Grein

Magnús Þór Hafsteinsson.
Magnús Þór Hafsteinsson.

Magnús Þór Hafsteinsson | 20.11.2001 | 09:46Þegar fingurinn bendir ...

Það hefur verið einkennilega spaugilegt og skrýtið að fylgjast með fullyrðingum um að brottastið frá borði Bjarma BA og Báru ÍS hafi verið sviðsett. Níels Ársælsson skipstjóri og útgerðarmaður Bjarma fullyrti í viðtali við Stöð 2 fyrir helgi, að brottkast frá hans bát hefði verið sett á svið, en hvorki ég né Friðþjófur Helgason hefðum gert okkur grein fyrir því að um sviðsetningu væri að ræða. Heil vika var liðin frá birtingu brottkastsmyndanna þegar Níels sagði þetta. Ég ætla ekki að eiga í deilum við Níels um þessa fullyrðingu hans. Hér verður orð að standa á móti orði.
Eða kannski réttara sagt: Fullyrðing á móti röksemdum.

Bæði ég og Friðþjófur Helgason kvikmyndatökumaður erum sannfærðir um að ekkert hafi verið sett á svið. Þessar myndir sem sýndar voru þjóðinni fimmtudaginn 8. nóvember eru sannar. Þær sýna raunverulegt brottkast á dýrmætum fiski við strendur Íslands dagana 2. til 6. nóvember síðastliðinn. Við stöndum fyllilega við þær að öllu leyti. Fyrir því má færa mörg rök. Best er að tína nokkur þeirra til hér:

1.
Níels Ársælsson skipstjóri og útgerðarmaður Bjarma gaf fyrst samþykki sitt fyrir því að við fengjum að mynda brottkast um borð í hans bát snemma í haust. Þá sagði hann að það þýddi ekkert fyrir okkur að koma um borð þá. Við yrðum að bíða þar til veiðin glæddist. Aflabrögð voru mjög treg í allt haust. Hefði Níels viljað leiða okkur í gildru þar sem hann setti brottkast á svið, þá hefði hann boðið okkur að koma sem allra fyrst. Það hefði verið hægur vandi fyrir hann að sigla með okkur á einhverja þekkta smáfiskableyðu og setja brottkastið þar á svið.

2.
Þetta var sem sagt ekki gert. Við biðum átekta og fórum ekki af stað fyrr en eftir að fyrsti alvöru stormur haustsins hafði dunið á Vestfjarðamiðum. Það var nú um síðustu mánaðamót. Ferðin var farin upp á von og óvon. Enginn vissi hvort aflabrögð yrðu góð eða ekki. Yrði fiskiríið lélegt, þá var ljóst að við hefðum farið fýluför. Það kom svo í ljós að mokfiskirí var á hefðbundunum dragnótarslóðum við Vestfirði. Á tveim dögum sem við vorum um borð í Bjarma veiddu Níels og áhöfn hans alls um 70 tonn. Langmest af þorski. Öllum þorski undir í kring um 2,5 kíló og allri ýsu undir ca. 1,5 kíló var undantekningalaust hent. Auk þess var öllum flatfisk fleygt í hafið. Lenti áhöfnin í því að taka snurvoðahöl þar sem mikið var af fiski sem var fleygt, þá reyndi Níels undantekningalaust að færa sig um set á aðrar slóðir þar sem von var um að fá eingöngu stórþorsk. Þetta gerði hann til að reyna að forðast brottkastið. Mestu var kastað í upphafi veiðiferðar, á meðan Níels var að gera sér grein fyrir því hvar stórfiskinn væri að finna. Í mörgum hölum var ekki einum einasta fisk fleygt í hafið. Þau áttu það öll sammerkt að skila eingöngu stórum þorski um borð. Hefði Níels og áhöfn hans viljað setja brottkastið á svið með sem mest krassandi hætti, þá hefði hann vafalítið lagt minni áherslu á að leita uppi stórþorskinn, en í staðinn haldið brottkastsýningu fyrir myndavélarnar þar sem mest var um fisk undir ofangreindum mörkum.

3.
Við Friðþjófur höfum báðir margoft verið á sjó. Við þekkjum allvel til vinnubragða um borð í fiskiskipum. Ekkert í látbragði, talsmáta eða vinnubrögðum sjómannana benti til að þeir væru að gera eitthvað óvenjulegt þegar þeir hentu fiski í hafið. Þvert á móti. Þeir tjáðu okkur að þetta hefði oft gerst við veiðarnar. Brottkastið var og í samræmi við vísbendingar sem komið hafa fram í rannsóknum og könnunum sem framkvæmdar hafa verið nýlega á vegum Fiskistofu og sjávarútvegsráðuneytisins.

4.
Veiðiferðin með netabátnum Báru var farin eftir að túrnum með Bjarma var lokið. Við ámálguðum það við Sigurð Marinósson skipstjóra og útgerðarmann að fá að fara með og mynda brottkastið um borð í þeim bát kvöldið áður en lagt var af stað í róðurinn. Hvorki útgerð eða áhöfn vissu því að myndatökumenn yrðu um borð þegar lagt yrði af stað í róður morguninn eftir. Netin voru þegar lögð í sjó daginn áður. Myndir teknar um borð í Báru sýna að öllum dauðblóðguðum þorski var hent, auk þess sem allur afli utan stórþorsks fór í hafið aftur.

Þessi fjögur atriði læt ég nægja að sinni sem rökstuðning fyrir því að myndirnar hafi verið sannar. Þó mætti fleira tína til.

Síðan langar mig aðeins til að svara þeim sem hafa af veikum mætti reynt að draga sannleiksgildi myndanna í efa.

Sumir sjálfskipaðir sérfræðingar um fiskveiðar hafa á undanförnum dögum talað fjálglega um að myndirnar beri þess glöggt vitni að hafa verið settar á svið. Þar er ég nefndur til sögu sem aðalsökudólgur. Friðþjófur Helgason myn


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi