Grein

Níels A. Ársælsson.
Níels A. Ársælsson.

Níels A. Ársælsson | 04.01.2006 | 09:39Sjóræningjar utan sem innan lögsögu Íslands

Nú boðar okkar kæri ráðherra sjávarútvegsmála, Einar K. Guðfinnsson, stórsókn gegn ránsskap útlenskra veiðiþjófa á Reykjaneshrygg. Í fyrihugaðri orustu gegn illþýði þessu skal telft fram hinni vel búnu Landhelgisgæslu sem hefur á að skipa fjölbreyttum tækjakosti. Að vísu ekki alveg af nýjustu sort, en hvað með það? Tækjakosti engu að síður. Þarna er um að ræða löngu tímabærar aðgerðir gegn sjóræningjum á Reykjaneshrygg þótt sú staðreynd hafi löngum legið fyrir að sennilega er sjóræningjaflotinn af lang stærstum hluta í eigu Íslendinga sjálfra. En hvað með það? Sjóræningjar engu að síður.

Og nú skal tekið hressilega á þeim ribböldum sem kokkað hafa með sölumál afurðana frá sjóræningjunum þótt sú staðreynd hafi löngum legið fyrir að þau fyrirtæki sem kaupa ránsfenginn eru að lang stærstum hluta í eigu Íslendinga í Eystrasaltslöndunum. En hvað með það? Sjóræningjar engu að síður.

Fyrst ráðherra sjávarútvegsmála með fulltingi Landhelgisgæslunnar ætlar í svo stórtækar aðgerðir gegn sjóræningjum vorra tíma á Reykjaneshrygg þá vill ég fá að þakka honum fyrir og jafnframt benda ráðherra á í leiðinni að innan íslensku fiskveiði lögsögurnar er stundaður enn meiri ránskapur og mun alvarlegri en veiðar sjóræningja á Reykjaneshrygg. Sjóræningjar undir íslenskum fána aðhafast óáreittir innan íslensku fiskveiðilögsögunar í skjóli sjávarútvegsráðuneytisins og Fiskistofu. Þessar tvær ríkisstofnanir sem heyra undir ráðherra sjávarútvegsmála láta sem ekkert sé og heimila stórfeldar og ofbeldisfullar veiðar með flottrolli á loðnu, síld og kolmunna í slíkum mæli að stappar við geðveiki.

Meðalafli íslensku flottrollskipana er óheyrilegur, allt frá seiðum upp í stærstu bolfiska og allt þar á milli. Þúsundum, jafnvel tugþúsundum tonna er slátrað af seiðum og bolfiski hvert ár og brætt í mjöl og lýsi til útflutnings í skepnufóður. Ekki hefur ráðuneyti sjávarútvegsmála séð ástæðu til þess að krefja útgerðir flottrollskipa um kvóta í bolfiski fyrir þessum gríðarlega meðafla heldur einungis látið sem ekkert væri sjálfsagðara og eðlilegra en að rándýr bolfiskur og seiði séu brædd í mjöl og lýsi eins og um skítfisk sé að ræða.

Á sama tíma eru skósveinar Fiskistofu á höttunum um allt land og miðin á eftir sára saklausum fiskimönnum sem í neyð sinni reyna að bjarga sér með því að sleppa verðlausum smátittum í hafið vegan fáráðnleika þeirra laga sem Alþingi Íslendinga hefur sett þeim. Það alvarlegasta við sjóræningja veiðar Íslendinga með flottroll innan íslenskrar landhelgi er að allt lífríki sjávar við Ísland er í eintómri klessu. Næring alls lífríkis sjávar er að verða upp urið og heilu fiskistonnarnir eru hreinlega að hverfa, samanber ástandskýrslu Hafrannsóknastofnunar.

Smug uppsjávarfiska í gegnum flottroll drepur allt að tífallt það magn sem að landi kemur úr flotrollsskipunum, það er staðreynd enda hefur það verið sannað með vísindalegum ransóknum erlendis. Hvað er að ráðamönnum þessa lands? Af hverju er ekki tekið á þessari vitleysu? Þarf að kalla til umhverfissamtök erlend eins og Greenpeace til aðgerða?

Virðingarfyllst.
Tálknafirði 04.01.2006.
Níels A. Ársælsson.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi