uppá lagið með lögregluna í haust. En lái honum hver sem vill. Það virtist augljóst að þarna var ekki um einfaldan flutning vinnutækis til og frá að ræða heldur kláran og einbeittan ásetning um vegagerð. Það hlýtur að hafa farið mjög í taugarnar á honum þegar hann sá hvernig hann og aðrir starfsmenn og embættismenn Ísafjarðarbæjar höfðu verið plataðir.

Sýslumaður tekur fullkomlega undir sjónarmið bæjarstjórans og staðfestir að umrót hefði verið mun meira í Leirufirði en gert hafði verið ráð fyrir í upphafi, og leyfishafi hefði gert jeppafæran slóða yfir í fjörðinn. Vandamálið er auðvitað að engin tímasetning var á því hvenær lagfæringum skyldi lokið og getur því lögreglan ekki aðhafst frekar.

En ókei, skaðinn er skeður. Er þá ekki einfalt að gefa Sólberg ríflegan frest, til dæmis fram á haustið til að koma landinu í sama horf og það var áður og fjarlægja þennan veg? Síðan á að loka restinni af þessum slóða alla leiðina frá Unaðsdal og sjá til þess að þarna verði aldrei aftur umferð ökutækja.

Hérna verða menn að skoða hlutina í stærra samhengi og horfa til framtíðar. Vilji menn breyta áratuga skipulagi og opna fyrir bílaumferð í Jökulfirði hlýtur að þurfa að fara fram eðlileg skipulagsvinna. Það er enginn millivegur til, annaðhvort er þarna vegur eða ekki. Það mun aldrei ganga að halda veginum og leyfa takmarkaða umferð.

Menn hafa sagt að þarna sé land að hluta til í einkaeigu og Sólberg eigi því fullan rétt á því að gera það sem hann vill þarna. Ég segi samt að það sé langt í frá að þetta sé einkamál hans (styrkti ríkið hann ekki um 2,5 milljónir til að stússast í þessu?). Jökulfirðir hafa mikla sérstöðu þar sem ekkert samfellt svæði eins og þetta, þar sem ekki er umferð ökutækja, er til á Íslandi. Þetta er nú þegar verðmætt fyrir ferðaþjónustu og almenning á svæðinu og á eftir að verða enn verðmætara eftir því sem slíkum svæðum fækkar. Leirufjörður er einn fallegasti og sérstæðasti staður á landinu. Hvergi annarstaðar gengur skriðjökull svona niður í óbyggðan fjörð.

Skv lögum þá er „mönnum heimilt, án sérstaks leyfis landeiganda eða rétthafa, að fara gangandi, á skíðum, skautum og óvélknúnum sleðum eða á annan sambærilegan hátt um óræktað land og dveljast þar“. Hver sem er á fullan rétt á því að ganga um Leirufjörð og njóta fegurðar hans, Drangajökuls og Jökulfjarða. Jafnvel tjalda þar og gista – slíkt getur enginn landeigandi bannað.

Ísafirði 25. janúar 2006
Sigurður Jónsson,
Hlíðarvegi 38, Ísafirði.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi